Í atferlis- og uppeldisfræði er mikið fjallað um mikilvægi „jákvæðrar styrkingar” og að „grípa börnin góð”. Með öðrum orðum er áhersla lögð á að taka eftir jákvæðri hegðun, og hvetja til frekari hegðunar af sama tagi, t.d. með hrósi eða annars konar viðurkenningu eða hvatningu.

Þannig á frekar að taka eftir því þegar börnin eru dugleg að leika sér og hrósa þeim fyrir það frekar en að láta þau óáreitt þegar þau eru til fyrirmyndar en skammast svo þegar þau sýna óæskilega hegðun. Það erfiða við þessa nálgun er að við mannfólkið erum svo agalega miklir úrbótasinnar að það jaðrar stundum við áráttu. Það virðist vera í eðli okkar að þefa uppi það sem betur má fara og sífellt leita leiða til að bæta okkur. Og auðvitað er ekkert slæmt við það í sjálfu sér en við getum stundum verið helst til gagnrýnin án þess að sjá hvaða árangri er búið að ná. Við megum ekki gleyma að staldra við og taka eftir því sem vel er gert, hvað hefur áunnist og hversu vel við erum búin að standa okkur. Að fagna sigrunum, stórum sem smáum.

Verandi fremur jákvæð í eðli mínu, hvatvís og ófeimin við að segja það sem mér býr í brjósti, hef ég reynt að temja mér að finna það jákvæða í fari fólks og segja þeim það upphátt. Ég hef oft komið fólki í opna skjöldu (sérstaklega ef ég þekki viðkomandi lítið eða ekkert) með því að hrósa fyrir eitthvað í fari þess eða sem það gerði sem ég kunni að meta.

Mér finnst það alltaf jafn athyglisvert hve fólk á almennt erfitt með að taka hrósi og hvað það verður oft hissa. „Ha, jáh.. *vandræðalegur hlátur* …öö takk!“ Sumir byrja meira að segja að draga úr eða malda í móinn! Það mætti halda að fólk fái bara aldrei hrós! Og ætli það sé ekki barasta málið! Við erum alls ekki nógu dugleg að hrósa hvert öðru og því miður á það einnig við um atvinnulífið.

En afhverju? Samkvæmt fræðunum er jákvæð styrking ein skilvirkasta leiðin til að ýta undir jákvæða hegðun. Þetta er meira að segja kennt á hundanámskeiðum! Er þá jákvæð styrking, eins og hrós, ekki ein allra besta leið sem fyrirfinnst til að draga fram eiginleika og hegðun sem við kunnum að meta í leik og starfi? Afhverju er fólk í stjórnendastöðum ekki þjálfað í því að markvisst taka eftir góðum árangri eða eiginleikum hjá starfsfólki og hrósa þeim fyrir það. Afhverju notum við ekki hrós í auknum mæli í atvinnulífinu til að ýta undir styrkleika fólks, hvetja það áfram og valdefla til góðra verka? Að hreinlega þjálfa fólk til að vinna á styrkleikum sínum.

Ég er á því að fyrirtæki og stjórnendur geti byggt upp hvetjandi og jákvæða fyrirtækjamenningu þar sem hrósum er markvisst beitt þegar það á við og er verðskuldað. Ég hef ennfremur trú á því að hrós geti spilað stórt hlutverk í aukinni starfsánægju, bættum samskiptum og meiri árangri. Þá er ég ekki í vafa um að slíkt myndi draga úr streitu og álagi og minnka líkur á kulnun.

Höfundur er frumkvöðull, fyrirlesari, ráðgjafi, stjórnandi og félagskona FKA.