Það eru fá fyrirtæki sem eru eins flókin í rekstri og flugfélög. Þau selja inn á alla heimsins markaði, til allskonar viðskiptavina og á öllum tímum ársins. Flugfélög heimsins eru öll í keppni um sömu viðskiptavini og þurfa að selja hvert einasta sæti upp á nýtt fyrir hvert flug. Flest fyrirtæki eru ekki svona. Þau eru með fasta viðskiptavini til langs tíma. Flugfélög byrja árið með núll tekjur og þurfa að búa til allar sínar tekjur með sölu á 360 dögum fyrir brottför. Heimsefnahagurinn sem býr til þetta umhverfi er með milljarða breyta sem hafa allar áhrif á rekstur flugfélaga. Ef efnahagur Malasíu styrkist, þá hefur það áhrif á bæði kostnað og tekjur íslenskra flugfélaga. Ef dagblað í Þýskalandi fjallar um fegurð fjallanna í Bresku Kólumbíu, þá hefur það áhrif á tekjur og kostnað íslenskra flugfélaga.

Þessi gífurlega dýnamíski rekstur er flókinn en ótrúlega skemmtilegur. Það fólk sem leitar í að vinna hjá flugfélögum verður oftar en ekki algjörlega háð því að vinna í þessum geira. Þetta má sjá á löngum meðalstarfsaldri starfsmanna flugfélaga en með löngum starfsaldri verður til gífurleg sérþekking og skilningur á dýnamík í flugrekstri. Í Bandaríkjunum og Evrópu hefur myndast ákveðin starfsstétt stjórnenda og almennra starfsmanna sem þrátt fyrir að skipta um störf á milli flugfélaga, eru í geiranum alla sína starfsævi. Í þessari staðreynd liggja gífurleg verðmæti, því flugrekstur er svo flókin að það tekur mörg ár að skilja hann vel. Malcolm Gladwell telur að það taki 10.000 klukkutíma æfingu að skilja og verða meistari í einhverju. Það á líklega ágætlega við um flugrekstur.

Á Íslandi er aðra sögu að segja. Íslendingar hafa tilhneigingu til að fara á milli geira á sinni starfsævi, því það eru einfaldlega of fá fyrirtæki af hverri tegund á Íslandi. Til að leysa þetta hefur Icelandair þróað innri starfskrafta sem eru lengi hjá félaginu og þjálfaðir upp í að vera sérhæfðir flugfélagsstarfsmenn. Þetta á sérstaklega við á rekstrarsviði og er kjarninn í því af hverju félagið hefur getað keppt við erlenda samkeppni.

En hvað með stjórn félagsins? Í flestum stjórnum erlendra flugfélaga er stór hluti stjórnarinnar einmitt fólk sem hefur mikla reynslu af flugrekstri, oftast í gegnum alla starfsævina. Fólk sem hefur fjárfest 10.000 klukkutímum í verkefnið. Þetta gerir þeim kleift að skilja rekstur sem er flókinn og alls ekki augljós.

Síðustu ár voru flókin hjá Icelandair. Einingakostnaður hækkaði um 17% og félagið varð ósamkeppnishæft. Félagið þurfti að bregðast við WOW og gerði það meðal annars með því að reka stóran hluta af söluteyminu, reyndum framkvæmdastjórum og mikinn verðmætan starfskraft. Ýmislegt annað var gert en ofar alls annars, þá einkenndi þessi viðbrögð að stjórn félagsins hafi hvorki skilið hvað var að gerast, né haft getu til að mynda viðbrögð við því. Það sem var að gerast var ekki svo flókið: Kostnaður var að aukast umfram samkeppnisaðila og tekjur voru ekki að aukast. Samkeppnisaðilar voru að græða vel af tekjunum sem markaðurinn gaf og því var hann líklega í jafnvægi.

En af hverju er rökrétt að halda að stjórn félagsins hefði átt að skilja stöðuna þegar á reyndi, á árunum fyrir Covid? Hjá einu flóknasta og sérhæfðasta félagi landsins var stjórn þar sem aðeins einn hafði reynslu af flugrekstri – og ekki nýlega. Þetta er félagið sem þarfnast starfsfólks á öllum stigum með mikla reynslu af flugrekstri, en með stjórn þar sem ekki er krafist sambærilegrar reynslu.

Á fimmtudaginn í síðustu viku (4. mars) kom út grein frá stjórnarformanni Icelandair sem voru líklega viðbrögð við þeim greinum sem ég hef skrifað. Hann staðfesti að kostnaðarhækkunin sem gerði Icelandair ósamkeppnishæft hefði átt sér stað, en lagði ekki til að það þyrfti að gera neitt í málinu. Jafnframt þá taldi stjórnarformaðurinn að Icelandair gæti ekki verið samkeppnishæft í kostnaði við stærri samkeppnisaðila, að samanburðurinn væri ósanngjarn. Þetta er kjarninn í því af hverju félagið sem hann fer fyrir hefur tapað 80% af markaðsvirði sínu á árunum fyrir Covid. Þetta er erfitt að skilja, því ef félagið er ekki samkeppnishæft, þá á það ekki tilverurétt. Afsakanir eða söguskýringar skipta engu í því samhengi.

Það er ekki eðli stjórna að þær þurfi að vera eins sérfræðingar og starfsmenn fyrirtækisins. En í flugrekstri verður að vera þekking til að skilja verkefnið. Síðustu ár sýna okkur að aðeins einn hluti af vandræðum Icelandair varð út af því sem breyttist í rekstrinum og gerði félagið ósamkeppnishæft. Hinn hluti vandræðanna var mannlegur og sést vel í grein stjórnarformannsins þ.e. að hann skilur ekki enn hvað gerðist hjá félaginu.

Ég legg til að stjórn Icelandair sé valin út frá einfaldri spurningu: Myndu alþjóðlegir samkeppnisaðilar Icelandair velja sömu aðila í stjórn þeirra félaga? Ef svarið er nei, þá er það vandamál og þarfnast endurskoðunar.

Höfundur er fyrrverandi forstöðumaður leiðakerfis Icelandair og ráðgjafi hjá Boston Consulting Group.