Gengi Bitcoin náði hámarki um miðjan apríl á þessu ári þegar það náði um 64.900 Bandaríkjadollurum. Rúmum mánuði síðar bannaði Kína Bitcoin-námuvinnslu og gengi myntarinnar fór í skamman tíma niður fyrir 29.000 Bandaríkjadollara. Júní- og júlímánuðir voru fremur rólegir, eins og jafnan á við um sumartímann, en markaðurinn hefur tekið við sér í ágúst og kaupendahliðin hefur styrkst, en gengi myntarinnar er um 47.300 Bandaríkjadollarar þegar þetta er skrifað.

En hvað er það sem gerir Bitcoin að heillandi fjárfestingarkosti?

Óhætt er að segja að sífellt fjölgi í hópi reynslumikilla fjárfesta sem velja Bitcoin sem langtímafjárfestingu. Til að mynda birti Coinbase, ein stærsta rafmyntakauphöll heims, nýverið upplýsingar um að tíu af hundrað stærstu vogunarsjóðum Bandaríkjanna ættu í viðskiptum við kauphöllina. Á síðustu misserum hafa jafnframt þekktir vogunarsjóðsstjórar eins og Ray Dalio, Stanley Druckenmiller og Paul Tudor Jones bæst í hópinn. Þessir menn eiga það allir sameiginlegt að vera um sjötugt og hafa áratuga reynslu af fjárfestingum og fjármálamörkuðum á Wall Street. Sumum kann því að þykja athyglisvert að slíkir öldungar, sem átt hafa mikilli velgengni að fagna á hefðbundnum mörkuðum, skuli sýna þessu nýstárlega tæknifyrirbæri áhuga.

En af hverju skyldu slíkir fjárfestar, eða fólk yfirleitt, velja Bitcoin sem fjárfestingu?

Bitcoin er harður peningur og kosti myntarinnar er nauðsynlegt að greina í samhengi við núverandi peningakerfi og aukningu peningamagns í umferð. Viðbrögð seðlabanka heimsins við fyrstu Covid-bylgjunni, sem skall á í mars í fyrra, hafa einkennst af gríðarlegri aukningu peningamagns í umferð. Seðlabanki Bandaríkjanna er líklega besta dæmið, en peningamagn í umferð jókst þar í landi um 27% árið 2020 (samkvæmt mæliflokknum M2) og hefur önnur eins aukning ekki sést síðan 1943, mitt í þátttöku Bandaríkjanna í síðari heimsstyrjöldinni. Samhliða þessari aukningu hefur stýrivöxtum verið haldið í lágmarki. Fyrir vikið þykja peningalegar eignir og ríkisskuldabréf svo fráhrindandi fyrir fjárfesta að manni detta helst í hug hnyttin orð Ray Dalio um viðfangsefnið: „Cash is trash.“ Hér kemur Bitcoin til sögunnar sem lausn við þessum vanda.

Bitcoin felur í sér stafrænt, dreift og ómiðstýrt peningakerfi. Jafnframt uppfyllir það öll þau skilyrði sem mannkynssagan kennir okkur að peningar þurfi að uppfylla; Bitcoin er færanlegt, deilanlegt, geymanlegt, sannreynanlegt og með fyrir fram ákveðið magn (aldrei verða til fleiri en 21.000.000 Bitcoin). Aukning á magni Bitcoin í umferð er einnig gagnsæ og fyrirsjáanleg. Nú hafa verið grafnar rúmlega 18,78 milljónir eininga og munu 900 Bitcoin bætast við daglega þar til það magn helmingast árið 2024 og svo koll af kolli á fjögurra ára fresti þar til allt Bitcoin hefur verið grafið upp árið 2140.

Stafrænt gull

Samlíking Bitcoin við gull hefur verið áberandi hjá fjárfestum, enda skal engan undra að slíkur samanburður veki meiri áhuga og skilning hjá þeim en framandi heimur dulmálsfræðinnar og bálkakeðjutækninnar, sem Bitcoin grundvallast á. Gull og Bitcoin eiga það sameiginlegt að vera harður peningur, sem krefst tíma, kostnaðar og vinnu að auka framboð á. Gull býr einnig yfir framangreindum eiginleikum sem einkennir góðan pening, enda hefur gull verið sá peningur sem hinn frjálsi markaður hefur valið mestalla peningasögu mannkyns. Hins vegar er ekki að ástæðulausu sem litið er á hið stafræna gull sem betrumbætta útgáfu þess (Gold 2.0). Hægt er að senda Bitcoin hvert sem er, hvenær sem og án nokkurs milliliðar. Einu Bitcoin má skipta í hundrað milljónir eininga án þess að fagaðili þurfi að sjóða það. Maður getur geymt og sannreynt Bitcoin-eign sína sjálfur án nokkurrar sérþekkingar. Loks getur maður treyst því að sama hversu mikið gengi Bitcoin hækkar verður það ekki grafið hraðar úr jörðinni, eins og gerist jafnan þegar gengi únsunnar af gulli hækkar verulega.

Heildarmarkaðsvirði Bitcoin nemur tæplega 900 milljörðum Bandaríkjadollara og hefur aukist að meðaltali um 200% á ári síðasta áratug. Í dag er áætlað að um 150 milljónir manns eigi Bitcoin í einhverjum mæli, eða um 2% af íbúum heimsins, og hefur sá fjöldi vaxið jafnt og þétt frá því að fyrsti bálkinn var grafinn af stofnanda forritsins 3. janúar 2009. Ljóst er að Íslendingar hafa ekki látið sitt eftir liggja, en viðskiptavinir Myntkaupa ehf., stærstu Bitcoin-miðlunar á Íslandi, eru nú rúmlega 5.400 talsins og hafa þeir keypt Bitcoin fyrir um 2,8 milljarða króna það sem af er þessu ári.

Bitcoin virðist því sannarlega komið til að vera og halda áfram að vaxa og dafna, rétt eins og aðrar tæknibyltingar á undan því, eins og internetið eða rafmagnið. Eitt eiga þessar tæknibyltingar sameiginlegt: Enginn er of seinn að tileinka sér þær, menn eru bara misfljótir.

Höfundur er regluvörður og stjórnarmaður Myntkaupa ehf.