*

laugardagur, 15. maí 2021
Huginn og muninn
24. apríl 2021 10:22

Af meirihluta borgarstjórnar

Velferðarmeirihlutinn vill ekki frítt í strætó fyrir þá sem höllum fæti standa. Þykir varasamt að líta á Strætó sem félagslegt úrræði.

Haraldur Guðjónsson

Á borgarstjórnarfundi lagði Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalista, fram tillögu þess efnis að þeim sem fá fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg til framfærslu standi til boða að fá frítt í strætó. Undir þetta tóku Miðflokkurinn, Flokkur fólksins og Sjálfstæðisflokkurinn, sem lagði fram sérstaka bókun þess efnis að þessi aðgerð myndi kosta borgina lítið enda væri nýting Strætó minni en æskilegt væri.

Meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Viðreisnar, sem lagt hefur ofurkapp á að almenningssamgöngur, hélt nú ekki og felldi tillöguna. Í bókun meirihlutaflokkanna, sem flestir kenna sig við velferð undir forystu Dags B. Eggertssonar, segir að hlutverk Strætó sé að flytja sem flesta farþega milli staða á þægilegan og öruggan hátt. „Varasamt er að líta á Strætó sem félagslegt úrræði," segir enn fremur í bókuninni.

 

Á dögunum bárust fréttir úr Ráðhúsinu þegar meirihlutinn samþykkti að lækka hámarkshraðann á götum borgarinnar. Samkvæmt tillögunni er almennt verið að lækka hraðann úr 50 km/klst í 30. Þó að umferðaröryggi sé nefnt sem helsta ástæðan fyrir þessum breytingum þá er augljóslega einnig önnur ástæða. Í fréttabréfi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra eru umhverfisáhrifin meginstefið.

„Í stuttu máli þá gæti lækkun hraða innan borgarmarkanna skapað allt að 40% samdrátt í magni svifryks ef keyrt yrði á 30 km hraða í stað 50 km."

Við þetta er ýmislegt að athuga. Fyrir það fyrsta er hægt að minnka ryk með því að þrífa götur almennilega og stuðla að minnkun á notkun nagladekkja. Þá er kostnaðurinn vegna lengri ferðatíma fólks óheyrilegur eins og Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, benti í Morgunblaðinu í gær. Að lokum má benda borgaryfirvöldum á að í Örfirisey er olíubirgðastöð. Þungaflutningabílar þurfa því að aka í gegnum borgina þvera og endilanga til þess að koma olíu á áfangastað.

Hvernig væri nú að meirihlutinn skoðaði það mál aðeins?

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.