Íslenskir fjölmiðlar sögðu 438 fréttir af söngvakeppni Evrósjón. Þær fjölluðu nær allar um íslenska keppandann, af hverju hann myndi komast upp úr undankeppni, og síðan af hverju það hefði nú ekki gerst en keppandinn samt sem áður sigurvegari á einhvern hátt. Og ótrúlegustu smáatriði önnur, eins og ummæli Gísla Marteins um úkraínsku kynnana, hvað helstu „sérfræðingum“ Íslands á þessu sviði þætti, hvað þeim þætti eftir á, hvort Ísland ætti ekki að draga sig úr þessarri hneyksliskeppni og svo framvegis.

Maður þakkar bara fyrir að Kastljósfantarnir þjörmuðu ekki að menntamálaráðherra og krefðu hann söngs eða svara.

Þvaðrið tók með öðrum orðum engan enda. Fjölmiðlarýnir hefur skilning á að það sé ekki alltaf mikið að frétta og að menn moði úr dægurmálum sem þessum. Söngvakeppnin lifir þetta allt af en miðlarnir gera sig hlægilega með svo yfirdrifinni umfjöllun.

* * *

Ríkisútvarpið sagði frá því fyrir helgi að Magnús Ólafur Garðarsson, fyrrverandi forstjóri og stærsti hluthafi United Silicon á Íslandi, sakaði lögreglu um upplýsingaleka. Það var vegna fréttar DV í mars um að hann væri grunaður um að hafa valdið umferðarslysi á Reykjanesbraut með ofsaakstri.

Þar sagði að Magnús og lögmenn hans teldu að blaðamaður DV hafi haft „óeðlilega greiðan aðgang að upplýsingum um málið sem hljóti að hafa komið annaðhvort frá Lögreglunni á Suðurnesjum, sem rannsakaði málið í fyrstu, eða frá Héraðssaksóknara, sem rannsakaði það á síðari stigum.“

Þeir eru með öðrum orðum að giska. Það breytir því ekki að manninum kann að finnast það óþægilegt að hinir löngu armar laganna láti eitthvað uppi um málið og lögmönnum hans kann að þykja það spilla mögulegri vörn hans. Þeir nefna það þá bara við dómara til frávísunar. Brot á þagnarskyldu er innanhúsvandamál lögreglunnar, ekki hins grunaða, því ef yfirlýsingar hennar eða lekar spilla rannsókninni, þá er það ávallt hinum grunaða til tekna.

Eitthvert væl yfir að blaðamenn hafi „óeðlilega greiðan aðgang að upplýsingum“ er bara kjánaskapur, því það er einmitt hlutverk blaðamanna að afla upplýsinga og greina almenningi frá þeim. Samanber gömlu skilgreininguna: Frétt er eitthvað sem einhver vill ekki að sagt sé frá.

Forstjórinn fyrrverandi hefur sagt aðra sögu um samskipti sín við lögregluna, en þó ekki mótmælt frásögn DV. Sem aftur segir sína sögu.

Hitt er svo annað mál, að íslenskum lögregluþjónum þykir alveg jafnskemmtilegt og erlendum kollegum þeirra að gera fjölmiðlum viðvart um skilvirka löggæslu og athyglisverð afbrot. Og það getur þjónað göfugum tilgangi, bæði í nafni réttvísinnar og upplýsingu almennings.

* * *

Fjölmiðlanefnd sendi á dögunum fjárlaganefnd Alþingis afrit af fjölmiðlayfirlýsingu, þar sem kvartað var undan því hún gæti ekki með nokkrum hætti staðið undir því hlutverki, sem henni er ætlað að lögum sakir fjárskort, en ekki væri að sjá af fjármálaáætlun stjórnvalda að breyting yrði á því næstu árin.

Fjárveitingar til nefndarinnar hefðu verið skornar niður í meðförum Alþingis á undanförnum árum og einu hækkanirnar á fjárframlögum hefðu verið til þess að mæta verðlagsbreytingum og kjarasamningshækkunum.

Já, þetta er örugglega leiðinlegt fyrir starfsmenn nefndarinnar. Hún hefur margvísleg verkefni með höndum lögum samkvæmt, þar á meðal að einhverju leyti til samræmis við rammalöggjöf EES. Þá kvað málafjöldi stofnunarinnar hafa aukist verulega og „mál sífellt umfangsmeiri“. Þá þurfi fjölmiðlanefnd héðan í frá að að skila árlegri skýrslu vegna eftirlits með Ríkisútvarpinu samkvæmt þjónustusamningi, samruna á fjölmiðlamarkaði hafi fjölgað umtalsvert „og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun“. Mjög sorglegt allt.

Fjölmiðlarýnir beinir því til menningar- og menntamálaráðherra að láta endurskoða löggjöfina með það fyrir augum að afleggja stofnunina.