Síðastliðinn föstudag birtist „frétt" á vef DV, þar sem sagði af nafngreindri íslenskri konu, sem á sínum tíma hefði haldið vestur um haf í leit að frægð og frama í Hollywood, en að það hefði ekki gengið eftir. Var haft eftir heimildarmönnum, flestum ónafngreindum, að hún dveldist ólöglega vestra og hefði framfæri af vændi, en jafnframt látið í skína að hún væri ekki vel stöðug. Með fylgdu myndir af henni, bæði í glitklæðum og fáklæddari.

Fjölmiðlarýnir hefur hvorki forsendur né áhuga á að meta sannleiksgildi þessarar „fréttar". Fréttagildið er ekkert og eina hálmstráið fyrir birtingu hennar sú að konan hefur gert sig breiða á félagsmiðlum, líkt og DV tíundaði. Hins vegar gat engum dulist að þessi rætna umfjöllun var aðeins birt til þess að niðurlægja, sverta og særa konuna með níði og dylgjum um líferni hennar, birtingu á nafni hennar og fjölda mynda.

Þetta var algerlega skammarleg svívirða hjá DV, eins og einhver þar innanbúðar virðist hafa áttað sig á seint og um síðir, þegar fréttin var fjarlægð af vefnum svo lítið bar á. Og þó, sá sem skrifaði viðbjóðinn virðist líka hafa áttað sig á því um leið og hann skrifaði, því þrátt fyrir að konan væri nafngreind, þá var „blaðamaðurinn" það ekki. Svona lagað á ekkert skylt við blaðamennsku, alls ekki neitt. Ekki frekar en megnið af því rausi sem DV birtir dag hvern.

***

Nú gerðist það árið 2006 að maður fyrirfór sér eftir að DV birti forsíðumfjöllun þar sem hann var sakaður um langvinn og gróf kynferðisbrot, en í kjölfar mikillar reiðibylgju í garð blaðsins sögðu þáverandi ritstjórar upp störfum. Ekki af því að þeir bæru beina ábyrgð á því hvernig fór, sennilega aðallega til þess að sefa reiði almennings, en auðvitað voru þeir líka miður sín yfir atburðarásinni, þar sem efnistök og framsetning skiptu máli.

***

Þetta er nefnt vegna þess að blaðamönnum ber að sýna varkárni. Í siðareglum Blaðamannafélagsins er þannig nefnt að blaðamanni skuli vera „ljós persónuleg ábyrgð á öllu sem hann skrifar" að hann þurfi að vanda „framsetningu svo sem kostur er og [sýna] fyllstu tillitssemi í vandasömum málum". Sömuleiðis að hann skuli „forðast allt, sem valdið getur [...] fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu". Í því felst meðal annars að aðgát skuli höfð í nærveru sálar.

***

Það átti svo sannarlega við í ofangreindu máli, þar sem fram kom það álit heimildarmanna að konan ætti við einhverja örðugleika að etja, en ekki þó síður vegna þess að umfjöllunin sjálf var beinlínis og sérstaklega til þess ætluð að valda henni uppnámi og vanlíðan. Kannski það hafi aðeins verið skepnuskapur eða skeytingarleysi, en blaðamaðurinn átti að vita betur. Að ekki sé minnst á ritstjóra eða fréttastjóra, sem leyfðu fréttinni að hanga uppi þar til harðorðar kvartanir bárust. Það á auðvitað sérstaklega við vegna þess, sem síðar er fram komið, að konunni varð svo um að hún lýsti sjálfsvígshvötum á félagsmiðli.

***

Í þessum dálkum hefur áður verið sett fram gagnrýni á DV, bæði ritstjórnarstefnu, efnistök og vinnubrögð, sem oft eiga meira skylt við skáldskap en fréttafrásögn. Og kannski menn vilji sniðganga DV fyrir vikið. En þá skyldu þeir líka hafa hugfast að DV er ekki bara eitthvert hornreka blað, þar sem nafnlausir pennar úthúða fólki með þessum hætti. Nei, það hefur ritstjóra og ábyrgðarmann og það á sér líka eigendur. Rekstur DV var undir lok liðins árs keyptur af útgáfufélagi Fréttablaðsins og Hringbrautar. Eigendur þess geta ekki heldur látið sem þeim komi svona svínarí ekki við.

***

Nokkuð var fjallað á liðnu ári um þær fyrirætlanir Íslandsbanka að hætta að eiga viðskipti við fjölmiðla, þar sem hlutföll kynja á ritstjórn eru ekki nokkuð jöfn. Á dögunum gerðist það svo að bankinn hóf eftirgrennslan um kynjahlutföll á hverjum miðli, svo ætla má að hann vilji efna þessi fyrirheit innan tíðar. Nú er það hins vegar svo að í stétt blaðamanna hefur um áratugaskeið verið nokkur kynjahalli, þó vissulega hafi dregið saman með kynjunum undanfarna áratugi. Sú þróun hefur hins vegar verið afar hæg.

Þá má e.t.v. spyrja hvernig Íslandsbanki vilji að fjölmiðlarnir bregðist við. Rekstur þeirra flestra er afar þröngur, svo ósennilegt má telja að þeir bæti við stöðugildum til þess að jafna kynjahlutföllin. Eiga þeir þá að fækka stöðugildum karla þar til bekkurinn er jafnt skipaður? Eða að segja upp körlum á ritstjórninni og ráða konur í þeirra stað? Af tölunum er ljóst að vanar blaðakonur eru talsvert færri en karlarnir, svo það er ómögulegt að allir fjölmiðlar geti jafnað kynjahlutföllin.

Hér er úr vöndu að ráða og fjölmiðlarnir hljóta að leita leiðbeininga hjá bankanum um hvernig þeir eigi að hanga í náðinni hjá honum. Ástæðurnar fyrir þessum kynjahalla í stéttinni liggja ekki fyrir, en meðal skýringa, sem hafa verið nefndar, er að blaðamennska sé ófjölskylduvænt starf, sem höfði síður til kvenna en karla, að þær ílengist síður í greininni, það sé fram úr hófi slítandi starf og oft í vaktavinnu, sem karlar hafa sögulega verið fúsari til að sinna en konur.

Það væri þá ekki eina dæmið um stétt, þar sem annað hvort kynið er í nokkrum meirihluta. Má vera, þó að fjölmiðlarýnir treysti sér ekki til að slá neinu föstu um það. En kannski það megi leita einfaldari skýringa. Af vinnumarkaðsgögnum hefur lengi legið fyrir að atvinnuþátttaka kynjanna er með misjöfnum hætti, hvort sem horft er til fjölda þátttakenda á vinnumarkaði, vinnustunda, fulls starfs eða hlutastarfs.

Þess utan virðist opinberi geirinn höfða mun meira til kvenna en karla. Hér að neðan til vinstri gefur að líta tvö skífurit. Annað sýnir kynjahlutföll á ritstjórnum íslenskra fjölmiðla, en til samanburðar eru kynjahlutföll alls starfandi fólks í landinu. Sem sjá má eru þau ákaflega áþekk. Gæti hugsast að ójöfn kynjahlutföll á ritstjórnum séu einfaldlega í takt við ólíka atvinnuþátttöku kynjanna? Og að bankinn krefji fjölmiðla um starfsmannastefnu, sem þeim kann að vera ómögulegt að uppfylla?

***

Hér var í síðustu viku sagt að bækur hefðu tvívegis verið tilnefndar til Blaðamannaverðlauna. Það hefur víst gerst þrisvar.