Félag kvenna í atvinnulífinu er 21 árs í dag, en félagið var stofnað 9. apríl 1999. Öllum þessum árum síðar skyldi maður ætla að ekki væri lengur þörf fyrir félag af þessu tagi og við gætum öll verið sammála um að jafnrétti hefði náðst. Við erum jú alltaf í fyrsta sæti í heiminum þegar kemur að því að mæla jafnrétti kynjanna og það er satt að í samanburði við önnur lönd er án efa  mikið jafnrétti á Íslandi. Það þýðir hins vegar ekki að það sé jafnrétti á Íslandi eða að tækifærin séu  jöfn fyrir karla og konur. Það væri því réttara að segja að við séum í skásta sætinu, en ekki því besta, þegar kemur að stöðu kvenna í atvinnulífinu á Íslandi.

Eitt augljósasta dæmið snýr að stjórnendum áhrifamestu fyrirtækja landsins. Aðeins ein kona hefur nokkru sinni orðið stjórnandi í fyrirtæki á Íslandi sem skráð er í Kauphöll Íslands, Sigrún Ragna Ólafsdóttir sem var forstjóri VÍS frá 2011-2016.

Ein af þeim leiðum sem við höfum til að vinna að raunverulegum breytingum til jafnréttis í atvinnulífinu er samvinna við hagsmunaaðila.  Allir hafa hag af því að auka fjölbreytni í atvinnulífinu og því stærra mengi sem við veljum úr, því betri árangri náum við. Þetta á við um nýsköpun og tækifæri einstaklinga til að hrinda í framkvæmd hugmyndum að verkefnum í þágu samfélagsins, aðgengi að fjármunum og framboði fjárfestingarkosta, stjórnar- og stjórnunarstörfum og almennt tækifæri til að hafa áhrif í samfélaginu. Þessi tækifæri eru ekki aðeins mikilvæg til að konur njóti sannmælis og fái verðskulduð tækifæri, heldur eru þetta tækifæri samfélagsins til að njóta sérfræðiþekkingar og reynslu kvenna jafnt sem karla. Við trúum á fjölbreytni til að mæta þörfum fjölbreytilegs samfélags og viljum sjá fólk af öllum kynjum, þjóðum, aldri og búsetu í áhrifastöðum.

Nú þegar við sjáum hinar alvarlegu afleiðingar af Covid 19 faraldrinum leggjast yfir samfélagið viljum við tryggja að það verði fjölbreytni við ákvarðanatökuborðin, því við þurfum öll að leggjast á eitt til að lyfta samfélaginu okkar áfram og upp til að mikilvægir hópar verði ekki útundan. FKA er skipað 1200 sérfræðingum kvenna, sem vilja láta rödd sína heyrast og mark á sér tekið. Með breiðri samstöðu í samfélaginu trúum við að leiðin liggi áfram og upp.

Greinin er skrifuð af stjórn FKA. Stjórnina skipa Hulda Ragnheiður Árnadóttir formaður FKA, Ragnheiður Aradóttir varaformaður, Lilja Bjarnadóttir gjaldkeri FKA, Sigríður Hrund Pétursdóttir ritari FKA, Á slaug Gunnlaugsdóttir og Margrét Jónsdóttir Njarðvík.