Frigus II ehf. tók þátt í útboði á eign ríkissjóðs í 17,7% af eignarhlutum og skuldakröfum útgefnum af Klakka ehf. Umsjón með útboðinu hafði Lindarhvoll ehf. sem er í eigu ríkissjóðs. Dagleg stjórn Lindarhvols ehf. er í höndum lögmanns sem jafnframt var stjórnarmaður í Klakka ehf. þangað til hluturinn var seldur í kjölfar útboðsins fyrir rúmlega hálfan milljarð króna til BLM fjárfestinga ehf. en það er félag á vegum forstjóra Klakka ehf. Lindarhvoll auglýsti kröfurnar og eignarhlutina til sölu þann 29. september síðastliðinn.

Málsmeðferð útboðsins virðist alfarið hafa verið í höndum umrædds lögmanns og stjórnarmanns í Klakka ehf. en lokaákvörðun og staðfesting á sölunni til BLM var í höndum stjórnar Lindarhvols ehf. Í ljósi þeirra upplýsinga sem hafa komið fram eftir að útboðinu lauk, þeirra misbresta sem urðu á framkvæmd útboðsins og þar sem nokkrum erindum sem Frigus II ehf. beindi til lögmannsins og stjórnar Lindarhvols hefur ekki verið svarað, verður ekki hjá því komist að óska opinberlega eftir svörum frá stjórnarmönnum Lindarhvols ehf., þeim Þórhalli Arasyni, stjórnarformanni, og skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu, Ásu Ólafsdóttur, meðstjórnanda og lektor við Lagadeild HÍ og Hauki C. Benediktssyni, meðstjórnanda og framkvæmdastjóra Eignasafns Seðlabanka Íslands.

Í yfirlýsingu sem stjórn Lindarhvols ehf. birti nýverið á heimasíðu sinni, þar sem athugasemdir okkar við útboðsferlið voru gagnrýndar, voru engin efnisleg svör veitt. Þó að yfirlýsing stjórnar Lindarhvols hafi verið efnisrýr þá er þar ranglega tilgreint að þrjú tilboð hafi borist í hlutina. Það bárust fjögur tilboð, þar af a.m.k. tvö frá BLM fjárfestingum ehf. Fyrra tilboð BLM fjárfestinga ehf. barst þann 30. september kl.16.06 og hljóðaði þá upp á kr. 428.494.216. Ekki er annað að sjá en að stjórn Lindarhvols geri sér hvorki grein fyrir meginatriðum málsins né alvarleika þess.

Þess vegna er óskað svara við eftirfarandi spurningum sem fyrst:

1. Er það mat stjórnar Lindarhvols ehf. að það sé tilviljun að BLM fjárfestingar ehf. hafi, í kjölfar tilboðs Frigusar II. ehf., sent inn hærra tilboð að fjárhæð kr. 505 milljónir, sem er einungis 0,8% hærra en tilboð Frigus II, og 18% hærra en fyrra tilboð BLM fjárfestinga ehf. frá 30 september?

2. Telur stórn Lindarhvols ehf. það eðlilegt að einn tilboðsgjafi (BLM fjárfestingar ehf.) skuli hafa undir höndum 6 mánaða uppgjör Klakka ehf. (sem var umfram væntingar), en aðrir bjóðendur ekki? En engar fjárhagsupplýsingar um stöðu Klakka voru veittar í söluferlinu.

3. Telur stjórnin sig hafa gætt hagsmuna ríkissjóðs og uppfyllt siðareglur Lindahvols ehf. þar sem fram kemur að félagið kappkosti að veita réttar, skýrar og áreiðanlegar upplýsingar, þegar í ljós hefur komið að haldið var frá öðrum fjárfestum 6 mánaða uppgjöri Klakka sem hefði eðli málsins samkvæmt leitt til þess að fá hefði mátt hærri tilboð ef uppgjörið hefði legið fyrir? Uppgjörið átti samkvæmt nauðasamningi Klakka að vera birt í ágústlok, en var birt að lokinni ákvörðun Lindarhvols um að selja BLM fjárfestingum ehf. hlutina, eða þann 16. nóvember. Á skipulegum verðbréfamarkaði geta slík viðskipti fallið undir innherjasvik.

4. Telur stjórn Lindarhvols ehf. söluna á kröfum og eignarhlutum í Klakka ehf. standast kröfur um góða stjórnarhætti, eins og Lindarhvoli ehf. er gert að framfylgja og Alþingi hefur farið fram á?

5. Í reglum Lindarhvols ehf. um umsýslu, fullnustu og sölu eigna er lögð mikil áhersla á að gagnsæi og jafnræði bjóðenda skuli vera tryggt. Telur stjórn félagsins að gagnsæi og jafnræði fjárfesta hafi verið tryggt í þessari sölu?

6. Í yfirlýsingu stjórnar Lindarhvols ehf. er tiltekið að enginn hafi gert athugasemdir við framkvæmdina fyrr en eftir á. Þar sem Lindarhvoll svaraði annaðhvort seint eða aldrei síma eða tölvupóstum á uppboðstíma þá var það eðli máls erfitt. En getur skýringin líka verið sú að bjóðendur, aðrir en BLM fjárfestingar ehf., töldu sig vera að beina tilboði til stjórnar Lindarhvols en ekki beint til stjórnarmanns í Klakka ehf. og að þeir hafi ekki vitað þá að mótbjóðandi í hlutinn var forstjóri Klakka?

7. Telur stjórn Lindarhvols ehf. það ásættanlegt og eðlilegt að lénið lindarhvolleignir.is sé í eigu stjórnarmanns Klakka sem jafnframt sækir upplýsingar og skýringar til forstjóra Klakka sem síðan reynist hæstbjóðandi í útboðinu?

8. Telur stjórn Lindarhvols ehf. það samræmast reglum stjórnsýslulaga að veita ekki upplýsingar á útboðstímanum, svara ekki andmælum með rökstuddum hætti vegna málsmeðferðar og ákvörðunar og gæta ekki að hæfi þess sem fer með framkvæmdavald ríkisfyrirtækisins Lindarhvols ehf.? Hér skal tekið fram að í meðförum Alþingis kom fram að ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga skuli eiga við um Lindarhvol ehf.

9. Var það tilgangur stjórnar Lindarhvols ehf. að gera minni kröfur vegna sölu á skuldakröfum og eignahlutum í Klakka ehf. en gert er í lögum um framkvæmd útboða nr. 65/1993 og lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup, en þar er bjóðendumm. a. heimiltað vera viðstaddir opnun tilboða?

10. Hvers vegna telur stjórn Lindarhvols ehf. að sala á framseljanlegri skuldakröfu að nafnverði 36 milljarða króna falli ekki undir ákvæði VI. kafla laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti um almennt útboð? Sala á verðbréfum sem falla undir lögin felur m.a. í sér að starfsleyfisskylt fjármálafyrirtæki hafi umsjón með útboðinu og gefi út sérstaka útboðslýsingu. Ef það hefði verið gert þá eru allar líkur á því að þau vandamál sem nú eru uppi væru ekki til staðar.

11. Hvernig komst stjórn Lindarhvols ehf. að þeirri niðurstöðu eins og fram kemur í yfirlýsingu hennar að form útboðsins hafi verið með þeim hætti að erlendum bjóðendum hafi verið gert auðvelt að bjóða í hlutinn fyrst auglýsingin og þau litlu gögn sem fylgdu útboðinu voru öll á íslensku?

12. Telur stjórn Lindarhvols ehf. það rétt, eins og fram kemur í yfirlýsingu hennar, að fulltrúi Lindarhvols í stjórn Klakka ehf. sé þar settur til að gæta hagsmuna ríkissjóðs og engra annarra? Telur stjórnin það samræmast meginreglum félagaréttar um skyldur stjórnarmanna í hlutafélögum þegar þeir eiga lögum samkvæmt fyrst og fremst að gæta hagsmuna félagsins (hér Klakka ehf.) en eiga ekki að taka hagsmuni einstakra hluthafa þess fram yfir hagsmuni félagsins, sbr. 48. og 51. gr. einkahlutafélagalaga.

Þetta er vandræðaleg yfirlýsing hjá stjórn Lindarhvols – jafn vandræðaleg og ferlið í heild sinni. Að mati lögmanna sem hafa mikla reynslu af sölu verðbréfa og viðskiptabréfa þá einkennist sölumeðferðin af ójafnræði og litlu gagnsæi. Allt ferlið við ráðstöfun þessara stöðugleikaeigna var því hvorki „skýrt“ né „ljóst“, „vandað“ eða „faglegt“ eins og rætt er um í yfirlýsingu stjórnar Lindarhvols ehf., heldur óásættanlegt með öllu.

Höfundur er forsvarsmaður félagsins Frigus II ehf.