*

laugardagur, 19. september 2020
Leiðari
14. ágúst 2020 08:21

Áfangasigur hjá Icelandair

Samningar við kröfuhafa og Boeing eru stór áfangi fyrir Icelandair. Nú þarf að sannfæra fjárfesta um að félagið verði arðbært.

Haraldur Guðjónsson

Icelandair lauk í vikunni samningum við Boeing og helstu kröfuhafa félagsins. Samningarnir eru mikill áfangasigur fyrir félagið. Þar með má segja að félagið hafi náð markmiðum sem það setti sér í vor áður en hlutafjárútboð félagsins hefst síðar í þessum mánuði. Samningarnir koma til viðbótar við nýja fimm ára samninga við flugstéttir félagsins sem gerðir voru fyrr í sumar.

Samningarnir koma auðvitað ekki til af góðu. Í reynd má segja að félagið hafi verið í nauðasamningsviðræðum við kröfuhafa, Boeing og stéttarfélög enda hafa markaðir félagsins hrunið, eins og hjá öðrum flugfélögum. Icelandair hefur haldið spilunum nokkuð þétt að sér á meðan viðræðurnar hafa verið í gangi.

Í skráningarlýsingu og fjárfestakynningu sem birt verður á næstu dögum mun félagið þurfa að sýna spilin um framtíðarsýn félagsins. Fjárfestar, blaðamenn og almenningur bíða spennt eftir því sem þá mun koma í ljós.

Það liggur fyrir að Icelandair þarf að sýna fram á með trúverðugum hætti hvernig það getur lifað af með nokkurs konar lágmarksstarfsemi þar til almenningur fer að fljúga að ráði á ný. Ferðalög til og frá Bandaríkjunum hafa að mestu lagst af. Viðskiptaáætlun félagsins undanfarna áratugi hefur að stórum hluta byggst upp á því að koma fólki á milli Bandaríkjanna og Evrópu með viðkomu á Íslandi.

Í fjárfestakynningu sem Icelandair kynnti fyrir hluthöfum í vor kom fram að gangi áætlanir þess eftir gæti félagið lifað í allt að tvö ár með litlar sem engar tekjur. Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, segir í Viðskiptablaðinu í dag að síðari hluti sumars hafi þó gengið betur en búist var við þá. Það er góðs viti en að sjálfsögðu ekki nóg til að koma félaginu fyrir vind.

Ekki síður brýnna mál fyrir félagið er að sannfæra fjárfesta um að félagið verði arðbært til framtíðar. Rekstrarkostnaður þess þarf að standast samanburð við erlenda samkeppnisaðila. Hár launakostnaður félagsins — ekki síst flugstéttanna — hefur vegið þungt í samanburði við erlenda samkeppnisaðila. Nýir kjarasamningar ættu að draga úr þeim kostnaði hjá Icelandair en ætli félagið sér að lifa til frambúðar er nauðsynlegt að starfsfólk og stjórnendur séu samstíga.

Samkeppnisaðilarnir eru þó flestir í sömu stöðu og hafa sjálfir krafið starfsmenn um að gefa eftir af launakröfum. Icelandair þarf einnig að sýna fram á trúverðuga stefnu í flotamálum félagsins. Flugfloti félagsins er í eldra lagi í alþjóðlegum samanburði, ódýr í rekstri meðan vélarnar geta lítið flogið en kostnaðurinn hækkar því hærra sem þær lyftast frá jörðu. Icelandair gekk í vikunni frá samningum við Boeing vegna 737 MAX vélanna sem verða að lokum tólf í flota félagsins.

Nákvæmlega hver aðkoma ríkisins verður mun einnig skipta tilvonandi fjárfesta máli. Til að mynda hve lengi ríkisábyrgðir eða lánalínur frá ríkinu eiga að vara. Ríkið á auðvitað sjálft beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta í félaginu. Ríkisbankarnir eru stærstu lánveitendur félagsins.

Flugrekstur er í eðli sínu sveiflukenndur. Í þessu samhengi mætti benda á að íslenska ríkið á og rekur flugstöðina og flugvöllinn í Keflavík sem hefur verið að mestu tekjulaus síðustu mánuði og verður áfram á næstunni. Farsælla hefði verið fyrir ríkissjóð ef tekist hefði að selja hlut í flugvellinum og bönkunum þegar ferðamannauppsveiflan stóð sem hæst.

Hvort Icelandair verði arðbært til framtíðar mun þó ávallt velta á þróun heimsfaraldursins og því hve viljugt fólk verður að ferðast þegar veiran sjálf hættir sínum ferðum. Hvernig sú þróun verður getur auðvitað enginn svarað nú. Eitt er hins vegar víst, það verður töluverð áhætta fólgin í að leggja Icelandair til fé. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.