*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Óðinn
27. janúar 2021 07:58

Áhætturekstur íslenska ríkisins

Heathrow við London, Charles de Gaulle við París, Frankfurt flugvöllur og Adolfo Suárez við Madrid eru allir í einkarekstri.

Stjórn Isavia ásamt forstjóra félagsins.
Aðsend mynd

Óðinn fjallaði um fyrirhugaða sölu á Íslandsbanka í síðustu viku og þá umræðu sem hefur skapast um hana. Hún er auðvitað á algjörum villigötum eins og þjóðfélagsumræðan er svo oft í okkar ágæta landi, og Ríkisútvarpið helst ábyrgt fyrir þeirri skógarferð með liðsinni félaga sinna á vinstri væng stjórnmálanna.

                                                              ***

Það sem vinstri menn virðast aldrei ætla að skilja er að atvinnurekstur er nánast í öllum tilfellum áhættufjárfesting. Vissulega er til starfsemi sem er það ekki. Má þar nefna allan pilsfaldakapítalismann sem umlykur mörg okkar ríkisreknu kerfi, líkt og menntakerfið og heilbrigðiskerfið.

                                                              ***

Bankarekstur hefur líklega aldrei verið eins viðkvæmur rekstur og í dag, ef frá eru talin óðaverðbólguárin á síðustu öld. Tryggð yngri kynslóðarinnar við bankann sinn er mun minni en þeirra sem eldri eru. Fjártæknifyrirtæki spretta upp með lausnir sem gera þessa tryggð enn minni. Neytendavernd gerir það að verkum að bankar eiga mun erfiðara með að klófesta viðskiptavini í langvarandi viðskiptasamband.

En síðast en ekki síst er regluverkið orðið svo flókið og eftirlitið orðið svo mikið að opinberir starfsmenn í fjármálaeftirliti hafa alltof mikið um rekstur bankanna að segja, aðeins með háskólagráður að vopni án þess að hafa nokkurn einasta skilning, reynslu eða þekkingu á bankarekstri.

                                                              ***

Auk þessa þá þarf, eins og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra benti á, að leita alla leið til ríkja á borð við Kína, jafnvel Norður-Kóreu, til að finna viðlíka eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum.

                                                              ***

Sannast hið fornkveðna að ekki verður - endilega allt - bókvit í askana látið. Menntun er mikilvæg en skynsemi og hyggjuvit er varla mikilvægara í nokkrum rekstri en einmitt bankarekstri þar sem grundvallaratriðið er að meta hvort viðskiptavinur er borgunarmaður eða óreiðumaður, eins og amma hans Davíðs Oddssonar var vön að kalla þá sem ekki stóðu við skuldbindingar sínar.

                                                              ***

Áhætturekstur í flugstöðvarrekstri

Í desember 2017 benti Óðinn á áhættuna sem felst í rekstri ríkisins í ferðaþjónustu. Þá sá Óðinn auðvitað ekki fyrir að ríkissjóður myndi veita Icelandair ríkisábyrgð á lánalínu ef reksturinn myndi stefna í þrot. Heldur var þar rætt um ríkisrekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.

                                                              ***

Óðinn hefur margsinnis bent á hversu mikil áhætta er fólgin í rekstri flugstöðvar fyrir ríkið en þá átti auðvitað enginn von á því að COVID-19 myndi taka hús á heiminum og lama flugsamgöngur í allt að tvö ár! Fjárhagslegur skaði ríkissjóðs af COVID-19 vegna tekjutaps Isavia er gríðarlegur og ekki á annan skaða bætandi auk útgjaldafyllerísins sem núverandi ríkisstjórn er komin í fyrir kosningar í haust.

                                                              ***

Seljum hluta flugstöðvarinnar

Nú hefur ríkissjóður lagt félaginu til 19 milljarða króna í auknu hlutafé á innan við ári. Nú ætti Bjarni Benediktsson að gera það sama og með Íslandsbanka, kanna áhuga á 25% hlut í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og aðskilja reksturinn frá flugvallarekstrinum sjálfum sem getur verið áfram á hendi ríkisins.

                                                              ***

Þá er rétt í því samhengi að minna lesendur á, áður en Guðrúnar Johnsen og Stefánar Ólafssynir þessa lands mæta í viðtöl í Ríkisútvarpi allra vinstrimanna, að þetta er nákvæmlega sú leið sem var farin fyrir löngu í mörgum löndum sem við berum okkur saman við.

                                                              ***

Einn af fjórum stærstu í ríkiseigu

Við skulum skoða þá flugvelli sem mest umferð er um í Evrópu. Um Heathrow í Lundúnum fara flestir farþegar á ári í Evrópu og næstflestir í heimi. Breska ríkið á engin hlutabréf í félaginu, ekkert frekar en öðrum flugvöllum í Lundúnum.

                                                              ***

Næstur í röðinni er Charles de Gaulle. Franska ríkið á ekki eitt hlutabréf í flugvöllunum þremur í nágrenni Parísar en félagið sem á flugvellina er skráð í kauphöllinni í París.

Schiphol í Amsterdam er sá þriðji en opinberir aðilar í Hollandi eiga tæplega 90% hlut í flugvellinum. Í fjórða sæti er Frankfurt flugvöllur. Þýska ríkið á engin hlutabréf í vellinum en hann er skráður í kauphöllinni í Frankfurt. Sá fimmti er Adolfo Suárez Madrid-Barajas í Madrid og spænska ríkið á engin hlutabréf í vellinum.

                                                              ***

Á Norðurlöndum má nefna að danska ríkið á til dæmis aðeins 39,2% í flugvellinum á Kastrup en alþjóðaflugvellirnir á hinum Norðurlöndunum eru í ríkiseigu. Kastrup er líklega ein best heppnaða flughöfn í heimi.

                                                              ***

Eigendur flugstöðvanna eru sérfræðingar í rekstri flugstöðva, oftar en ekki í mörgum löndum og skilja flugreksturinn vel. Stjórnarmennirnir eru ekki pólitískt kjörnir vildarvinir flokkanna eða afdankaðir stjórnmálamenn sem hefur verið hent á ruslahauga stjórnmálasögunnar.

                                                              ***

Neytendur blekktir - 90% fríhöfn

Fyrir utan áhættuna sem felst í flugstöðvarrekstri þá er óskiljanlegt að aðrar reglur gildi um skattlagningu í verslunum í flugstöðinni en í miðbæ Reykjavíkur - eða á Hólmavík.

                                                              ***

Það er sérstakt að löggjafinn hefur sett ótal reglur um neytendavernd í lögum en framkvæmdarvaldið, sem fjármálaráðherra ber ábyrgð á, segir neytendum ósatt úti í Keflavík. Þetta hefur Óðinn fjallað um áður og finnst rétt að endurtaka sumt.

                                                              ***

Það er lagður tollur á vörur, í það minnsta sumar, sem seldar eru í „fríhöfninni". Fríhöfnin færði til gjalda 674 m.kr. í áfengis- og tóbaksgjald í ársreikningi 2019. Fríhöfnin er því engin fríhöfn.

                                                              ***

Eftir því sem Óðinn kemst næst er þetta lítið brot, um 10%, af gjaldinu, sem innheimt er af þeim sem greiða fullt gjald, sem eru viðskiptavinir Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Heiti verslunarinnar er því ósannindi, og gæti heitið 90% Fríhöfn.

                                                              ***

Bókhaldsbrellur og milliverðlagning

Rekstur Isavia og reikningsskil í tengslum við 90% fríhöfnina eru einnig undarleg. Húsnæðiskostnaður ríkisreknu einokunarverslunarinnar er 4,2 milljarðar króna. Samkvæmt heimasíðu Isavia, eiganda Fríhafnarinnar, er Fríhöfnin með um 4.000 m² í flugstöðinni. Það gerir tæpar 90 þúsund krónur á fermetrann á mánuði, sem Fríhöfnin leigir svo dýrum dómum af eiganda sínum, Isavia.

                                                              ***

Verslunarpláss í Kringlunni kostar um 10 þúsund krónur á fermetrann. Það myndi þýða 480 m.kr. á ári í leigu. Þarna er ríkisfyrirtækið einnig að blekkja neytendur því stórgróði væri af rekstri 90% fríhafnarinnar ef húsaleigan væri ekki svo stórlega ýkt í reikningum Isavia og veltir Óðinn því fyrir sér hvort reglur um milliverðlagningu (e. transfer pricing) séu ekki þverbrotnar. Þessar reglur eiga að tryggja að viðskipti innan fyrirtækjasamstæðu séu á sama grunni eins og viðskiptin væru við ótengt fyrirtæki. Ekki verður séð að aðrar reglur gildi um Isavia og 90% fríhöfnina en önnur fyrirtæki í landinu.

                                                              ***

Það er í það minnsta líklegt að Skatturinn myndi ekki líta framhjá þessu í rekstri Símans, þar sem stjórnarformaður Isavia, Orri Hauksson, er forstjóri. Væri Óðinn stjórnarmaður í Isavia og 90% fríhöfninni myndi hann samþykkja ársreikninga félaganna með fyrirvara um þetta.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.