Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins á mánudag var flutt löng umfjöllun um fund Samtaka leigjenda með framboðum til borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík sem hafði farið fram fyrr um daginn. Eins og flestir vita þá brenna húsnæðismálin á mörgum í aðdraganda kosninganna og því ekkert undarlegt við að fréttastofa Ríkisins veitti fundinum athygli. En fréttamaður virtist leiða það hjá sér að samtökin sem stóðu fyrir fundinum eru einhvers konar fylgihnöttur eins þess stjórnmálaafls sem er í framboði í borginni: Sósíalistaflokksins.

Eins og fram hefur komið í fréttum þá beitti Gunnar Smári Egilsson, áhrifavaldur á samfélagsmiðlum og stofnandi Sósíalistaflokksins hins síðari, sér fyrir stofnun Samtaka leigjenda ekki fyrir löngu og situr í stjórn samtakanna. Þá virðast Gunnar Smári og Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður samtakanna, vera nánir samverkamenn en flestum ætti að vera í fersku minni þegar sá fyrrnefndi fór mikinn og sakaði stjórnendur Arion banka fyrir að hafa beitt sér fyrir því að sá síðarnefndi var rekinn úr hópnum Leiga á Facebook. Þrátt fyrir að þessara tengsla hafi ekki verið getið í fréttinni mátti sjá skýr áhrif þeirra. Þannig sagði fréttamaður RÚV eftirfarandi í inngangi fréttarinnar:

Samtök leigjenda segja að eignafólk og lögaðilar sópi að sér fasteignum til að græða. Fjárfestar hafi lítinn sem engan hvata til að hraða uppbyggingu því með hægagangi, tryggi þeim tuga prósenta hækkun fasteignaverkefna á þróunar- og byggingartíma. Lítum á nokkrar staðreyndir, frá árinu 2005 hafa íbúðir í eigu lögaðila sem eiga fleiri en eina íbúð, nærri tvöfaldast, úr rúmlega ellefu þúsund í tæplega tuttugu og tvö þúsund. Húsaleiga hefur tvöfaldast eða hækkað um hundrað prósent á einum áratug, en hún hefur hækkað um rúm fimmtán prósent á sama tíma annars staðar í Evrópu ."

Þrátt fyrir að hagsmunaaðilar fullyrði eitthvað er mikilvægt að fréttamenn taki að sér það hlutverk að reyna á sannleiksgildið. Þannig stenst sú fullyrðing að „eignafólk og lögaðilar sópi að sér fasteignum til að græða" enga skoðun. Þannig hefur hlutfall þeirra einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúða nánast staðið í stað í áratug og það sama á við hlutfall lögaðila. Það er því ekkert hæft að aukning sé á fjárfestingum í íbúðarhúsnæði til útleigu sem hlutfall af heildarmarkaðnum og ætti það auðvitað að vera til marks að sá vandi sem við er að etja á leigumarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu er fyrst og fremst til kominn vegna skorts á húsnæði til útleigu fremur en gróðabralli óvina öreigalýðsins. Rétt er að minna á í þessu samhengi að ekki fyrir löngu birti fréttastofa RÚV viðtal við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, þar sem hann kvartaði yfir að óhagnaðardrifin leigufélög væru að hætta við framkvæmdir vegna seinagangs og skorts á úthlutun lóða.

Vissulega kann húsaleiga að hafa tvöfaldast undanfarinn áratug. En sú tala segir ekki mikið ein og sér nema erindið sé að halda fram áróðri. Þannig hefði fréttamaður þarna mátt nefna að á sama tíma hefur bæði launavísitala og fasteignaverð nær tvöfaldast á viðmiðunartímanum.

***

Sem fyrr segir er brýnt að fréttamenn sannreyni fullyrðingar áður en að þeir flytja af þeim fréttir. Þar sem Samtök leigjenda eru hér til umræðu má rifja upp að í vetur sögðu margir miðlar frá nýrri reiknivél samtakanna sem átti að sýna fram á að nánast allir þeir sem eru á leigumarkaði búa þar við „okurkjör". Enginn miðill skoðaði ofan í kjölinn þær forsendur sem samtökin gáfu sér fyrir þeim útreikningi sem fól meðal annars í sér að sanngjörn leiga reiknaðist af húsnæðislánum sem væru tekin til 60 og 90 ára svo einhver dæmi séu tekin og annað mætti tína til sem orkar tvímælis. Til skamms tíma mátti lesa um forsendur reiknivélarinnar á heimasíðu samtakanna en þær upplýsingar hafa nú verið teknar af heimasíðunni.

***

Eins og flestum er í fersku minni veitti stéttarfélag blaðamannaverðlaunin í byrjun aprílmánaðar. Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum og er einn þeirra helgaður afrekum á sviði rannsóknarblaðamennsku. Í ár fengu þeir Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður á Kjarnanum, og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri sama miðils, verðlaunin fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins. Rökstuðningur dómnefndar blaðamannafélagsins fyrir verðlaunin vekur athygli. Í rökstuðningi segir að þeir félagar séu verðlaunaðir fyrir fréttaskýringar um málefni tengd útgerðarfélaginu Samherja. Í rökstuðningnum segir:

Fyrir fréttaskýringar þar sem ljóstrað var upp um óeðlilega hagsmunagæslu svokallaðrar Skæruliðadeildar Samherja. Þær sýndu hvernig fulltrúar þessa stórfyrirtækis reyndu til að mynda að hafa áhrif á formannskjör í stéttarfélagi blaðamanna og kjör á lista Sjálfstæðisflokksins í heimakjördæmi fyrirtækisins. Fréttaskýringarnar gáfu greinargóða mynd af óvönduðum meðölum fjársterks fyrirtækis í hagsmunabaráttu þess ."

Það er vissulega ástæða til þess að verðlauna blaðamenn sem afhjúpa „óvönduð meðul fjársterks fyrirtækis" sem sagt er að reyni að hafa áhrif á formannskosningu í stéttarfélagi blaðamanna annars vegar og niðurstöðu prófkjörs stærsta stjórnmálaflokks landsins hins vegar. En var eitthvað slíkt afhjúpað í umfjöllun Kjarnans á sínum tíma? Svarið við þeirri spurningu er einfaldlega: Nei.

Sem kunnugt er þá fjallaði Kjarninn ásamt Ríkisútvarpinu og Stundinni um einkasamtöl þriggja einstaklinga sem hafa starfað með einum eða öðrum hætti fyrir Samherja í gegnum tíðina en miðlarnir höfðu með einhverjum óupplýstum hætti komist yfir. Fram kom í umfjöllun Kjarnans að þessir þrír einstaklingar áttu í skoðanaskiptum um formannskjör í Blaðamannafélagi Íslands og á frambjóðendum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Í sjálfu sér er ekkert sérstaklega fréttnæmt við það að einstaklingar hafi skiptar skoðanir á frambjóðendum hvort sem þeir eru að bjóða sig fram á vettvangi stéttarfélaga eða þá stjórnmálaflokka. Einskorðast slíkar skoðanir varla við þá sem starfa hjá Samherja. En það sem skiptir máli í þessu samhengi er að ekkert kom fram í fréttaflutningi Kjarnans að áðurnefndir einstaklingar hafi reynt með neinum hætti að hafa „áhrif á formannskjör í stéttarfélagi blaðamanna og kjör á lista Sjálfstæðisflokksins í heimakjördæmi fyrirtækisins".  Enda hefur ekkert komið fram - hvorki í fréttum Kjarnans né annarra miðla - að viðkomandi fólk hafi hringt í þá sem hafa atkvæðisrétt í formannskjöri Blaðamannafélagsins eða þá sem ætluðu að taka þátt í áðurnefndu prófkjöri.

Þetta þýðir með öðrum orðum að Blaðamannafélagið var að verðlauna rannsóknarblaðamennsku sem afhjúpaði eitthvað sem hefur aldrei verið afhjúpað og væntanlega vegna þess að það gerðist aldrei.

***

Efnt var til mótmæla á Austurvelli fjórðu helgina í röð. Mótmælin fara fram undir slagorðinu Burtu með Bjarna og spillinguna og eru það hópar á borð við Jæja, sem lýsir sér sem félagsheimili andkapítalismans, og Við fólkið í landinu, sem hefur verið að safna undirskriftum gegn sölu á Íslandsbanka, sem standa að mótmælunum ásamt öðrum hópum.

Þegar er rennt er yfir Fjölmiðlavakt Creditinfo sést að mun meira var fjallað um mótmælin í aðdraganda þeirra en eftir að þau fóru fram á laugardag. Ekki skal fullyrt um hvort ástæðan sé að fátt fréttnæmt átti sér stað á mótmælunum eða að ræðumenn hafi hvorki sagt eitthvað óvænt eða markvert.

Blaðamaður Morgunblaðsins fann þó fréttapunkt sem hann ákvað að gera skil í blaðinu á mánudag. Hann var sá að mótmælin hafi verið „stjörnum prýdd". Í fréttinni kom fram að leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir hefði ávarpað mótmælendur og þar hafi hver stórstjarnan í íslensku samfélagi nuddað öxlum við önnur frægðarmenni og almúgann. Eða eins og segir í fréttinni:

Fleiri þekkt nöfn voru meðal mótmælenda. Þar má nefna tónlistarkonuna Sölku Sól Eyfeld, leikarann Þröst Leó Gunnarsson og Alexöndru Briem, forseta borgarstjórnar. Mótmælendur fengu fallegt veður og seldir voru stuttermabolir í tjaldi, skreyttir með kennimerki Íslandsbanka ."

***

Í Vikulokunum á Rás 1 á laugardaginn fékk Höskuldur Kári Schram þáttastjórnandi áðurnefndan Þórð Snæ, ritstjóra Kjarnans, Fanneyju Birnu Jónsdóttur, lögfræðing og einn af eigendum Kjarnans, í þáttinn ásamt Andrési Jónssyni almannatengli. Þau kepptust við að vera sammála fullyrðingum hvert annars um stöðu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í kjölfar útboðsins á Íslandsbanka.