*

föstudagur, 16. apríl 2021
Óðinn
11. nóvember 2020 07:20

Ágúst Ólafur og hugsjónirnar

Sú hugmynd Ágústs Ólafs, sem Óðni finnst þó hvað merkilegust, er tillaga hans um stóraukna skattheimtu í sjávarútvegi.

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, settist fyrst á þing árið 2003, þá 26 ára gamall. Hann var efnilegur þingmaður og flestir álitu hann hinn venjulega hægri krata.

* * *

Þingferillinn var stóráfallalaus og raunar ekki mjög eftirtektarverður, en líklega var stærsta áfallið að verða varaformaður Samfylkingarinnar. Eða við skulum heldur segja, að aðdragandinn og afleiðingarnar af varaformannsbaráttunni hafi verið áfall, því hver einasti gestur á landsfundi Samfylkingarinnar árið 2005 leit svo á að Ágúst hefði nánast stolið stólnum. Hann hefði verið kjörinn varaformaður með því að smala ungu fólki inn á lista yfir landsfundargesti, aka þeim á landsfundarstað í rútum og gefa þeim flatbökur að borða að launum.

* * *

Það var ekki vel séð af hinum almenna flokksmanni, en andstæðingar flokksins nudduðu bæði honum og flokknum upp úr þessari uppákomu lengi á eftir.

* * *

Á þessum landsfundi tók Ágúst Ólafur ekki afstöðu til formannsframbjóðendanna tveggja, Össurar og Ingibjargar Sólrúnar, og því eignaðist hann engan vin á fundinum og varð svo út undan þegar kom að því að skipa í ráðherrastöður að loknum kosningum árið 2007. Einhverjir kölluðu hann þó pizzumálaráðherrann og var það lítil huggun harmi gegn.

* * *

Ekki tók betra við í bankahruninu 2008, þegar formaðurinn Ingibjörg Sólrún var erlendis og mátti glíma við bráðan heilsubrest að auki. Þá var varaformaðurinn sá síðasti, sem var látinn vita, og alls, alls ekki kallaður til þess að gegna störfum formanns í forföllum. Nei, þá var frekar kallaður til fallkandídatinn Össur til þess að koma flokknum í gegnum þá stórsjói alla.

* * *

Það má segja að Ágúst Ólafur hafi aldrei náð sér á strik sem stjórnmálamaður eftir þær niðurlægingar allar. Eftir hlé gaf hann sig þó aftur að stjórnmálum, en það er ekki hægt að segja að seinni hálfleikur hafi verið betri en sá fyrri. Sem er hálfu merkilegra í ljósi þess að þingflokkur Samfylkingarinnar er ekki svipur hjá sjón, ekki þjakaður af hæfileikafólki, dugnaðarforkum eða aðsópsmiklum leiðtogum. Ágúst Ólafur má heita sá eini þar, sem hefur sig eitthvað í frammi, en árangurinn ekki í neinu samræmi við erfiðið.

* * *

Hvað gerðist?
Í dag er málflutningur Ágústs Ólafs óþekkjanlegur frá því sem áður var. Skynsemi, hófsemi og trúverðugleiki í málflutningi hafa vikið og í staðinn hefur tekið yfir óöryggi og pólitík hentistefnunnar sem virðist engin mörk eiga.

* * *

Á dögunum leyfði Ágúst Ólafur sér að gagnrýna Katrínu Jakobsdóttur með þessum orðum:

„Við Willum [Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins] þekkjum alveg hver stjórnar. Og það er ekki Katrín.“

* * *

Þarna var Ágúst Ólafur að beita gamalkunnri aðferð og segja að forsætisráðherrann stjórnaði ekki ferðinni í eigin ríkisstjórn. Þetta hefur verið margoft gert. Til að mynda var Steingrímur J. Sigfússon sagður vera eiginlegur forsætisráðherra í vinstri stjórninni 2009-2013 og ekki dettur nokkrum í hug að Þorsteinn Pálsson hafi haft nokkra stjórn á Steingrími Hermannssyni og Jóni Baldvini Hannibalssyni í skammlífri ríkisstjórn 1987-1988.

* * *

Einhverjum tókst hins vegar að skilja þessa frekar þreytulegu ábendingu sem sérstaka kvenfyrirlitningu, sem er frekar langsótt, en enn skrýtnara var þó hitt, að Ágúst Ólafur baðst auðmjúkur afsökunar!

* * *

„Brýn mál“
Ágúst Ólafur lagði fram lista yfir brýn forgangsmál í vor til að bregðast við kórónuveirunni. Má segja að þar sé á einum stað eitthvert glæsilegasta safn vitlausustu hugmynda, sem komið hafa fram í þessari efnahagskreppu. Mögulega í lýðveldissögunni og er samkeppnin þó hörð.

* * *

Ágúst Ólafur lagði þar til að fjölga þeim listamönnum sem fái listamannalaun frá ríkinu, og færi fjöldinn úr um 325 manns í um 3.500. Kostnaðurinn við þá aðgerð hefði verið um sex milljarðar króna. Lesandanum finnst þetta vísast fjarstæðukennt, en okkar maður var rétt að byrja.

* * *

Ágúst Ólafur lagði til við umræðu um fjáraukalög í lok apríl að fjölga ríkisstarfsmönnum til að bregðast við Covid. Orðrétt sagði hann í ræðustól á Alþingi:

Það er afskaplega lítið í þessum pakka sem stuðlar til dæmis að því að búa til ný störf.“ Einnig sagði Ágúst Ólafur: „Af hverju ekki að fjölga opinberum störfum? Það er bæði þarft og væri skynsamlegt í þessu ásigkomulagi. Það er merkilegt að einu nýju störfin í þessum pakka séu sumarstörf. Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim en ég get svo sannarlega fullyrt úr þessum stól að fólk bjóst við meiru en hér má finna.“

* * *

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tók að sér að jarðsyngja þá hugmynd: „Þetta er einhver versta hugmynd sem ég hef heyrt, að nú sé ástæða til að fara að stórfjölga opinberum störfum. Ég held að það sé ekki verkefnið. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvert vandamálið er. Vandamálið er störfin í einkageiranum sem eru að hverfa. Það er rót vandans.“

* * *

Skattheimta í sjávarútvegi
Sú hugmynd Ágústs Ólafs, sem Óðni finnst þó hvað merkilegust, er tillaga hans um stóraukna skattheimtu í sjávarútvegi.

* * *

Kvótakerfið er ekki fullkomið kerfi, frekar en önnur mannsins kerfi, en það er samt besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi. Vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar heimilaði frjálst framsal á veiðiheimildum árið 1990, því að þrátt fyrir kvótakerfið, sem var sett á árið 1983, vantaði alla hagræðingu í greinina.

* * *

Sama ár og frjálsa framsalið var heimilað sameinaðist Grandi hf. og Hraðfrystistöð Reykjavíkur. Aðaleigandi og framkvæmdastjóri Hraðfrystistöðvarinnar var Ágúst Einarsson, fyrrum alþingismaður, hagfræðiprófessor og faðir Ágústs Ólafs. Ágúst eldri hafði verið framkvæmdastjóri í 13 ár og varð varaformaður stjórnarinnar við sameininguna.

* * *

Viðtal í Sjávarfréttum
Árið áður tók tímaritið Sjávarfréttir viðtal við Ágúst Einarsson (4. tbl. 1989  bls. 24-26). Þar sagði hann: „Það sem mönnum í sjávarútvegi hefur sárnað hvað mest í umræðunni um auðlindaskatt, er sú lítilsvirðing sem greininni er sýnd. Tónninn er yfirleitt sá að menn séu að sóa auðlindum og hagi rekstri sínum eins og aulabárðar. Auðvitað eru talsmenn auðlindaskatts ekki allir undir sömu sökina seldir, en allt of margir þykjast hafa uppgötvað sannleikann og boða hann án nokkurs tillits til umhverfisins eða forsögu málsins.“

* * *

Síðar í viðtalinu segir:

Ágúst segist sannfærður um, að sú leið að fækka skipum með því að selja veiðikvótana eða bjóða þá upp, sé ófær vegna þess hve veikburða íslenska fjármagnskerfið sé. Og Ágúst rökstyður þessa skoðun sína nánar: „Ég er hræddur um, að ef farið yrði að selja veiðileyfin eða bjóða þau upp, myndi það leiða til pólitískrar beitingar opinberra fjármuna í gegnum fjárlög, bankastofnanir og sjóðakerfið, svo þessi aðilinn eða hinn gæti keypt sér kvóta. Þetta yrði sjálfsagt gert í nafni byggðastefnu eða látið heita eitthvað annað, en aðalatriðið er, að þetta yrðu ekki frjáls og óheft viðskipti, sem eru þó undirstaðan undir hagkvæmni í sjávarútvegi.“

* * *

Ágúst selur
Í mars 2003 seldi Haf ehf., félag Ágústs Einarssonar, 7,8% hlut sinn í Granda hf. en fyrir söluna átti Haf ehf. tæp 8% í Granda. Þar með lauk að mestu afskiptum Ágústs Einarssonar af íslenskum sjávarútvegi og má segja að Ágúst hafi farið með fullar töskur fjár út úr greininni.

* * *

Eigið fé Hafs ehf. nam 2 milljörðum króna í lok árs 2003, á verðlagi dagsins í dag. Um 75% af eigin fé félagsins voru vegna sölunnar á hlutabréfunum í Granda.

* * *

Auðlindagjald var fyrst lagt á ári eftir að Ágúst Einarsson seldi sig út úr kvótakerfinu, svo við notumst við orðanotkun Ágústs Ólafs Ágústssonar.

* * *

Hvað segir Ágúst Ólafur?
Óðinn vill að endingu spyrja Ágúst Ólaf nokkurra spurninga.

1. Ertu ósammála því sem hagfræðiprófessorinn segir í viðtalinu við Sjávarfréttir?

2. Telur þú að Haf ehf. sé í einhverri skuld við ríkissjóð vegna þess hve mikið félagið hagnaðist á viðskiptum sínum með bréf í HB Granda?

Óðinn vill taka fram að hann skilur ekki hvernig umframrenta er fundin út en hugtakið er ítrekað notað af skoðanabræðrum Ágústs Ólafar.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.