*

laugardagur, 18. september 2021
Týr
3. ágúst 2020 11:04

Af arðráni og ávöxtun

Ragnar Þór, formaður VR, telur lífeyrissjóðina hafa um árabil arðrænt landsmenn, góð ávöxtun þeirra er samt staðreynd.

Ragnar Þór Ingólfsson er formaður VR.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, heldur sér í kastljósi fjölmiðlanna með því að taka að sér hlutverk hrópandans í eyðimörkinni um lífeyrissjóðina. Í viðtali á Sprengisandi um helgina rakti Ragnar það sem hann kallaði áralangt arðrán á lífeyrissjóðum landsmanna. Erfitt var að greina á milli hvort Ragnar væri að tala um íslenska lífeyrissjóðakerfið eða 1MDB málið í Malasíu. Þó að lífeyrissjóðakerfið sé ekki fullkomið er staðreyndin sú að góð ávöxtun síðustu ára hefur haft í för með sér að sjóðirnir hafa stækkað hraðar en gert var ráð fyrir. Eignir þeirra telja nú um 5.200 milljarða króna og nálgast tvöfalda landsframleiðslu.

Ragnar hefur haldið áfram að ýja að hinu og þessu og telur líklegt, sennilegt eða hugsanlegt að lögbrot hafi verið framin án þess að endilega rökstuðningur eða gögn fylgi því með því til stuðnings. Davíð Þorláksson og Halldór Benjamín Þorbergsson, yfirlögfræðingur og framkvæmdastjóri SA, sáu sig knúna til að bera af sér sakir Ragnars tengdar hótelverkefninu Lindarvatni. Þeir bentu á að eitt og annað í rökfærslu Ragnars sem gengi ekki upp.

Meðal annars að þeir hefðu ekki verið í aðstöðu til að láta lífeyrissjóði gera eitt né neitt. Enda hafi þeir ekki verið starfsmenn Samtaka atvinnulífsins þegar lífeyrissjóðirnir lánuðu Lindarvatni og sögðust þurfa að skoða réttarstöðu sína. Ragnar brást ókvæða við og af honum mátti skilja að senn yrði tímabært að leggja fram alvarlegustu ásakanirnar til þessa gagnvart þeim Davíð og Halldóri ef þeir myndu aðhafast frekar í málinu. Þykir formanninum sem sagt rétt að alvarlegasti hluti málsins færi leynt ef ske kynni að einhver gripi til varna og útskýrði hið rétta í málinu?

Píratinn Björn Leví Gunnarsson setti málið á nýtt stig þegar hann fullyrti að þar sem tvímenningarnir hefðu lýst yfir sakleysi sínu benti það eindregið til þess að þeir væru sekir af ásökunum Ragnars. Saklausir menn eigi að fagna því að vera rannsakaðir þar sem þá komi hið sanna að lokum í ljós. Rökfræði ráðstjórnarríkjanna endurvakin. Stríð er friður, frelsi er ánauð, fáfræði er máttur og svo framvegis.

Hreinlegasta leiðin til að gera landsmönnum kleift að láta skoðun sína í ljós á athöfnum og fjárfestingum lífeyrissjóða hlýtur að vera að veita aukið frelsi um hvernig fólk ráðstafi sínum sparnaði — bæði um hve hátt hlutfall launa er greitt til lífeyrissjóðanna og í hvaða sjóð það greiði.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Ragnar Þór Ingólfsson Þór
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.