Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra er í mikilvægum erindum í Tókyó. Eins og við vitum öll þá hefur Guðlaugur Þór, allt síðan hann varð ráðherra, gert allt til þess að stíga ekki upp í flugvél. En heill forsetans og þjóðarinnar voru í húfi.

Að sögn Guðlaugs Þórs í færslu á Facebook er hann meðal annars í Tókýó til að „kynnast betur því kröftuga samfélagi Íslendinga sem hér býr“. Hrafnarnir höfðu reyndar ekki heyrt af Íslendingasamfélaginu í Japan.

En fyrst umhverfisráðherrann leggur í slíka langferð, með tilheyrandi kolefnisspori, hljóta þetta að vera þúsundir Íslendinga. En ekki bara einn eða tveir vinir ráðherrans.

Það er skemmtileg nýjung að leyfa okkur alþýðunni að taka þátt í ferðalaginu. Aðstoðarmaður ráðherrans hefur sett saman stórskemmtilegt myndband af ferðalaginum, sem sjá má hér fyrir neðan.

Þar má til dæmis sjá yfir Monkey Class farrýmið um borð í Finnair vélinni sem flutti ráðherrann. Nú vita hrafnarnir ekki hvort ráðherrann flaug með alþýðunni eða á betra farrýminu, líkt og Bjarkey okkar Olsen. Fyrir þá þekkja hana ekki þá er hún þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar.

Hér má sjá Friðrik Souphusson fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og Guðlaug Þór árið 1995. Friðrik barðist sem fjármálaráðherra fyrir bættum ríkisrekstri, lágum sköttum og lágum skuldum ríkissjóðs.

Guðlaugur Þór Þórðarson var formaður SUS frá 1995-1997. Það var einmitt 1997 sem var fyrsta fjárlagaárið frá 1985, þar sem ekki var afgangur af fjárlögum. Guðlaugur Þór barðist hatrammlega gegn ríkisútgjöldum og auknum ríkisskuldum og kynnti mikilvæga nýjung. Skuldaklukkuna.

Hrafnarnir vilja koma með eina góðfúslega ábendingu til Guðlaugs. Ef nokkurt færi gefst í afar brýnni og þéttri dagskrá ráðherrans að setjast niður með aðstoðarmanninum - sem jafnframt er varaformaður Sambands ungra sjálfstæðismanna - og útskýra fyrir honum hvernig SUS barðist gegn ríkisafskiptum, háum sköttum og ekki síðast en síst bruðli í opinberum rekstri.

En auðvitað vilja Hrafnarnir ekki að þéttri dagskrá ráðherrans verði raskað. Aðeins ef tækifæri gefst.

Þetta er nefnilega ekki svo brýnt. Hallinn er nefnilega ekki nema 120 milljarðar í ár. Svo ef fjárlögin standast.

Í dag er ágætis veður í Tókýo, lítilsháttar vindur en 22 gráður og sól. Það gæti orðið dálítið kalt í kvöld þannig að Hrafnarnir ráðleggja ráðherranum, og aðstoðarmanninum, að taka með sér létta peysu. Úlpa er líklega óþarfi.

Hrafnarnir vona að ferðalangarnir njóti daganna í Tókýó og birti sem flest myndbönd. Því myndböndin slá á efasemdaraddirnar og öfundarfólkið.

Á þeim sést nefnilega að hér er um afar brýna og mikilvæga ferð til að verja hagsmuni Íslands.

Til sigurs – fyrir alþýðuna!