*

sunnudagur, 7. júní 2020
Týr
23. nóvember 2019 14:02

Áfram Kata

„Hins vegar er það einstaklega gleðilegt hvað Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur brugðist skjótt og hyggilega við þessum ótíðindum suður úr Afríku og norðan af Akureyri.“

Gígja Einars

Namibíumál Samherja eru enn til umfjöllunar við kaffiborð landsmanna að ekki sé minnst á blessaða samfélagsmiðlana. Hvar værum við ef þeirra nyti ekki við? Af orðræðunni þar að dæma er talsvert í að niðurstaða náist um alla anga þess. Mögulega aldrei. Þess vegna ítrekar Týr óskir sínar frá fyrri viku um að viðeigandi yfirvöld — á Íslandi sem Namibíu — fjalli um málið af fullri alvöru og þunga. Því þó mönnum finnist stundum að kvarnir réttlætisins snúist hægt, þá mala þær ákaflega fínt.

***

Hins vegar er það einstaklega gleðilegt hvað Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur brugðist skjótt og hyggilega við þessum ótíðindum suður úr Afríku og norðan af Akureyri. Í umræðum á Alþingi sagði ráðherra að málið færi í réttan farveg og að ekkert umburðarlyndi væri af hálfu íslenskra stjórnvalda gagnvart lögbrotum, hvort sem um brot á lögum um mútugreiðslur, á lögum um peningaþvætti eða á lögum um skattsvik og skattundanskot væri að ræða: „Af minni hálfu er það algjörlega ljóst, og ég tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar allrar í þessu máli: Lögbrot verða ekki liðin. Það verður sömuleiðis farið yfir lagarammann, hvort einhverjar ástæður séu til úrbóta.“

***

Þetta var ákaflega skýrt og skorinort hjá forsætisráðherra, sem þar talaði af alvöru, skynsemi og myndugleika, sem fleiri mættu temja sér. Það er ámátlegt að fylgjast með þeirri pópúlísku sýndarmennsku, sem svo mörgum virðist orðin töm, líkt og hneykslanin sé dyggð og að í krafti hennar megi leggja hvað sem er til, hvort sem það nú tengist málinu, samrýmist stjórnarskrá eða góðri lýðræðisvenju. Helst jafnvel ekki, því skefjaleysið er ávísun á athygli, sem er einmitt það sem pópúlistarnir sækjast eftir.

***

Forsætisráðherra gerði þó meira en að mæla góð orð á Alþingi, því á eftir kom áætlun um aðgerðir: Auka gagnsæi í rekstri stærri óskráðra fyrirtækja og stórra sjávarútvegsfyrirtækja; stuðla að úttekt og úrbótum á fiskveiðum á alþjóðavettvangi; ljúka endurskoðun á skilgreiningu á tengdum aðilum vegna þaks á aflaheimildum fyrir áramót; tryggja viðbótarfjárveitingar til skattrannsókna; reisa auknar varnir gegn hagsmunaárekstrum og mútubrotum; veita viðbrögð erlendis. Þetta er allt til árangurs líklegt og flest löngu tímabært.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.