*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Ásta Sóllilja
18. nóvember 2019 10:51

Áfram stelpur!

Er nauðsynlegt að hvetja konur til að taka áhættu og leggja áherslu á að það sé í lagi að mistakast?

Frá ráðstefnu FKA
Aðsend mynd

Á ráðstefnu FKA á dögunum kom fram að þrátt fyrir að konur séu 67% útskrifaðra háskólanema og atvinnuþátttaka karla og kvenna á Íslandi sé nærri jöfn eru einungis 26% stjórnenda fyrirtækja konur. Þegar frumkvöðlasamfélagið á Íslandi er skoðað er það sama uppi á teningnum. Þrátt fyrir að þátttaka kvenna í sprotasenunni sé að aukast stýra konur einungis um 20% þeirra nýsköpunarfyrirtækja sem hlotið hafa fjármögnun frá íslenskum framtakssjóðum síðastliðin ár.

Erlendis er þeirri skýringu stundum teflt fram að í framtakssjóðum ráði karlar ríkjum og þeir fjárfesti síður í hugmyndum kvenfrumkvöðla. Á Íslandi stýra konur þremur af þeim fimm framtakssjóðum sem eru virkir í fjárfestingum svo sú skýring á varla við hér. Sterku stuðningssamfélagi nýsköpunar á Íslandi er að miklu leyti stjórnað af konum og við eigum öflugan kvennýsköpunarráðherra. Nýleg norsk rannsókn sýnir að barneignir geta ekki útskýrt kynjamun í frumkvöðlasamfélaginu. 

Hver er þá skýringin á því að mun færri konur en karlar velja að stofna eigin nýsköpunarfyrirtæki? Hvað er hægt að gera til að breyta þessu og virkja betur ónýtta kvenorku og snilli? 

Þurfum við kannski að vekja enn meiri athygli á okkar öflugu kvenfrumkvöðlum til að skapa sterkar fyrirmyndir fyrir komandi kynslóðir? Þurfum við að kveikja áhuga stúlkna meira á tölvum og tækni? Er nauðsynlegt að hvetja konur til að taka áhættu og leggja áherslu á að það sé í lagi að mistakast? 

Nýverið kynntu stjórnvöld nýsköpunarstefnu fyrir Ísland fram til 2030. Þar er ekki fjallað sérstaklega um þátt kvenna. Á næstunni stendur til að kynna nákvæmari aðgerðaráætlun til að hrinda stefnunni í framkvæmd. Vonandi verður þar að finna aðgerðir sem munu virkja nýsköpunarkraft kvenna á Íslandi enn frekar.

Höfundur er viðskiptaþróunarstjóri hjá Auðnu tæknitorgi.

Stikkorð: FKA Frumkvöðlar
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.