„Hver ertu? Og hvað hefur þú gert við Clouseau lögregluforingja?“ spurði Kató þegar hann kom að Bleika pardusnum meistara dulargervanna í íbúð sinni. Spurningin leitaði á Tý eftir að hann las ágæta grein í Innherja um orsakir og afleiðingu verðbólgu.

Höfundur greinarinnar er Lilja Alfreðsdóttir hagfræðingur og í greininni leggur hún mikla áherslu á hversu miklu máli skiptir að reka trúverðuga fjármálastefnu ef kveða á niður verðbólgu. Óheft útgjaldaaukning ríkisútgjalda á verðbólgutímum leiðir enn til frekari verðlagshækkana. Það skiptir því sköpum að hið opinbera dragi úr útgjöldum og slái á þensluna sem hefur áhrif á verðbólguna.
***

Tý finnst að einhver ætti að kynna Lilju hagfræðing fyrir nöfnu sinni Lilju Alfreðsdóttur, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra. Sú síðarnefnda hefur verið einna duglegust ráðherra við að útdeila fé út um allar koppagrundir og hefur samkeppnin í ríkisstjórninni verið mikil.

Að loknum fundi þeirra tveggja væri ráð að Lilja kynnti Lilju fyrir hinum ráðherranum. Kannski væri gráupplagt að halda hópeflisdag ríkisstjórnarinnar þar sem Lilja hagfræðingur myndi fara yfir helstu þætti greinar sinnar. Hún gæti þá útskýrt fyrir ríkisstjórninni hversu brýnt það er fyrir baráttuna gegn verðbólgu að ríkið dragi saman seglin sem fyrst.
***

Þetta kallar ekki á uppstokkun í heilbrigðis- og menntakerfinu. Af nógu er að taka þegar kemur að tilgangslausum og heimskulegum gæluverkefnum í ríkisrekstrinum svo ekki sé minnst á niðurgreiðslur á öllum sköpuðum hlutum. Þannig væri hægt að draga til baka þá ákvörðun að gefa stærstu bílaleigum landsins tvo milljarða til þess að kaupa rafmagnsbíla svo ekki sé minnst á að niðurgreiða rekstur myndvera í Hollywood og gerð þeirra á metsölukvikmyndum og þáttum. Þannig mætti svo halda áfram koll af kolli.

Týr er einn af reglulegum pistlum Viðskiptablaðsins, en þessi birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út11. maí.