Þann 21. mars kynnti ríkisstjórnin aðgerðarpakka 1. Ein af helstu aðgerðunum í þeim pakka voru brúarlánin eða viðbótarlánin. Nú eru komnar rúmlega 12 vikur síðan og enn hefur ekki verið svo mikið sem opnað fyrir umsóknarferlið hjá bönkunum. Sömu sögu má segja af stuðningslánum til fyrirtækja.

Þessi aðgerðarpakki var m.a. hugsaður fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu sem höfðu mátt þola algjört tekjuleysi og búa mörg þeirra enn við þann veruleika. Hversu lengi telur ríkisstjórnin að fyrirtæki geti lifað við viðvarandi tekjubrest?

Þann 28. apríl kynntu stjórnvöld framlengingu á hlutabótaleiðinni og stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Nú eru rúmlega 7 vikur síðan og stuðningsferlið varðandi uppsagnarfrestinn er ekki enn orðið fullskýrt. Inn á vef skattsins kemur fram að þetta úrræði sé ekki tilbúið en verið sé að vinna að tæknilegri útfærslu. Það sem virðist vera orðið skýrt er að fyrirtæki hafa þar til 20. hvers mánaðar til þess að sækja um næstliðið launatímabil. Þá tekur við allt að 30 dagar sem skatturinn þarf í að fara yfir umsóknir að viðbættum 3 dögum til að greiða út. Fyrirtæki gætu því mögulega þurft að bíða í um 50 daga til þess að fá þennan stuðning (þ.e. ef öll skilyrði eru uppfyllt) og leggja þar af leiðandi út fyrir tveimur fullum launakeyrslum fyrir alla þá sem sagt var upp. Á dögunum var tilkynnt um frekari tafir á þessu ferli, umsóknir vegna maí mánaðar verða afgreiddar í síðasta lagi 20. júlí.

Þetta úrræði var sett fram m.a. til þess að forða fyrirtækjum frá gjaldþroti en það gefur auga leið að tíminn verður að vera mun skemmri á milli þess sem útborgun fyrirtækja á uppsagnarfresti á sér stað og greiðsla berst á móti frá skattinum ef þetta á að nýtast fyrirtækjum í lausafjárvanda.

Hlutabótaleiðin er hingað til meira og minna eina úrræðið fyrir fyrirtæki sem nú þegar hefur komið til framkvæmdar sem vert er að minnast á. Frestun gjalddaga á staðgreiðslu launa og staðgreiðslu tryggingargjalds ásamt öðrum litlum aðgerðum duga því miður ekki til við úrlausnar þess vanda sem fyrir liggur.

Á meðan ofantöld atriði eru veruleiki fyrirtækja hérlendis þá heyrast fréttir frá nágrannaþjóðum þar sem óvissan með aðgerðir stjórnvalda sé að öllu jafna smáræði í samanburði við okkur, án þess að fara dýpra í þau mál í þessum pistli.

Mikilvægi þessara aðgerða stjórnvalda dvína með hverjum deginum sem líður á meðan þau koma ekki til framkvæmda. Krafan er ekki að fá allt fært upp í hendurnar á silfurfati heldur er hún einungis sú að þau úrræði sem nú þegar hafa verið kynnt verði framkvæmd og það sem fyrst.

Líkja má áhrifum Covid veirunnar á ferðaþjónustufyrirtæki við brennandi hús þar sem algjört lykilatriði er að viðbragðsaðilar bregðist hratt og örugglega við svo tjónið sé lágmarkað. Það er því miður of seint að hefja slökkvistarf þegar húsið er brunnið.

Höfundur er fjármálastjóri Eskimos Iceland og Eskimo Event .