Það er alltaf gleðiefni fyrir hægrimenn þegar nýir vinstriflokkar eru stofnaðir. Glundroðakenningin er hætt að vera kenning og er miklu fremur orðin lögmál. Flokkurinn sem átti að sameina vinstrimenn undir einn hatt, fékk 5,7% í síðustu kosningum. Lengi getur smátt klofnað. Það er samt ekki annað hægt en að taka sér frí frá fagnaðarlátunum til að velta fyrir sér málefnalegum grundvelli flokksins og umræðu um meinta misskiptingu og fátækt.

Fátækt mælist 4,6% á Íslandi og er sú lægsta í heimi. Í ríkustu löndum heims, OECD löndunum, er hún 11,4% að meðaltali og er t.d. 8,8% í Svíþjóð, landi sem vinstrimenn vilja gjarnan bera okkur saman við. Þá er jöfnuður hvergi annars staðar meiri en á Íslandi. Gini stuðullinn er 0,244 (lægri stuðull þýðir meiri jöfnuður) en er 0,281 í Svíþjóð. Laun þeirra 20% sem hafa hæstar tekjur eru 3,4 föld laun þeirra 20% sem hafa lægstu tekjur. Þetta er lægsta margfeldið í OECD, í Svíþjóð er það 4,2.

Við þetta bætist að kaupmáttur jókst að meðaltali um 9,5% á síð­ asta ári. Hann hefur ekki hækkað svo mikið síðan mælingar hófust árið 1990, en á þeim tíma hefur hann hækkað um 1,8% að meðaltali á ári. Sérstök áhersla hefur verið lögð á hækkun lægstu launa í síðustu kjarasamningum þannig að tekjulægstu hóparnir hafa ekki farið varhluta af þessari þróun.

Með þessu eru ég alls ekki að gera lítið úr þeim sem eiga við vanda að etja. Stjórnmálamenn verða hins vegar að líta á stóru myndina og byggja á tölum, en ekki tilfinningu, og tölurnar sýna að vandinn hefur aldrei verið minni og hann er hvergi annars staðar jafn lítill. Það er því spurning hvort ekki sé rétt að aflýsa stofnun nýs jafnaðarflokks vegna góðæris?