Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur að undanförnu gagnrýnt lífeyrissjóðina ­fyrir að koma ekki í meiri mæli að uppbyggingu leigufélaga hér á landi á sama tíma og hann sakar leigufélögin um að okra á leigjendum.

Í samhengi við slík greinaskrif spurði Ragnar nýverið hvort lífið gengi „bara út á að lifa eins og þræll allt lífið til að hafa það hugmyndafræðilega gott á efri árum?“.

Þessi samlíking íslenskra launþega við þrælahald er Ragnari ekki sérstaklega til framdráttar og gerir lítið úr þeim sem þurfa raunverulega að þola slíkt ofbeldi og níð. Enda er upphrópunum sem þessum fyrst og fremst ætlað að vekja athygli netverja fremur en að alvara sé á bak við þær.

Umfjöllun í Morgunblaðinu í vikunni vakti hins vegar athygli Týs, en þar sagði Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, að leiguverð hefði aldrei verið lægra í hlutfalli við fasteignaverð og sjaldan verið lægra í hlutfalli við laun. Kári benti um leið á að margar þjóðir hefðu brennt sig á illa útfærðu leiguþaki sem hefði dregið úr framboði á leiguhúsnæði og þannig gert stöðu leigjenda enn verri.

Vaxtakjör hafa versnað hjá leigufélögum líkt og öðrum að undanförnu á sama tíma og fasteignaverð er tekið að lækka. Sökum þess benti Kári á að að líkindum borgaði sig hvergi á höfuðborgarsvæðinu að setja nýtt leiguhúsnæði á markað og leiguverð hlyti að hækka.

Það kann þó að vera rétt hjá Ragnari að líf­eyris­sjóðirnir hafi almennt verið fremur tregir að fjárfesta í leigufélögum. Fyrir því eru sjálfsagt ýmsar ástæður. Ein er sennilega að ólíkt því sem tíðkast víða á Norðurlöndunum hafa Íslendingar almennt lítinn áhuga á að vera á leigumarkaði til langframa og vilja fremur eiga sitt húsnæði. Lífeyrissjóðirnir hafa því farið þá leið að bjóða sjóðfélögum sínum hagstæð kjör á húsnæðislánum.

Önnur ástæða er sennilega að mikil um­fjöllun fjölmiðla um meinta græðgi eigenda leigufélaga til viðbótar við upphrópanir Ragnars og fleiri úr verkalýðshreyfingunni um meint leiguokur hafa fælt lífeyrissjóðina frá. Það er lífeyrissjóðunum þó varla til framdráttar því að fleiri hefðu mátt standa í lappirnar gagnvart þessum popúlísku upphrópunum.

Týr er einn af reglulegum pistlum Viðskiptablaðsins, en þessi birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 9. mars.

.