*

þriðjudagur, 28. september 2021
Týr
9. nóvember 2019 16:01

Aftur til Albaníu

Hvergi er fallist á að í Albaníu sé sú neyð að flýja þurfi land.

Frá þinghúsi Albaníu í höfuðborg landsins Tirana.
european pressphoto agency

Mörgum hefur þótt það lýsa verulegri harðneskju hjá valdstjórninni að flytja háóléttan hælisleitanda úr landi, þrátt fyrir ábendingu læknis um að konan væri „slæm af stoðkerfisverkjum í baki og ætti erfitt með langt flug.“ Á móti kemur að þrátt fyrir bakverkina hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að móður eða barni hafi verið hætta búin af ferðalaginu, flugið til Berlínar er 3½ tími og því ekki ýkja langt. Eins hefur ekki verið bent á neitt, sem aflaga hafi farið í málsmeðferðinni og loks er auðvitað gott að vita af því að ekkert amar að fólkinu, sem nú er komið heim til Albaníu.

                                                                       ***

En af hverju eru Albanir að leita hælis í öðrum löndum og það jafnvel á Íslandi? Á því er engin sannferðug skýring. Þar geysar hvorki stríð né hungursneyð, stjórnarfarið er sæmilegt þó nokkuð sé um spillingu og engin sú kúgun, sem hrakið gæti fólk úr landi til að leita hælis sem pólitískir flóttamenn. Mannréttindi eru þar yfirleitt ágætlega virt, þó þar á séu undantekningar (samkynhneigðir sæta margir yfirgangi og gamlir kommissarar kommúnistastjórnarinnar kvarta undan harðræði lögreglu).

                                                                       ***

Albanía er hins vegar eitt fátækasta land Evrópu — lágmarkslaun um 22.000 kr. á mánuði og meðallaun um 45.000 krónur — svo eftir að áritunarskyldu Albana inn á Schengen-svæðið var aflétt 2011 og flugfargjöld hröpuðu í verði, hafa tugþúsundir þeirra leitað betra lífs í Vestur-Evrópu. Það kemur hælisleit hins vegar ekkert við.

Í fyrra leituðu 19.978 Albanir hælis í Evrópu og Norður-Ameríku, en aðeins 298 (2,1%) var veitt það, flestum af mannúðarástæðum, þ.e.a.s. aðrar ástæður en að þeir væru á eiginlegum flótta frá heimalandinu og þörfnuðust hælis þaðan. Það er einfaldlega hvergi fallist á að í Albaníu sé sú neyð eða kúgun að fólki sé lífshætta búin nema það flýi land. Svo segir auðvitað sína sögu að í fyrra leituðu 4.342 manns hælis í Albaníu.

                                                                       ***

Óháð þessu einstaka máli þá er athyglisverð staðreynd að Albanir hafa á undanförnum árum verið einn fjölmennasti hópur hælisleitenda á Íslandi, langfjölmennastir 2015 og í 2. sæti árin á eftir, að jafnaði fimmti hver hælisleitandi á Íslandi. Af öllum löndum heims var Ísland í 12. sæti meðal hælisleitenda frá Albaníu. Það er því vel skiljanlegt að fólki frá Albaníu sé vísað úr landi þegar ljóst verður að hælisumsókn þess er tilhæfulaus, nema eitthvað annað brýnna komi til. Af því sem fram er komið virðist það ekki eiga við í þessu tlviki.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.