Mikilvægt er að uppreikningur á skráðum skuldabréfaflokkum sé sem réttastur enda tilgangur skráningar að verðmyndun verði virkari.

Af þeim fyrirtækjaskuldabréfum sem skráð eru í Kauphöll Íslands hafa flest viðskipti verið með verðtryggða jafngreiðsluflokkinn EIK 12 01 sem útgefinn er af fasteignafélaginu Eik hf. 135 viðskipti hafa átt sér stað með flokkinn eða 12% af viðskiptadögum tímabilsins frá ársbyrjun 2013. Viðskiptavakt er á flokknum. Ávöxtunarkrafa flokksins var 4,2% við lok viðskipta síð- astliðinn þriðjudag samkvæmt KODIAK Excel og hefur ekki verið hærri frá skráningu en vaxtamiðar flokksins reiknast miðað við 4,3%.

Áhættuálag flokksins hefur farið hækkandi frá áramótum og er nú nálægt 200 punktum (pkt.) líkt og myndin sýnir. Hér er áhættuálag skilgreint sem mismunur kröfu flokks við ávöxtunarkröfu íbúðabréfa með sama meðaltíma.

Áhugavert er að bera saman álag EIK 12 01 við álag REG2SM 2, útgefinn af fasteignatengda fagfjárfestasjóðnum REG 2 Smáralind, sem hefur álíka meðaltíma og EIK 12 01 eða um 11 ár. Að miðgildi var álag á REG2SM 2 um 4 pkt. lægra en á EIK 12 01 frá miðju ári 2013 fram á mitt ár 2016. Síðan þá hefur mismunurinn farið einhalla vaxandi og var við lok viðskipta síðastliðinn þriðjudag tæplega 30 pkt. Einungis 10 viðskipti hafa átt sér stað með flokkinn frá ársbyrjun 2013 – sem þó skipar honum í fimmta sæti hvað varðar flest viðskipti frá ársbyrjun 2013. Þótt vaxandi munur skýrist af strjálum viðskiptum þekkir lesandi að fjárfestar og sjóðir miða við opinbera dagslokaverðskröfu við mat á svokölluðum uppreikningi. Ef viðskiptavakt væri á flokknum mætti hugsa sér að áhættuálag REG2SM 2 væri nær álagi EIK 12 01.

Í kjölfar umfjöllunar hér um skráð fyrirtækjaskuldabréf síðla febrúar 2014 hækkaði áhættuálag flokksins úr því að vera neikvætt um nærri 70 pkt. í að verða jákvætt um 5 pkt. líkt og myndin sýnir. Frá þeim tíma hefur álagið ekki orðið svo neikvætt en velta má því upp hversu réttlætanlegt sé að álagið fari mikið undir -20 pkt., eða svokallað „Íbúðalánasjóðsálag“, sem yfirfærist í að flokkurinn sé tryggari fjárfesting en ríkisbréf. Fyrir fjárfesta er mikilvægt að uppreikningur á flokknum sé sem réttastur og má sem dæmi nefna að stærsta einstaka fjárfestingareign tryggingafélagsins Sjóva hf. í lok fyrsta ársfjórðungs var tæplega 5,5 ma.kr. í LAND 05 1.

Óseljanleg fyrirtækjaskuldabréf
Óseljanleg fyrirtækjaskuldabréf