*

föstudagur, 13. desember 2019
Andrés Magnússon
10. nóvember 2016 16:23

Æðsti Trumpur

„Það blasir við að skoðanakönnuðir og fræðimenn þurfa að taka aðferðafræðina til rækilegrar endurskoðunar.“

epa

Varla hefur farið framhjá mörgum, að það voru forsetakosningar í Bandaríkjunum í vikunni. Úrslitin komu mörgum á óvart og ef miða má við viðbrögðin á Facebókinni okkar allra, þá var geðshræringin ekki minni á Íslandi en vestanhafs.

Nú er það auðvitað svo, að þrátt fyrir nokkra hnignun á undanförnum árum, þá eru Bandaríkin eru voldugasta ríki heims, hvort sem litið er til efnahags og hernaðarmáttar, tækniframfara eða menningaráhrifa. Það er því ekki aðeins innanríkismál hver ræður þar ferðinni, er „leiðtogi hins frjálsa heims“, eins og það var gjarnan orðað í Kalda stríðinu.

Öllu má þó ofgera og um sumt var fréttaflutningur íslenskra fjölmiðla af kosningunum vestra í mesta lagi. Ekki síður mátti þó kannski finna að því hvað hann var einsleitur og mikið í takt við viðtekna afstöðu og skoðanir fjölmiðla vestanhafs. Það er umhugsunarefni fyrir fjölmiðla í deiglu og alþjóðlegri samkeppni við erlenda netmiðla. Ef þeir eru aðeins að flytja sömu fréttir og sömu sjónarhorn hafa þeir ekki mikla sérstöðu.

Jú, vissulega eru fréttir þeirra á íslensku og hafa því sérstaka skírskotun til Íslendinga, en ef uppistaðan í þeim er nánast sú sama og í erlendum miðlum, þá er það nú ekki sterkur vinkill. Og fyrir marga fréttaþyrsta Íslendinga ekki sérstaklega lokkandi. Af hverju skyldu þeir þá ekki leita beint til erlendra miðla og fá ómengaðar fréttir að utan, án mögulegra þýðingamistaka og þokuslæðings ókunnugleikans?

***

Að því sögðu verður þó að hrósa flestum íslensku miðlunum fyrir að hafa reynt að grafa upp einhverja íslenska vinkla á frosetakosningunum bandarísku. Þó ekki væri nema með svipmyndum af kosningavökum á Íslandi og ámóta, en einnig reyndu þeir margir að grafast fyrir um áhrif úrslitanna á Ísland og samskiptin við risann í vestri.

Fjölmiðlarýnir hefði raunar kosið meira af svo góðu og hugsanlega aðeins dýpri yfirferðar. Þar mætti nefna áhrif á varnarsamstarfi ríkjanna, möguleika á fríverslunarsamningum og ýmsu af því taginu, en einnig eitt og annað sem varðar fólk e.t.v. með beinni hætti, svo sem vegabréfsáritanir og greiða för vestur, sem ekki er ósennilegt að breytist eitthvað undir nýjum forseta. Tala nú ekki um þegar annar þeirra hefur sérstakan áhuga á að reisa múra milli Bandaríkjanna og næstu nágranna.

***

Aðeins meira um það hversu mjög úrslitin komu mörgum að óvörum.

Það er orðið nánast fastur liður að fjölmiðlar séu gagnrýndir fyrir að flytja kolrangar fréttir af afstöðu almennings í aðdraganda kosninga, að skoðanakannanafyrirtæki séu gagnrýnd fyrir að hafa dregið upp ranga mynd af skoðunum kjósenda, jafnvel að þeim sé legið á hálsi fyrir að hafa látið stýrast af eigin stjórnmálaskoðunum í því öllu.

Sú gagnrýni að fjölmiðlar skrifi fréttir út frá eigin skoðunum eða skoðunum fjölmiðlamanna er ekki fullkomlega úr lausu lofti gripin. En það er ekkert nýtt og fjölmiðlaneytendur eru nokkuð vanir að taka slíkt með í reikninginn. Kannski eru hinar talandi stéttir ekki alveg jafnflinkar við það og komast illa út úr bergmálsbjörgunum.

Þetta mátti vel sjá af fréttaflutningi helstu miðla vestanhafs og hann bergmálaði í íslensku miðlunum líka. Jú, það væri mjótt á munum, en að frú Clinton væri með lítinn en tryggan meirihluta. Svo kom annað í ljós.

Það blasir við að skoðanakönnuðir og fræðimenn þurfa að taka aðferðafræðina til rækilegrar endurskoðunar. Af kosningum vestra, hér á landi, í Bretlandi og víðar má ljóst vera að hér er um útbreiddan vanda að ræða. Nokkur munur er á aðferðum við úrtök og útreikninga milli þessara landa, þýði og kosningaþátttaka eru einnig harla misjöfn, svo mögulega er vandinn djúpstæður, óljós og erfiður við að eiga. Hafa menn þó nokkuð lagt á sig til þess að uppræta þessar skekkjur.

En það segir kannski sína sögu að New York Times, líkt og margir rótgrónir og ráðandi „establísment“- miðlar, nánast áfelldust kjósendur fyrir að hafa komið sér á óvart. Það er fremur ólýðræðislegt viðhorf.

***

Í þessu samhengi öllu var svo jafngaman og alltaf að lesa fréttir íslenskra fjölmiðla af gengisþróun í kjölfar stórviðburðar. „Krónan ekki sterkari gagnvart dollar í átta ár,“ mátti til dæmis lesa á Vísi.

Nú varðar það Íslendinga auðvitað miklu hvernig gengi krónunnar er gagnvart gjaldmiðlum helstu viðskiptalanda. En það þarf samt að gæta þess að tónninn og sjónarhóllinn í fréttunum verði ekki of staðbundinn. Af sumum þeirra mátti nánast skilja að gjaldeyrismiðlarar heimsins væru að leita í öryggi krónunnar.

Stikkorð: Trump fjölmiðlar
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.