*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Örn Arnarson
13. apríl 2018 14:42

Aðför gegn neytendum

Þrátt fyrir að ekki sé nægjanlega langt gengið í niðurfellingu tolla með þessum samningum ber að fagna gildistöku þeirra þar sem um er að ræða verulega hagsbót fyrir neytendur.

Haraldur Guðjónsson

Að óbreyttu munu samningar Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur taka gildi um næstu mánaðamót. Þrátt fyrir að ekki sé nægjanlega langt gengið í niðurfellingu tolla með þessum samningum ber að fagna gildistöku þeirra þar sem um er að ræða verulega hagsbót fyrir neytendur. Samningarnir fela í sér gagnkvæma niðurfellingu tolla á fjórða hundrað landbúnaðarvara auk verulegrar aukningar tollfrjálsra innflutningskvóta á kjöti og ostum. Að sama skapi hækka tollfrjálsir útflutningskvótar Íslendinga meðal annars fyrir skyr og lambakjöt.

Þrátt fyrir þetta framfaramál hafa þingmenn Miðflokksins lagt fram þingsályktunartillögu um uppsögn samningsins fyrir gildistöku hans. Í ályktuninni segir: „Samningurinn endurspeglar ekki stærðarmun markaðanna. Í ríkjum Evrópusambandsins er 500 milljóna manna markaður en Íslendingar eru 340 þúsund. Ekki er tekið tillit til gengisbreytinga og samkeppnisfærni íslensks landbúnað­ ar í ESB í viðskiptum með kjötvörur. Verulega hallar á Ísland í viðskiptum með ost en ESB fær að flytja til Íslands tollfrjálst 610 tonn af osti en Ísland til ESB aðeins 50 tonn.“

Íslenskur landbúnaður er og verður aldrei samkeppnishæfur við evrópskan landbúnað. Ekki frekar en að sjávarútvegur í Evrópu verði almennt samkeppnishæfur við íslenskan sjávarútveg. Það kann að vera að samningurinn virðist vera óhagstæður fyrir fá­mennan geira en að sama skapi hagnast allir íslenskir neytendur á honum í formi aukins vöruúrvals, lægra verðs og meiri gæða landbúnaðarafurða.

Í skjóli innflutningshafta gegnum áratugina hefur verið reynt að sannfæra íslenska þjóð um þá reginfirru að almennt séu íslenskar landbúnaðarvörur betri og heilnæmari en þær sem eru framleiddar erlendis. Það er tímabært að þessi hugsun dagi uppi eins og önnur nátttröll og íslenskir neytendur njóti góðs af auknu frelsi í innflutningi á landbúnaðarafurðum. Afkoma innlends landbúnaðar á svo að ráðast af því hvort að vörur hans seljist hér á landi og erlendis. Valið er neytenda, ekki íslenskra stjórnmálamanna eða bænda.

Höfundur er sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.