Margboðað og endu r skoða ð fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðs dótt u r menningarmálaráðherra var á dagskrá Alþingis á mánudag, en var síðan tekið af dagskrá eftir að stjórnarandstaðan brá á það ráð að sniðganga atkvæðagreiðslur í von um að hafa áhrif á dagskrá Alþingis þá daga sem eftir eru fram að jólahlé. Ósamið er um þinglok. Frumvarp Lilju var seint fram komið og því þurfti að samþykkja afbrigði til að taka það fyrir. Það gekk sem sagt ekki eftir fyrir tilstuðlan stjórnarandstöðunnar og hafi hún hugheilar þakkir fyrir. Sem og veðurguðirnir, sem komu í veg fyrir að atkvæðagreiðslur færu fram í þinginu á mánudag og þriðjudag.

Að vísu á enn að freista þess að koma málinu á dagskrá, svo það komist til nefndar fyrir jólafrí Alþingis, en það kann þó að reynast snúið. Eins og fram hefur komið eru ríkar efasemdir um frumvarpið meðal sjálfstæðismanna, en í liði stjórnarandstöðunnar sjá ekki allir tilganginn með þessu brölti á síðustu vinnustundum þingsins fyrir jól, þegar við blasir að ekki er einhugur um afgreiðslu þess í ríkisstjórnarliðinu. Þingið hafi margt þarfara að gera. Undir það tekur fjölmiðlarýnir.

***

Annars er full ástæða til þess að fjalla nánar um fjölmiðlafrumvarpið í þessum dálkum. Eins og hér hefur áður verið lýst er frumvarpið ekki gallalaust, en aðallega er þó ástæða til þess að gera athugasemdir við meginmarkmið þess, sem er að gera helstu fjölmiðla landsins háða fjárveitingavaldinu, að þeir starfi allir undir handarjaðri ríkisins.

Ekki skal dregið í efa að frumvarpið er sett fram af góðum hvötum. Líkt og fjallað var um hér í liðinni viku er efamál að frjálsir fjölmiðlar á Íslandi hafi nokkru sinni staðið tæpar en einmitt nú og fátt sem bendir til þess að þeir rétti úr kútnum að óbreyttu. Sú staða er hins vegar miklum mun þrengri en svo að útdeiling á 400 milljónum króna úr vasa skattgreiðenda bjargi þar nokkru, en hún getur hins vegar valdið miklum skaða. Það þarf mun víðtækari aðgerðir til þess að skapa fjölmiðlum lífvænlegt rekstrarumhverfi. Meira um það í næstu viku.

***

Lögreglan var um liðna helgi í tvígang kvödd að heimili Lilju Katrínar Gunnarsdóttur, ritstjóra DV, eftir að hópur fólks hafði hent eggjum í hús hennar og látið ófriðlega. Ýmsir tón - listarmenn og áhrifavaldar á félagsmiðum höfðu eggjað fólk til þess að „líta inn um gluggann“ hjá ritstjóranum vegna umfjöllunar blaðsins um híbýli tónlistarfólks á Íslandi. Lilja Katrín kveðst ekki útiloka að leggja fram kæru til lögreglu vegna hótana, sem henni hafa borist félagsmiðlum.

Nú má vel hafa skoðun á svona skráargatsefni eins og umfjöllun um hvernig fólk býr; þar er vissulega höggvið nærri friðhelgi heimilisins. Það ber einnig að skoða í ljósi um margt einkennilegrar umfjöllunar DV um fjárhag áhrifavalda í kringum tekjublaðið hjá þeim, sem var að miklu leyti getgátur einar og dylgjur, líkt og minnst var á í þessum dálkum í lok ágúst.

En það getur ekki undir nokkrum kringumstæðum réttlætt að hvatt sé til þess að gera aðsúg að heimilum fólks. Sama hver á í hlut

Þegar þar ræðir um blaðamann og aðsúgurinn ljóslega skipulagður til þess að vera fjölmiðlum til viðvörunar, þá er það auðvitað enn alvarlegra, því það snýr að tjáningarfrelsinu sjálfu. Ekki því hvort DV sé merkilegt blað eða Lilja Katrín góður ritstjóri. Af því að í frjálsu samfélagi verður fólk og fjölmiðlar að mega tjá sig án þess að eiga ofbeldi yfir höfði sér.

Hafi menn eitthvað við efni þeirra að athuga geta þeir svarað því á vettvangi fjölmiðla, nú eða dómstóla, ef ástæða þykir til. En ekki með dólgshætti, yfirgangi og ofbeldi eða með því að stefna múg heim til fólks.

Svona aðfarir komu talsvert upp í kjölfar bankahrunsins þegar ógæfufólk og óþokkar sátu um heimili bæði athafnafólks og stjórnmálafólks, sem það taldi bera sérstaka sök á því hvernig komið var. Þar unnu þeir skemmdarverk, höfðu uppi ónæði og hræddu börn. Það var skammarlegt athæfi, en kannski ekki síður þó tómlætið sem það mætti á opinberum vettvangi. Þar henti jafnvel fjölmiðla að koma á framfæri ábendingum um hvar næstu fórnarlömb var að finna. Við skulum vona að slík vargöld renni ekki upp aftur

***

Líkt og lesa má hér í hliðardálki hafa ýmsir sagt frá umsókn sinni um stöðu útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins. Líkt og sjá má er þorri þeirra konur, en mjög er rætt að til heilla horfi að fá konu í þetta óöfundsverða starf. Þar á meðal er Svanhildur Hólm Valsdóttir, sem hefur m.a. bæði starfað sem dagskrárgerðarmaður í morgunútvarpi Rásar 2 og í Kastljósi Ríkissjónvarpsins, en síðar sem ritstjóri Íslands í dag á Stöð 2. Hún er lögfræðingur að mennt og með MBA-gráðu að auki.

En af því að hún hefur gegnt starfi aðstoðarmanns Bjarna Benediktssonar um nokkra hríð hefur ekki skort samsæriskenningarnar og getgáturnar um að hún sé örugg með að fá djobbið, beinlínis send þangað og blessuð af Bjarna í einhverju demónísku nýfrjálshyggjuplotti (sem Capacent hlýðir þá í blindni), en samkvæmt sömu fregnum verður honum svo hverft við aðstoðarmannsmissinn að hann hættir bara í pólitík með það sama. Eða eitthvað þannig. Og einhvern veginn tengdist þetta víst líka ráðagerðum eiginmanns hennar, fjölmiðlastjörnunni Loga Bergmann.

Auðvitað er svona mas bara stofuleikur og ekkert að því að fjölmiðlar bollaleggi um hver hreppi stöðuna í slúðurdálkum sínum. En það er eitthvað ankannalegt við það að þegar sumir fjölmiðlar geta ekki fjallað um umsókn Svanhildar án þess að gera því skóna að það sé nú allt á vegum einhverra karla, sem öllu stjórni bak við tjöldin. Svona nánast að hún sé leikbrúða ef ekki puntudúkka.

Er ekki nærtækari og eðlilegri skýring að þar ráði metnaður hennar sjálfrar, þar sem um ræðir starf á vettvangi fjölmiðla og stjórnsýslu, þar sem hún hefur yfirburðareynslu, menntun og hæfileika til?

Þeir Logi og Bjarni eru ágætir, en það er fleira í Svanhildi spunnið en að vera eiginkona annars og aðstoðarmaður hins.