*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Óðinn
5. september 2017 12:45

Afskiptasemi seðlabankanna

Óðinn hefur ekki séð sannfærandi rök fyrir því af hverju fjármagn á að vera undanskilið grundvallarlögmálum markaðarins.

Haraldur Guðjónsson

Í síðustu viku ákvað Seðlabankinn að halda stýrivöxtum (sem hann kallar reyndar meginvexti) óbreyttum og eru vextir á sjö daga bundnum innlánum því áfram 4,5%.

***

Í rökstuðningi peningastefnunefndar sagði m.a. að spenna í þjóðarbúskapnum kallaði á peningalegt aðhald svo að tryggja mætti verðstöðugleika til meðallangs tíma. Hræringar hefðu verið á gjaldeyrismarkaði og vísbendingar væru um að breytingar gætu verið fram undan í utanríkisviðskiptum og á húsnæðismarkaði.

***

Þá hefðu skammtíma verðbólguvæntingar hækkað lítillega frá síðasta fundi peningastefnunefndar.

***

Verðbólguvæntingar til langs tíma hefðu hins vegar lítið breyst miðað við nýlega könnun Seðlabankans á verðbólguvæntingum markaðsaðila. Lengri tíma verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefði þó hækkað undanfarna daga en það sem af er þessum ársfjórðungi er það í ágætu samræmi við verðbólgumarkmið bankans.

***

Þetta var með öðrum orðum hefðbundin yfirlýsing peningastefnunefndar.

***

Inngripin gagnrýnd

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Samtök atvinnulífsins sendu frá sér yfirlýsingu þar sem ákvörðun bankans var sögð valda vonbrigðum. Raunvextir á Íslandi væru allt of háir, einkum í samanburði við vaxtastig erlendis. Raunvextir hér væru margfalt hærri en í nágrannalöndunum. Hins vegar væri þessi vaxtamunur við útlönd lítið ræddur á fundum peningastefnunefndarinnar.

***

Þá gagnrýndu SA þá staðreynd að Seðlabankinn setti fyrir rúmu ári á innflæðishöft á fjármagn. Innflæðishöft hefti erlenda fjárfestingu á sama tíma og skaði þar með íslenskt efnahagslíf til lengri tíma.

***

Aðrir gagnrýndu inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði, en á fundi eftir tilkynningu vaxtaákvörðunarinnar sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri að bankinn hefði frá því í júní varið 2,9 milljörðum króna í viðskipti á gjaldeyrismarkaði.

***

Már sagði á fundinum að það væru kostir og gallar við það að Seðlabankinn gripi inn í þróun á gjaldeyrismarkaði. Við það jafni hann sveiflur, en sé um leið að stöðva leit markaðarins að nýju jafnvægi.

***

Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins, sagði í samtali við Vísi að það væri í sjálfu sér alvarlegt að bankinn ætli að fylgja inngripastefnu, sem draga eigi úr flökti, en geti ekki greint á milli flökts og stefnu krónunnar. Bankinn sé þá í vanda staddur.

***

Óhóflegar sveiflur

Stefán Broddi Guðjónsson, yfirmaður greiningardeildar Arion, banka sagði í sömu frétt að þær sveiflur sem hafa verið á gengi krónunnar í sumar hefðu verið óhóflegar og að bankinn hefði lítið beitt sér til þess að draga úr þeim.

***

„Veikingu krónunnar, og ekki síst ef hún á sér stað í miklum gengissveiflum, fylgir ótti við aukna verðbólgu. Í ljósi þess að Seðlabankinn hefur það að markmiði að halda verðbólgu og verðbólguvæntingum í skefjum er undarlegt að hann hafi leyft svo miklum sveiflum lítt hindrað að eiga sér stað. Ég tala nú ekki um í ljósi fyrri yfirlýsinga.

***

Svo er aftur annað mál hvort það sé æskilegt að Seðlabankinn sé stór þátttakandi á gjaldeyrismarkaði. Auðvitað er það ekki eitthvað sem við erum að kalla eftir til langframa,“ sagði Stefán Broddi.

***

Ekkert af þessu er svosem nýtt af nálinni. Það er ekki nýtt að Seðlabanki Más Guðmundssonar sýni óþarflega aðhaldssemi þegar kemur að vaxtalækkunum og eins er það ekki nýtt að þessi aðhaldssemi sé gagnrýnd af markaðsaðilum.

***

Góð afskiptasemi og slæm

Það vekur hins vegar athygli Óðins hversu ólík viðbrögðin eru annars vegar við vaxtaákvörðuninni og hins vegar inngripunum á gjaldeyrismarkaði.

***

Þrátt fyrir að bæði Stefán Broddi og Ingólfur finni að því hvernig staðið hafi verið að inngripum á gjaldeyrismarkaði segja þeir báðir að það sé líklega ekki æskilegt að Seðlabankinn sé stór þátttakandi á þeim markaði. Þeir segja það ekki berum orðum, en lesa má úr orðum þeirra að heppilegra sé að gengi gjaldmiðla ráðist af framboði og eftirspurn, en ekki af dyntum þeirra sem stjórna í seðlabönkum. Gengi gjaldmiðla, sem í raun má segja að sé verð þeirra, eigi að ráðast af markaðnum.

***

Hins vegar gerir hvorugur þeirra athugasemd við þá staðreynd að seðlabankinn stýrir með harðri hendi verðlagningu á fjármagni á innanlandsmarkaði. Vextir eru ekkert annað en verð á fjármagni og vaxtastigið á Íslandi ræðst að stórum hluta af ákvörðunum Seðlabankans.

***

Staða peningastefnunefndar gagnvart fjármagni er í raun sú sama og Verðlagsnefndar búvara gagnvart mjólkurafurðum. Heildsöluverð á mjólk er ákveðið af verðlagsnefndinni rétt eins og verð á fjármagni er ákveðið af peningastefnunefnd.

***

Taka ber fram að Óðinn hefur ekkert við þá Stefán Brodda eða Ingólf að sakast – hann nefnir þá bara í þessu sambandi vegna þess að þeir tjáðu sig um þessa tilteknu vaxtaákvörðun.

***

Það er merkileg staðreynd að hagfræðingar eru nær allir sammála um að verð á vörum og þjónustu eigi – að því marki sem það er hægt – að ráðast af samspili framboðs og eftirspurnar á frjálsum markaði, en eru einnig nær allir sammála um að verðlagning á fjármagni eigi að vera þar undanskilin.

***

Ábyrgð seðlabankanna

Óðinn hefur ekki séð sannfærandi rök fyrir því af hverju fjármagn á að vera undanskilið grundvallarlögmálum markaðarins. Þvert á móti má færa fyrir því rök að seðlabankar heimsins hafi – með einkavaldi sínu yfir peningamagni og vöxtum – haft mikil og afar neikvæð áhrif á hagkerfi heimsins.

***

Fjármálakreppuna, sem hófst árið 2008, má að stórum hluta rekja til ákvarðana sem teknar voru í stórum seðlabönkum, einkum þeim bandaríska. Vöxtum var haldið of lágum of lengi og peningamagn í umferð var blásið út – allt til að halda lífi í hagsveiflunni. Þessi uppsveifla var aldrei sjálfbær. Það vill svo til að það voru bandarísk undirmálslán sem urðu til þess að bólan sprakk, en alls konar önnur mein höfðu grafið um sig í hagkerfum heimsins sem hefðu getað hrundið fyrstu steinvölunni af stað. Dettur einhverjum í hug að grísk ríkisfjármál hefðu verið í góðum málum í dag ef ekki hefði verið fyrir bandaríska húsnæðismarkaðinn?

***

Eftir upphaf fjármálakreppunnar var því hins vegar ekki fyrir að fara að seðlabankar og hagfræðingar endurskoðuðu þessa nálgun. Þvert á móti var gefið í og til viðbótar við lágvaxtastefnuna tóku seðlabankar það að sér að kaupa upp skuldabréf í gríðarlegu magni – allt til að halda lífi í fjármálakerfi sem blásið hafði út á góðæristímanum.

***

Almenningur hefur nú orðið mun minni trú á fjármálamörkuðum og frjálsum markaði almennt, enda hefur „óheftum“ markaðnum verið kennt um það hvernig fór á haustmánuðum 2008. Raunin er hins vegar sú að það sem gerðist þá var að bóla sprakk. Til að finna raunverulega rót vandans verður að skoða hvernig bólan var blásin upp.

***

Þar bera seðlabankar heimsins stóran hluta ábyrgðarinnar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.