*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Brynjar Örn Ólafsson
14. september 2019 13:43

Áhættuálag skuldabréfaútboða frá 2010

„mætti færa rök fyrir skuldabréfum sem vari án þess að veðja gegn verðmætasköpun hagkerfisins (ólíkt skortsölu)“

Aðsend mynd

Síðastliðin tíu ár hafa atvinnufyrirtæki nýtt sér íslenska skuldabréfamarkaðinn og selt 400 milljarða króna að núvirði til fjármögnunar á rekstri og fjármunamyndun. Sömuleiðis hafa sveitarfélög séð sér hag í að nýta markaðinn og selt skuldabréf fyrir um 67 milljarða á verðlagi dagsins í dag.

Í þeim 146 útboðum fyrirtækjabréfa sem fram fóru á tímabilinu voru að jafnaði seldir 2,5 milljarðar króna að nafnvirði og áhættuálag ofan á ríkistryggða vexti var að meðaltali um 136 prósentupunktar (pkt.). Sala sveitarfélaga var að jafnaði rúmlega helmingi lægri eða um 1 milljarður en fjárfestar hafa talið þau öruggari kost sem endurspeglast í lægra álagi sem var um 70 pkt.

Myndin sýnir hvernig álagið þróaðist í útboðum fyrirtækja og sveitarfélaga á tímabilinu þar sem útgefendur ákváðu að ganga að kauptilboðum fjárfesta. Árin 2014 til 2016 lækkaði álagið hjá fyrirtækjum um nærri 90 pkt. samanborið við árin 2010 til 2013 sem var þá um 190 pkt. að jafnaði. Frá og með árinu 2017 hefur álagið verið á uppleið og haldist nærri 165 pkt. á þessu ári. Sveitarfélögin upplifðu sambærilega þróun þar sem álagið fór úr liðlega 75 pkt. fyrstu fjögur árin í 50 pkt. en fór svo hækkandi frá 2017.

Á sama tíma og lækkun álagsins átti sér stað árin 2014 til 2015 juku lífeyrissjóðirnir við sig í skuldabréfum fyrirtækja svo að vægi þeirra í heildareignum sjóðanna fór úr um 5% í 7% samkvæmt Seðlabanka Íslands. Í framhaldinu hefur vægið farið minnkandi og í júlí síðastliðnum stóðu fyrirtækjabréf í 6% og sveitarfélög í 2%.

Hvað varðar túlkun álagsins þekkir lesandi eflaust að hvorki útgefendur né útgáfur eru einsleitar, hvað varðar fjárhagsstöðu, tryggingar og uppgreiðsluákvæði svo dæmi séu nefnd. Á síðunni hi.is/~boo4 má nálgast álagið fyrir einstaka útgefendur.

Í ljósi þess að álagið hefur farið hækkandi frá árinu 2017 verður að viðurkennast að heilt yfir hafa vaxtakjör á skuldabréfum atvinnufyrirtækja og sveitarfélaga ekki fylgt fullkomlega eftir 160 pkt. lækkun ávöxtunarkröfu ríkisbréfa á sama tíma samkvæmt Kodiak Excel.

Að teknu tilliti til að virði OMXI10 hlutabréfavísitölunnar er nú um 64 sinnum hærra en raunhagnaður síðastliðna tólf mánuði (sjá hi.is/~boo4) mætti færa rök fyrir skuldabréfum sem vari án þess að veðja gegn verðmætasköpun hagkerfisins (ólíkt skortsölu). Rökin verða ekki síður áhugaverð í ljósi þess að helming hagnaðar félaga í vísitölunni á síðastliðnum öðrum ársfjórðungi má rekja til endurmats og gengishagnaðar. Innlán er annað dæmi um var en ef þjóðhagsspár um hverfandi framleiðsluspennu rætast má fremur gera ráð fyrir áframhaldandi lækkun vaxta sem aftur ýtir undir verðmæti skuldabréfa.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.