*

föstudagur, 10. júlí 2020
Týr
20. september 2019 15:43

Afmennskun

Það hljóta flestir að vera sammála um að ógnanir og ofbeldi gagnvart fjölskyldum stjórnmálamanna eigi ekki að líðast.

David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.

David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, er að gefa út endurminningar sínar um þessar mundir, en The Guardian, sem er vel til vinstri við miðju, gerði sér mat úr frásögn Camerons af dauða sex ára sonar hans árið 2009, þeim harmi og sársauka sem því fylgdi. Í forystugrein var talað af eitraðri lítilsvirðingu um „forréttindasársauka“ hans og spurt hvort Cameron gerði sér grein fyrir sársaukanum sem stjórnarstefna hans hefði valdið. Leiðarinn vakti víðtæka reiði og fór svo að blaðið dró hann til baka og baðst afsökunar. Eftir situr þó spurningin hvernig á því stóð að þessi svívirða var sett fram í nafni blaðsins.

  ***

Þar veldur sennilega miklu pólitísk skautun undanfarinna ár. Svo mjög að stundum er nær að tala um ættbálkaerjur en stjórnmálaágreining. Þar dugar mönnum ekki lengur að eiga pólitíska andstæðinga, heldur eru þeir óvinir og gefa sér að það hljóti að vera eitthvað siðferðislega bogið við fólk, sem er ósammála þeim.

 ***

Það var merkilegur þáttur í Íslandi í dag á Stöð 2 í fyrradag, þar sem rætt var við börn (ung en uppkomin) umdeildra stjórnmálamanna, en þar kom einmitt fram að einna erfiðast fannst þeim óhróðurinn sem á foreldrum þeirra dyndi, einkum í netheimum.

                ***

Hálfu merkilegra var þó að sjá viðbrögðin í athugasemdakerfum fjölmiðla og í spjallhópi Pírata, þar sem viðtölin við börnin voru fordæmd og þeim jafnvel sendur tónninn. Lengst var gengið af Jæja-hópnum, aðgerðasinnum Pírata, sem sagði „elítu-miðlana“ reyna að „normalísera Bjarna Ben og hina skíthælana með því að draga fram börnin þeirra. Þegar þú kúgar og dregur heila þjóð í gegnum áratuga sveltistefnu og nýfrjálshyggju þá máttu alveg búast við því að vera kallaður skíthæll“. Svo var þakkað fyrir að börn þeirra segðust ekki getað hugsað sér stjórnmálaþátttöku.

  ***

Menn geta haft sínar skoðanir á stjórnmálamönnum og verkum þeirra, en hitt hljóta flestir að vera sammála um að fjölskyldur þeirra eiga ekki slíkan aðsúg skilinn. Ekki fremur en það er í lagi að sitja um heimili þeirra. En sumum finnst það greinilega allt í lagi að viðhafa slíka afmennskun, ógnanir og ofbeldi. Það á ekki að líðast. Sama hvar við stöndum í stjórnmálum verðum við að standa vörð um mannhelgi og siðað samfélag.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.