MMR birti í gær nýjustu skoðanakönnun sína um kosningaætlan fólks, sem menn hafa svo lesið eitt og annað í, þó að niðurstöðurnar hafi nú bara verið svo og svo fréttnæmar. Nú er það auðvitað svo að skoðanakannanir eru misáreiðanlegar, mismunandi aðferðafræði felur í sér misgóða fylgni við árangur í kosningum, en eins er það þannig að velflestar skoðanakannanir í dvergríkinu eru gerðar með slembiúrtaki, en kosningaþátttaka er engan veginn jöfn eftir aldurshópum, menntunarstigi, tekjum, búsetu og þar fram eftir götum. Svo er það líka svo að stærð úrtaksins skiptir máli og vitaskuld hversu margir úr því svara spurningunum. Sem aftur hefur áhrif á skekkjumörkin, sem iðulega eru töluverð í íslenskum könnunum af þessu tagi. Ekki þá síður eftir því sem framboðum hefur fjölgað.

Enn frekar á þetta þó við þegar ekki er um eiginlegt slembiúrtak þjóðarinnar að ræða (margt fólk nennir orðið ekki eða hefur ekki tíma til að svara spurningum könnuða upp úr þurru), heldur er oft notast við „spurningavagna“ í netkönnun hjá fólki, sem kveðst fúst að svara. Þar eru úrtök og svör ljóslega beygluð miðað við þjóðina, en þó að könnunarfyrirtækin beiti allri sinni kunnáttu til þess að laga úrtökin og vega svörin, þá er þar óhjákvæmilega ekki um jafngóðar eða áreiðanlegar kannanir að ræða. Og við því lítið að gera. Annað en auðvitað að taka niðurstöðunum með hæfilegum fyrirvara. Þar hjálpar auðvitað að flestar endurteknar kannanir einstakra fyrirtækja eru gerðar með sömu eða sambærilegri aðferðafræði, svo þær eru a.m.k. nokkuð ábyggilegar innbyrðis og menn geta rifjað upp hvernig hneigðirnar í þeim skömmu fyrir kosningar samræmdust kosninganiðurstöðum. Að því leyti er máske rétt að vara fólk við að taka fylgistölur framboðanna of hátíðlega, þó þær gefi yfirleitt nokkuð góða mynd af stöðunni, en horfa fremur til þróunar milli kannana hjá hverju fyrirtæki fyrir sig. Þær gefa oftast býsna góða mynd af hreyfingunni á fylginu, þó að skekkjan á hverri fylgistölu geti verið töluverð.

***

Í þessu ljósi er það oft gagnrýnisvert hve fjölmiðlar eru stundum fúsir til þess að segja stórfréttir af fylgisbreytingum hjá flokkum, sem sumir eru með vel innan við 10% fylgi og fylgisbreytingarnar stundum brot af prósentustigi, oft vel innan skekkjumarka. Þegar svo háttar er nánast villandi að tala um fylgisbreytingar, það er suð fremur en sveifla. Stundum er raunar erfitt að átta sig á því. Ef skoðanakönnuðirnir greina ekki frá skekkjumörkunum er erfitt fyrir fjölmiðla að átta sig á slíku, hvað þá þannig að unnt sé að greina frá með þeirri nákvæmni sem þyrfti.

Samt sem áður eiga þeir nú að vera meðvitaðir um slíkt, einkum þegar um er að ræða flokka með tiltölulega lítið fylgi, sem sumumhefur orðið mjög misvel ágengt eftir kjördæmum. Við blasir að þá er ekki á miklu að byggja þó að niðurstöðurnar virðist sýna að fylgið hafi „hrapað“ úr 5,6% í 4,0% sem er nánast þriðjungsfall taki menn tölurnar bókstaflega. Í könnunum, þar sem níu flokkar eru tilteknir, stærsti flokkurinn er með innan við 20% fylgi, sá minnsti með 3% og miðgildi flokkanna um 10%, þá blasir við að áreiðanleikinn er bara svo og svo mikill. Enginn getur fullyrt neitt um hlutföllin milli Miðflokks (14,8%) og Samfylkingar (14,1%) eða Viðreisnar (11,0%), Vinstrigrænna (10,3%) og Framsóknar (10,1%). Þessir flokkar eru bara á sama reki.

***

Fjölmiðlarýnir sá hins vegar út undan sér á netinu, að kjósandi nokkur sem aðhyllist ekki neinn þessara níu flokka, var frekar súr yfir því að í niðurstöðum MMR hefði fylgi annarra verið steypt saman í eina tölu yfir annað. Það er raunar ekki alveg svo gott, því að í fréttatilkynningu MMR sagði að „fylgi annarra flokka mældist 2,4% samanlagt“, en beint fyrir neðan var línurit yfir fylgisþróun, þar sem fylgi annarra var sagt 1,2%. Hvernig sem því er farið, þá eykur það ekki tiltrú á nákvæmni niðurstaðanna. Nú er það skiljanlegt að stuðningsmönnum annarra framboða en þessara níu þyki súrt í brotið að ekki skuli vera greint nákvæmlega frá fylgi þeirra í fjölmiðlum. Hins vegar er ekki beinlínis við þá að sakast um það, þeir byggja auðvitað fyrst og fremst á tiltækum gögnum og MMR tíundaði ekki fylgi nema þessara níu.

En jafnvel þó svo að MMR hefði nú birt það allt, þá er ástæðulaust við að agnúast út í fjölmiðla fyrir að skýra ekki nákvæmlega frá því. Þeirra höfuðhlutverk er að greina frá hinu fréttnæma — greina kjarnann frá hisminu — og það hversu mikið fylgi eitthvert þeirra 15 framboða, sem flokkast gætu undir „Annað“ og fengu samanlagt 1,2%, kannski 2,4%, það er ekki fréttnæmt. Mörg þessara 15 framboða eru ekki virk og aðeins talin til af sögulegum ástæðum, en jafnvel þó svo að þar í væru 4–5 virk framboð með fylgi, sem samanlagt næði þessum 1,2–2,4%, þá er augljóst að þar ræðir um svo lítið fylgi að engu skiptir og öll þeirra gleypt af skekkjumörkunum.

***

Þar glittir hins vegar eilítið í vanda fjölmiðla gagnvart stjórnmálaframboðum. Vegna þess að framboð eru hluti af gangverki lýðræðisins, finnst mörgum að fjölmiðlum eigi að vera skylt að greina frá þeim öllum og gera jafnt undir höfði. Svo mjög að ýmis dæmi eru um framboð, sem stofnað er til gagngert til þess að fá rými fyrir málflutning í fjölmiðlum, þó að engar vonir séu til árangurs í kosningum eða minnsta frekari tilraun gerð til þess að höfða til kjósenda. Þar á Ríkisútvarpið raunar í sérstökum vandræðum, það þarf lögum samkvæmt að sinna þeim öllum með einhverjum hætti. En frjálsu miðlarnir, þeim ber ekki að segja frá öðru en þeim sýnist, því sem fréttnæmt má teljast.

Hitt er annað mál, að stundum virðast manni skoðanakannanafyrirtækin nokkuð sein á sér við að aðlagast breyttum aðstæðum. Sum þeirra hafa þannig gefið svarendum kost á að ljá stuðning sinn við framboð sem eru fyrir löngu úr sögunni, en draga úr hömlu að gefa kost á nýjum og upprennandi framboðum. Þannig var á sínum tíma ekki hægt að segjast styðja Viðreisn, af því að hún var ekki beinlínis komin fram með framboð, þó að öllum væri ljóst hvert stefndi með það. Sömu sögu má segja um Sósíalistaflokkinn, sem dúkkaði ekki upp í könnunum fyrr en rétt fyrir borgarstjórnarkosningar í fyrra. Þar mættu þau og miðlarnir gera betur.