*

föstudagur, 19. júlí 2019
Leiðari
15. desember 2016 11:18

Af hagsmunum

Upplýsingar um hagsmunatengsl dómara sem Hæstiréttur ætlar að birta ganga ekki nógu langt, því þær ná ekki aftur í tímann.

Hæstiréttur Íslands hefur tekið þá ákvörðun að birta opinberlega upplýsingar um hagsmunatengsl hæstaréttardómara og ganga með þeim hætti mun lengra en gert er ráð fyrir í lögum.

Þannig á, frá næstkomandi áramótum, að vera hægt að finna á vefsíðu réttarins upplýsingar um aukastörf dómara og laun fyrir þau, fasteignir í eigu dómara aðrar en heimili þeirra, eignarhluta í hvers kyns félögum, allar skuldir dómara aðrar en skuldir vegna heimilis þeirra og aðild dómara að félögum sem ekki hafa fjárhagsleg markmið.

Þetta er gott og gilt svo langt sem það nær, en gengur ekki nógu langt. Þessar upplýsingar verða að vera til um tímabil sem þegar eru liðin.

Eins og fram hefur komið á síðustu dögum og vikum áttu hæstaréttardómarar sumir í umfangsmiklum hlutabréfaviðskiptum og áttu hlutabréf í skráðum félögum á árunum fyrir fall bankanna. Þessar upplýsingar þurfa allar að liggja frammi.

Tilgangurinn með upplýsingagjöf um fjárhagslega hagsmuni dómara hafa þann tilgang að gæta ekki aðeins að því að dómarar séu hæfir til að dæma í þeim málum sem þeir fá til meðferðar, heldur ekki síður til að auka tiltrú almennings á dómskerfinu.

Þeir sem þurfa að verja rétt sinn fyrir dómstólum þurfa að geta treyst því að dómarar séu óháðir báðum málsaðilum og hafi ekki hagsmuni af niðurstöðu málsins.

Nú hefur komið í ljós að hugsanlega voru dómarar við réttinn sem höfðu hagsmuni, hversu miklir eða lítilvægir sem þeir kunna að hafa verið, í málum sem þeir dæmdu í. Það skiptir ekki máli hvort þessir hagsmunir hafa haft áhrif á niðurstöðu dómsmálsins.

Allt eins má ganga út frá því að svo hafi ekki verið, en þar er verið að missa af mikilvægi hæfisreglnanna. Hæfisreglurnar eiga ekki bara að tryggja, að því marki sem það er hægt, að rétt niðurstaða fáist í dómsmáli, heldur einnig að koma í veg fyrir að málsaðili geti efast um að hann hafi ekki fengið rétta meðferð fyrir dómi.

Við þær aðstæður sem uppi eru nú er eðlileg krafa að upplýsingar um þau fjárhagslegu tengsl dómara, sem tilgreindar eru í ákvörðun Hæstaréttar, liggi einnig fyrir um eignir þeirra og viðskipti frá því að þeir tóku sæti í Hæstarétti.

Í ákvörðuninni segir: „Telji aðilar að einstökum dómsmálum sig þurfa að fá tilgreindar upplýsingar um eitthvert áðurgreindra atriða á tilteknu fyrra tímamarki varðandi dómara í málum þeirra geta þeir beint fyrirspurn um það til Hæstaréttar.“ Má því búast við því að það verði hluti af málatilbúnaði hvers grandvars lögmanns að óska þessara upplýsinga í hverju einasta máli. Hví ekki þá að hafa allt uppi á borði?

Í leiðara síðasta blaðs sagði að forseti Hæstaréttar hefði tilkynnt nefnd um dómarastörf um eignarhlut sinn í Glitni árið 2002. Frá því að sá leiðari var skrifaður hefur komið í ljós að þáverandi formaður nefndarinnar segir að „ef engin sérstök viðbrögð urðu af hálfu nefndarinnar við slíkum tilkynningum mátti dómari ganga út frá því með réttu að ekki væru gerðar athugasemdir“.

Þetta rímar ekki við það sem segir í reglugerð um aukastörf dómara og eignarhlut þeirra í félögum. Þar segir að „leita skuli heimildar“ nefndarinnar fari eignarhlutur yfir þar til greind fjárhæðarmörk. Erfitt er að fallast á það með formanninum fyrrverandi að farið hafi verið að kröfum reglugerðarinnar.

Hvernig sem fer er ljóst að pottur var brotinn í söfnun upplýsinga um hagsmuni dómara og er vonandi að það skref sem stigið var í gær með ákvörðun Hæstaréttar verði ekki síðasta skrefið í þá átt.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.