*

sunnudagur, 9. ágúst 2020
Óðinn
17. apríl 2018 18:02

Áhættusöm samþjöppun valds

Fjármálafyrirtæki geta afsalað sér allri ábyrgð ef að í opinberum reglum séu gerðar kröfur um sérstakt áhættulíkan.

epa

Í síðustu viku fjallaði Óðinn um óhóflegan áhuga Seðlabanka Íslands og Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á því að safna til sín eins miklu valdi og unnt er. Við höfum séð hér á síðustu árum hvaða áhrif það hefur haft að færa svo mikið vald á hendur einnar stofnunar. Húsleitir, tilhæfulausar rannsóknir og töpuð dómsmál eru aðeins hluti uppskerunnar.

Seðlabankinn stýrir því einnig hversu mikið fjármagn getur komið inn í landið. Það hefur verið sagt að hershöfðingjar séu gjarnir á að undirbúa sig fyrir síðasta stríð, en reyna ekki að sjá fyrir hvernig það næsta verður háð.

                                      ***
Það sama á við um Seðlabanka Íslands og aðra seðlabanka. Þeir eru að reyna að koma í veg fyrir síðasta hrun.

                                      ***

Það er því ágætt að skoða eina af ástæðunum fyrir því hvernig fór með fjármálakerfi heimsins þetta örlagaríka haust 2008, enda sýnir hún hættuna sem stafar af of mikilli miðstýringu.

                                      ***

Hvernig metur maður áhættu?

Í gamla daga, áður en það þótti spennandi að vinna í banka, var áhættustjórnun í bönkum einföld. Útlánaáhætta var stærsta áhættan og henni var stýrt með þumalfingursreglum sem bankamenn áttu auðvelt með að skilja. Þú ert íhaldssamur í útlánum, passar þig á hverjum þú lánar, byggir upp langtímasambönd við viðskiptavini og svo framvegis.

Kevin Dowd og Martin Hutchinson segja í bók sinni, Alchemists of Loss, að eina „tölfræðilega“ reglan sem menn þurftu að kunna við upphaf 20. aldar hafi verið 3-6-3 reglan. Fá lánað á 3%, lána út á 6% og vera kominn á golfvöllinn klukkan 3 á daginn.

                                      ***

Markaðsáhætta varð hins vegar sífellt meiri eftir því sem líða tók á áttunda og níunda áratug síðustu aldar og það varð flóknara og flóknara að meta áhættuna af eignarhaldi í gríðarlegu úrvali verðbréfa og afleiða. Hvernig var áhættan af hlutabréfaeign í London tengd áhættunni af skuldabréfaeign í New York? Mikilvægt var að sjá áhættu fyrirtækisins heildrænt og taka þannig ákvarðanir sem leiddu til betri nýtingar á fjármagni fyrirtækisins.

                                      ***

Upp úr 1990 fóru menn að búa til líkön sem byggð voru á nútíma eignasafnsfræðum, en í stað þess að nota þau aðeins um hlutabréfasöfn voru þau teygð yfir verðbréfaeign almennt, afleiður og gjaldeyrisstöður. Mælieiningin sem hlaut nafnið áhættuvirði (e. Value at Risk, VaR) varð vinsæl snemma á tíunda áratugnum, en í grunninn á hún að segja til um líklegt hámarkstap á ákveðnu tímabili.

                                      ***

Frægasta líkanið sem byggt var á áhættuvirði var RiskMetrics líkan JPMorgan, sem var farið að nota innan bankans í kringum 1990 og var kynnt opinberlega á ráðstefnu á vegum bankans árið 1993. Einfölduð útgáfa af líkaninu var svo gefin út árið 1994. Líkanið vakti gríðarlega athygli og allir vildu fá sitt eigið áhættuvirðislíkan.

                                      ***

Gamaldags álagspróf

RiskMetrics-líkanið byggði í einföldu máli á normaldreifingu áhættu á 480 mismunandi eignaflokkum. VaR á að segja notandanum hvaða tap hann geti að minnsta kosti átt von á á ákveðnu tímabili. Segjum að tímabilið sé einn dagur og líkurnar séu 95%, þá getur hann vænst þess að tapa að minnsta kosti áhættuvirðinu á tuttugu daga fresti.

Hins vegar segir líkanið ekkert um það hversu miklu meira en áhættuvirðinu hann getur átt von á að tapa. Notandi getur verið sáttur við VaR tjón, en hann er að engu leyti tryggður fyrir því að hann verði ekki á einhverjum tíma þurrkaður út.

                                      ***

VaR-líkönin virtust mun betri en álagsprófin sem notuð höfðu verið áður. Álagspróf, sem eiga að svara spurningunni „hvað gerist ef …“ eru í eðli sínu huglæg og þóttu ekki nægilega vísindaleg í þessum nýja nútíma fjármálastjórnunar. Brandarinn sem gekk á milli manna var „þeir sem geta gera, og þeir sem geta ekki nota álagspróf“.

                                      ***

Áhættustjórar högnuðust líka á VaR-líkönunum. Þau virtust vera svarið við öllum þeirra spurningum og hægt var að verja þau með vísan til íhaldssamrar áhættustjórnunar. Þau voru kennd í öllum virtustu háskólum heims og voru svo tekin inn í Basel-reglurnar árið 1996 og hafa verið þar alla tíð síðan. Áhættustjóri sem notar VaR fylgir öllum reglum og getur því ekki misst vinnuna ef allt fer til fjandans.

                                      ***

Þar komum við að stóra atriðinu í þessari sögu. Eðli líkansins skiptir ekki öllu máli. Það má vel vera að VaR-líkan henti einhverjum banka eða fyrirtæki alveg ágætlega. En þegar búið er að setja líkanið inn í alþjóðlega regluverkið og skikka alla banka til að nota það þá hættir líkanið að virka til minnkunar áhættu, en eykur þvert á móti líkurnar á stórkostlegu hruni.

                                      ***

VaR-líkönin eru notuð til að finna út hversu mikið laust fé fyrirtækin þurfa að hafa á takteinum til að mæta „líklegu hámarkstapi“ á ákveðnu tímabili. Í Basel-reglunum var miðað við 99% líkur og tíu daga tímabil. Þetta þýðir að af 100 tíu daga tímabilum mun fyrirtækið hugsanlega tapa því eigin fé sem lagt hefur verið til hliðar á einu slíku tímabili.

Það er óásættanlegt og því er í Basel-reglunum gert ráð fyrir „hræðslumargfaldara“ sem getur verið á bilinu 3–4. Til að gera flókna sögu einfalda þá á þessi margfaldari, samkvæmt fræðunum, að gera óviðráðanleg töp ómöguleg.

                                      ***

Vandinn virðist vera sá að þegar miðað er við normaldreifingu á áhættu þá ganga fræðin upp, en eiga lítið sammerkt með raunveruleikanum. Samkvæmt fræðunum eiga fjármálafyrirtæki ekki að geta lent í áföllum eins og þeim sem urðu árið 2008. Engu að síður eru áföll í fjármálageiranum ansi algeng.

                                      ***

VaR-líkönin segja bara til um hvað þú getur hugsanlega tapað miklu 99 daga af hverjum 100. Þau segja ekkert til um hvað tapið gæti orðið á þeim eina degi sem eftir stendur. Hið kaldhæðnislega er að hjarta áhættustjórnunar liggur í þessum eina degi. Allt starf áhættustjórans á að snúast um þennan eina dag, en ekki þá 99 daga sem ekki eru líklegir til að draga fyrirtækið niður.

                                      ***

Stóri gallinn

Eins og áður segir er stóri gallinn við þetta allt saman sá sem mestu máli skiptir. Það að VaR-aðferðin skuli vera bundin í Basel-reglurnar þýðir að öll fjármálafyrirtæki þurfa að nota sömu aðferðina við að meta og stýra áhættu. Á góðæristímum skiptir þetta ekki máli en þegar kreppan skellur á þá þýðir þetta að öll fyrirtækin eru jafn viðkvæm fyrir áfallinu og það útskýrir að stórum hluta af hverju svo mörg þeirra lentu í þeim vandræðum sem þau lentu í árið 2008.

                                      ***

Raunveruleg lausn væri að taka þessa kröfu úr Basel-reglunum og láta fjármálafyrirtækjunum það sjálfum eftir að stýra áhættu sinni. Það væri viðskiptavina þeirra að meta það hvaða fyrirtæki er með áhættustjórnun sem hentar þeim. Þeir áhættusæknari gætu átt viðskipti við fyrirtæki sem þeim henta og áhættufælnir gætu átt viðskipti við önnur fyrirtæki. Þetta myndi eflaust leiða til þess að einstökum gjaldþrotum myndi fjölga en minnka til mikilla muna líkurnar á því að fjármálakerfi færu í heild sinni á hliðina þegar illa árar.

                                      ***

Það eru hins vegar ekki miklir hvatar í kerfinu til að liðka fyrir slíkum breytingum. Það er hagur fjármálafyrirtækja að vera með kröfuna í opinberum reglum, því þá geta fyrirtækin afsalað sér allri ábyrgð á því hvernig fer. Innan eftirlitsstofnana er svo fólk, eins og við þekkjum hér heima, sem telur sig best til þess fallið að stýra áhættu heilu geiranna.

                                      ***
Raunveruleg dreifing valds og ábyrgðar er besta leiðin til að búa til kerfi sem getur staðið af sér áföll.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.