*

sunnudagur, 16. júní 2019
Pétur Blöndal
6. janúar 2019 12:02

Áframvinnsla, snjall iðnaður og fyrsta rafbílavísan

Eftir 60 milljarða fjárfestingarverkefni á árunum 2010-2015 eru einungis framleiddar stangir í álverinu í Straumsvík.

Álverið í Straumsvík.
Haraldur Guðjónsson

Það sætir tíðindum að álframleiðsla á Íslandi hefur aldrei verið meiri. Framleidd voru yfir 880 þúsund tonn árið 2017 og þegar talið er úr steypuskálum, þar sem búnar eru til virðismeiri afurðir með því að blanda álinu við önnur efni, þá fór framleiðslan í fyrsta skipti yfir 900 þúsund tonn.

Stundum er talað um að Íslendingar þurfi að leggja meira upp úr áframvinnslu áls á Íslandi. En vert er að benda á, að nú þegar er áframvinnsla í álverum á Íslandi. Hjá Fjarðaáli eru framleiddir vírar og melmir, flóknari og virðismeiri afurðir en venjulegir álhleifar. Eftir 60 milljarða fjárfestingarverkefni á árunum 2010-2015 eru einungis framleiddar stangir í álverinu í Straumsvík. Þær eru steyptar í ýmsum uppskriftum eða málmblöndum, stærðum og gerðum. Þá hefur Norðurál verið að stíga skref inn í framleiðslu melmis.

Á næsta ári eru 50 ár liðin frá því álframleiðsla hófst á Íslandi. Þetta er því ung grein á Íslandi í samanburði við sjávarútveg, sem stundaður hefur verið frá aldaöðli. En þróunin hefur verið sú sama, þó að ekki séu fyrirséð stór stökk í framleiðslumagni, þá er framleiðslan stöðugt að verða hagkvæmari, enda samkeppnin mikil á heimsmarkaði, meira er unnið úr afurðunum hér á landi og virðið er meira. Það sama á við um álframleiðslu og sjávarútveg, að heimamarkaður er lítill á Íslandi og yfir úthaf að fara á helstu markaði.

Við munum seint neyta alls fisksins sjálf sem við veiðum. Þetta verða fyrst og síðast útflutningsgreinar. En aukið vægi áls á síðustu árum og verðmætasköpunin sem því fylgir hefur dregið úr einhæfni íslensks atvinnulífs, sem reiðir sig ekki lengur einvörðungu á sjávarútveg. Um leið hefur það minnkað sveiflur og styrkt og breikkað grundvöll efnahagslífsins. Uppbyggingin hefur verið hröð á síðustu tveim áratugum og nú er svo komið að hundruð fyrirtækja eru í þeim klasa sem myndast hefur í íslenskum áliðnaði. Það felst mikið tækifæri í því að svo öflugur alþjóðlegur iðnaður sé í túnfætinum. Í fyrra keyptu álverin vörur og þjónustu fyrir rúma 22 milljarða og sú fjárhæð er mun hærri þegar stór fjárfestingarverkefni eru í gangi. Nú þegar fjórða iðnbyltingin er að hefjast er því kjörið tækifæri fyrir Ísland að sækja fram með snjallan iðnað, en til þess þarf að efla rannsóknir og þróun í samstarfi atvinnulífs, menntakerfis og stjórnvalda.

Það er einmitt höfuðáhersla formlegs klasaframtaks í áliðnaði sem stofnað var til árið 2015, en á fjórða tug fyrirtækja og stofnana eru þátttakendur og stendur Álklasinn m.a. fyrir árlegu Nýsköpunarmóti í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Til þess að keppa við Noreg og Kanada, sem einnig eru öflugir álframleiðendur og byggja á endurnýjanlegri orku, þurfa stjórnvöld að skerpa á framtíðarsýn sinni í áliðnaði. Ísland er næststærsti álframleiðandi í Evrópu og í því felst samkeppnisforskot. En til þess að nýta það, þarf menntakerfið að laga sig að áskorunum framtíðarinnar, þannig að mannauðurinn nái að halda í við þróunina. Á nýlegu menntaþingi Samtaka iðnaðarins talaði Rannveig Rist, forstjóri ÍSAL, um nýja iðngrein til framtíðar – snjallan iðnað sem byggi á stafrænum grunni. „Menntun og hæfni fólks þarf að taka mið af þessari þróun.

Menntun iðnaðarmanna er mér sérstaklega hugleikin í þessu samhengi. Iðnaðarmaðurinn í náinni framtíð þarf að vera fjölhæfur á sviði vél- og málmtækni, rafmagns- og hvers kyns tölvutækni. Hann þarf að vera afar fær að tileinka sér nýja tækni. Iðnaðarmaðurinn verður ekki leystur af með gervigreind eða róbóta. Handbragð iðnaðarmannsins verður áfram afar mikilvægt.“ Hún sagði hinsvegar að ýmislegt á starfssviði iðnaðarmanna kynni að breytast. „Við erum í raun að tala um nýja iðngrein framtíðarinnar.

Samkeppnishæfni okkar byggir á hæfu starfsfólki og menntun iðnaðarmanna verður að taka mið af þeim breytingum sem eru að eiga sér stað. Hefðbundnar iðngreinar verða að fá að breytast og þróast í takt við tímann og það er ekkert áhyggjuefni þó að einhverjar leggist hreinlega af í núverandi mynd. Það hefur raunar alltaf verið að gerast eftir því sem tækninni fleygir fram.“ Það sem knýr áfram eftirspurn áls er að það er hluti af lausninni í loftslagsmálum.

Ál er léttur en um leið sterkur málmur og bílaframleiðendur hafa farið þá leið að nota stöðugt meira ál í bílaflotann, en þannig létta þeir bifreiðarnar, draga úr brennslu eldsneytis og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Léttleikinn veldur því einnig að ál er mikið notað í rafmagnsbíla á borð við Teslu, en þannig komast þeir lengra á rafhlöðunni. Það er því ekki úr vegi að ljúka þessum pistli á „fyrstu rafbílavísunni“. Þegar Arnþór Helgason ætlaði að breyta gamalli jólavísu var Elín Árnadóttir eiginkona hans fljót að botna:

Bráðum koma kæru jólin, kaupmenn þurfa að breyta um stíl. Allir fá þá eitthvað fallegt í það minnsta rafmagnsbíl.  

Höfundur er framkvæmdastjóri Samáls, samtaka álframleiðenda. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is