*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Týr
4. júlí 2020 09:08

Af Alþingi

En þótt þingmenn megi vanda sig betur í vinnunni, þá er ekki þar með sagt að þeir ættu að vera iðnari. Eða meira í vinnunni.

Það er nóg að gera í þinginu eins og fréttir undanfarinna daga bera glöggt vitni um. Ekki varð það þó til þess að einfalda þingstörfin þegar Lilja Alfreðsdóttir, menntaog menningarmálaráðherra, reyndist ekki vera með COVID-19 og fór af þeim sökum í tveggja vikna sóttkví, sem ber vott um aðdáunarverða varúð. Og það var eins og við manninn mælt, að ótal þingmenn, ráðherrar og starfsmenn þingsins aðrir létu sig hverfa og ráðgera víst sóttkví líka.

                                                                      ***

Ekki er að efa að forseti Alþingis sjái til þess að sá hluti þingheims, sem eftir verður, verði sprittaður hátt og lágt líkt og þingsalurinn, svo þingstörf raskist ekki meira en orðið er. Hvort það er til bóta er svo önnur saga. Miðað við þau frumvörp, sem nú renna greiðlega í gegnum þingið, verður tæplega sagt að þingmenn séu mikið að vanda sig.

Margt meira til þess að sjást vera að leggja góðum málum til en að gera úr garði góð lög, sem líklegt er að nái markmiðum sínum, eða með fjárveitingar til þess að uppfylla öll fögru fyrirheitin. Þar er sama hvort horft er til samgönguáætlunar eða samkeppnislaga, sálfræðiaðstoðar eða jarðamála, hvert öðru misheppnaðra hvað sem góðum ásetningi líður.

                                                                      ***

En þótt þingmenn megi vanda sig betur í vinnunni, þá er ekki þar með sagt að þeir ættu að vera iðnari. Eða meira í vinnunni. Sú var tíð að Alþingi kom aðeins saman annað hvert ár og var að störfum í um það bil fjórar vikur, en eftir á að hyggja voru það sjálfsagt mistök að það kæmi tíðar og lengur saman. Hvað þá þegar tekið var til við að leggja niður efri og neðri deild og steypa í eitt sameinað Alþingi, að ekki sé minnst á alls kyns síðari ráðstafanir til þess að straumlínulaga starfsemi þess. Aukin framleiðni þingsins er síður en svo ávísun á betri lög og fegurra mannlíf.

                                                                      ***

En svo má minnast á annað, sem er að þingmenn eiga ekki að þurfa að taka vinnuna með sér heim. Og þeir og fjölskyldur þeirra eiga ekki að þurfa að þola það að friðhelgi heimila þeirra sé rofin af pólitískum andstæðingum þeirra, eins og Kolbeinn Óttarsson Proppé mátti þola á dögunum. Heimili eiga að vera þeim sem öðrum griðastaður.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.