Á einkarekinn skráður banki að vera með hærri fjármögnunarkostnað en ríkisrekinn banki?

Í nýju riti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika kemur fram að frá ársbyrjun 2017 til september síðastliðins hafi uppsöfnuð útgáfa hreinna nýrra íbúðalána bankanna numið um 210 milljörðum króna en hrein útgáfa sértryggðra skuldabréfa einungis um 150 milljörðum króna. Afleiðingin er tilheyrandi lækkun lausafjárstöðu bankanna.

Samkvæmt samantekt Fjármálaeftirlitsins úr ársreikningum lífeyrissjóða voru stærstu eigendur sértryggðra skuldabréfa bankanna í árslok 2017 með um 180 milljarða króna á gangvirði. Áhugi lífeyrissjóðanna hefur beinst erlendis en samkvæmt hagtölum Seðlabankans hafa þeir varið um 92 milljörðum króna í gjaldeyriskaup það sem af er ári við að auka hlutfall erlendra eigna fram yfir 26% af heildareignum. Þá hafa sjóðirnir aukið fjármögnun útgáfu eigin íbúðalána til sjóðsfélaga sem merkja má á að heildarútlán þeirra til heimila hafa vaxið um 60% frá ársbyrjun 2017 eða um 140 milljarða króna.

Myndin er úr Kodiak Excel og sýnir þróun fjármögnunarkostnaðar sértryggðra bréfa bankanna ofan á ríkisbréf eða svokallað áhættuálag í ávöxtunarkröfu þeirra. Um er að ræða vegið meðaltal álags hvers flokks útgefanda sem reiknað er miðað við samsvarandi meðaltíma ríkisbréfa. Í byrjun árs 2017 var álag Landsbankans hf. um 40 punktar (pkt.) en hefur verið liðlega 65 pkt. í október. Álag Íslandsbanka hf. var um 34 pkt. en er nú um 52 pkt. Eini einkarekni bankinn með sértryggð skuldabréf, Arion banki hf., þurfti að þola um 47 pkt. álag snemma árs 2017 en nú um 72 pkt.

Viðauki á síðunni hi.is/~boo4 inniheldur daglegt áhættuálag fyrir hvern flokk frá byrjun árs 2012.

Munur á álaginu vekur eftirtekt. Samtala markaðsvirðis hvers útgefanda er álíka eða samkvæmt Kauphöll Íslands er Íslandsbanki með skráða um 145 milljarða króna, Arion banki 123 og Landsbankinn 106. Stærstu flokkar útgefenda eru allir með viðskiptavakt. Frá byrjun árs 2017 hefur álag Arion banka verið um 5 pkt. hærra að miðgildi en á Landsbankann og um heila 14 pkt. miðað við Íslandsbanka. Erfitt er að færa rök gegn því að markaðsaðilar haldi aftur af áhættuálagi á skuldabréf Landsbankans og Íslandsbanka þegar þessir útgefendur eru 98,2% til 100% í eigu ríkissjóðs. Hins vegar er erfitt að átta sig á af hverju stjórnvöld vilja skekkja samkeppnisstöðuna á bankamarkaði með þessum hætti þegar bankarnir etja kappi í að reyna fjármagna útlán sín.

Hagsmunaárekstrar: Höfundur er eigandi hlutabréfa í Arion banka hf. en virði þeirra er undir 1% af eigin fé.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.