Ákvörðun íslenska ríkisins á sínum tíma um að selja eignarhlut sinn í Íslandsbanka skapaði gullið tækifæri til þess að styrkja stoðir hlutabréfamarkaðarins með aukinni þátttöku almennings. Frumútboðið í Íslandsbanka í fyrra var í flesta staði vel heppnað og eftir útboðið voru hluthafar í bankanum tæplega 25 þúsund. Með öðrum orðum höfðu tugþúsundir heimila beina hagsmuni af vexti og viðgangi hlutabréfamarkaðarins eftir frumútboð Íslandsbanka. Á sama tíma studdu vel heppnuð útboð og skráningar Síldarvinnslunnar og flugfélagsins Play við þessa þróun.

Stjórnvöld tóku ákvörðun um að leyfa almenningi ekki að taka þátt í öðru skrefi einkavæðingarferils bankans sem stigið var í mars. Þrátt fyrir að gild rök kunni að vera fyrir þeirri ákvörðun er hún eigi að síður umdeilanleg. Það breytir þó engu um þá staðreynd að útboðið hefur sett frekari sölu á eignarhlut ríkisins í bankanum í uppnám. Þannig var haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að rétt væri að fresta áformum um sölu á þeim 42,5% sem ríkissjóður á enn í bankanum.

Það eru afleit tíðindi sem geta haft mikil áhrif á framgang hlutabréfamarkaðarins að óbreyttu. Sem kunnugt er þá hefur íslenskur verðbréfamarkaður notið mikils meðbyrs undanfarin ár. Það endurspeglast meðal annars í þeirri staðreynd að erlendir fjárfestar hafa í auknum mæli beint sjónum sínum að íslenskum fyrirtækjum sem eru skráð á markaði. Aukið vægi íslenska markaðarins í ákveðnum erlendum hlutabréfavísitölum helst í hendur við þessa þróun.

Um síðustu mánaðamót tilkynnti svo FTSE Russell að það hefði ákveðið að færa íslenska hlutabréfamarkaðinn upp í flokk nýmarkaðsríkja og tekur sú breyting gildi í september. Þessi hækkun mun greiða verulega fyrir innflæði erlends fjármagns. Einnig eru væntingar um að íslenski hlutabréfamarkaðurinn verði hækkaður úr flokki vaxtamarkaða í flokk nýmarkaðsríkja hjá MSCI vísitölufélaginu innan fárra ára. Það er því átakanlegt ef eftirmálar síðasta útboðs Íslandsbanka verða með þeim hætti að það verður pólitískt ómögulegt að ljúka við sölu á hlut ríkisins á kjörtímabilinu. Með því er verið að henda dýrmætum tækifærum á glæ og á sama tíma grafa undan hagsmunum ríkissjóðs sem hefur engan hag af því að halda í ríflega 40% hlut í Íslandsbanka.

Eins og fyrr segir þá eru ákveðin atriði í síðasta hluta útboðsins sem eru gagnrýnisverðir. Má þar nefna kaup starfsmanna þeirra fjármálafyrirtækja sem sáu um söluna í sjálfu útboðinu og  að ekki hafi verið gerð krafa um lágmarksupphæð þegar kom að tilboðum. Þó svo að slíkur misbrestur sé ekki léttvægur er hann ekki til þess fallinn að setja áframhaldandi sölu á eignarhlut ríkisins í uppnám. Í þessu samhengi er rétt að benda á að Fjármálaeftirlitið hefur nú þegar hafið skoðun á samskiptum fjármálafyrirtækja við þátttakendur í útboðinu. Þetta sýnir að regluverkið er að halda. Þá hefur Ríkisendurskoðun tekið útboðið til skoðunar og vænta má niðurstöðu þeirrar úttektar í júní.

Þegar litið er til vettvangs stjórnmálanna sést að þar er megináherslan á að tortryggja sem flesta þætti útboðsins. Sá leikur kann að verða dýrkeyptur þegar allt er yfirstaðið. Meginþungi gagnrýni stjórnarandstöðunnar og einstaka ráðherra í ríkisstjórninni snýr að því að óæskilegt fólk hafi tekið þátt í útboðinu án þess að færð séu sérstök rök fyrir af hverju þessir fjárfestar séu ekki ákjósanlegir umfram aðra. Þessi gagnrýni felur í sér að stjórnvöld hafi átt að handvelja þá til þátttöku í útboðinu sem eru þeim þóknanleg. Þessi krafa er galin og er í algjörri mótsögn við vilja þeirra sem kjósa að á fjármálamarkaði gildi skýrar reglur sem ná til allra óháð hvort þeir séu stjórnvöldum þóknanleg eða ekki. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að þeir sem hafa verið gerðir tortryggilegir í umræðu undanfarinna vikna hafa í fyrsta lagi haft fullan rétt til þess að fjárfesta í bréfum í Íslandsbanka á markaði og í öðru lagi er það skammsýni að sjá ofsjónum yfir því verði sem kaupin fóru fram á í útboðinu. Gengi hlutabréfa sveiflast og hafa verður í huga að Íslandsbanki er nú þegar hátt verðlagður samanborið við verðmat á evrópskum bönkum sem eru skráðir á markað. Í þriðja lagi er rétt að minna á að stærstur hluti útboðsins rann til stofnanafjárfesta og enginn af þeim fjárfestum sem hafa mest verið milli tannanna á fólki að undanförnu keypti ráðandi hlut í bankanum. Þvert á móti.

Það er ljóst að brotalamir voru á útboðinu og með réttu eða röngu er áframhaldandi sala á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka komin í öngstræti. Það eru miklir hagsmunir í húfi að það takist að greiða hratt og örugglega úr þessari flækju. Þar eru hagsmunir ríkissjóðs og þar af leiðandi skattgreiðenda undir. Kjósi stjórnmálamenn að halda áfram að tortryggja málið og þyrla upp reyk í stað þess að læra af mistökunum mun það jafnframt grafa undan íslenska hlutabréfamarkaðnum og á endanum sanna að ríkið er ótækt sem eigandi að stórum hlut í fjármálafyrirtækjum.