*

sunnudagur, 23. janúar 2022
Týr
11. mars 2019 19:00

Áfallasaga

Tölfræðileg marktækni niðurstaðna rannsóknar Háskóla Íslands og skoðanakannana Útvarps sögu er svipuð.

Haraldur Guðjónsson

Niðurstöður í netkönnunum Útvarps Sögu um menn og málefni eru oft mjög athyglisverðar. Oft eru þær mjög afgerandi, en sæta sjaldnast miklum tíðindum, enda segja þær miklu meira um hlustendur Útvarps Sögu en afstöðu alþjóðar. Það er vegna þess að þeir sem taka þátt í „könnununum“ eru fyrst og fremst hlustendur útvarpsstöðvarinnar, sem eggjaðir eru til þess af hinum reifu þáttastjórnendum hennar. Það fer nefnilega oftast eftir því hvern þú spyrð hvaða svör þú færð. 

                                                                             * * *

Hópur vísindamanna við Háskóla Íslands hefur að undanförnu kallað eftir upplýsingum frá íslenskum konum í gegnum vefinn afallasaga.is. Ætlunin er auka þekkingu á ýmsum áföllum á lífsleiðinni, þar á meðal ofbeldi og áhrifum þeirra á heilsufar kvenna.

                                                                             * * *

Fyrir nokkru birtust þannig fyrirsagnir á borð við „fjórðu hverri konu nauðgað eða það reynt“ víða í íslenskum fjölmiðlum. Afgerandi og sláandi tölur um íslenskt samfélag, líkt og Ríkisútvarpið greindi frá: „Fyrstu niðurstöður í umfangsmikilli rannsókn á áfallasögu kvenna sýna að fjórðungi kvenna hefur verið nauðgað eða tilraun verið gerð til að nauðga þeim. Arna Hauksdóttir, prófessor í Lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, segir að það sé hærra hlutfall en hún hafi séð áður, bæði í innlendum og erlendum rannsóknum.“

                                                                             * * *

Nú er ekki gott að segja hvert þetta hlutfall gæti verið í raun, en fjórðungur hljómar eins og tala frá stríðshrjáðu landi eða landi þar sem ofbeldi er látið nánast óátalið. Getur það verið raunin á Íslandi?

                                                                             * * *

Vísindamenn úr æðstu menntastofnun þjóðarinnar geta ekki látið svona frá sér fara án viðeigandi fyrirvara og varla heldur með fyrirvörum, því þeir fara iðulega fyrir ofan garð og neðan hjá fjölmiðlum, sem vilja ögrandi fyrirsagnir til að ná í smellina. Fyrirvarinn í þessu tilviki er sá að það gæti verið að þegar vísindamennirnir kalli eftir áfallasögum fái þeir mikil viðbrögð frá þeim sem hafa lent í áfalli, en lítil viðbrögð frá hinum. Þau áföll eru grafalvarleg, á frásagnir af þeim ber að hlusta og draga af ályktanir til úrbóta. En það er ekki þar með sagt að þau endurspegli lífsreynslu gervallrar þjóðarinnar.

                                                                             * * *

Það ætti ekki að þurfa að nefna þetta, en misskilningur eða misnotkun á tölfræði er því miður mjög algengur í íslensku samfélagi. Það er slæmt að fjölmiðlarnir vari sig ekki á því, en afleitt þegar háskólasamfélagið gerir sig sekt um það. Þess þá heldur, þegar svo grafalvarleg meinsemd sem kynferðisofbeldi er til umfjöllunar.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.