Verðbréfasjóðir sem miða við Úrvalsvísitöluna (OMXI8) hafa þurft að kaupa að lágmarki um 300 milljónir króna af hlutum Haga hf. í kjölfar nýrrar samsetningar. Þrátt fyrir hækkun CAPE ætti innkoma Haga í staðinn fyrir Vátryggingafélag Íslands hf. (VÍS) ekki að ýta undir áhyggjur af bólumyndun. Samkvæmt tilkynningu Kauphallar Íslands 16. júní síðastliðinn verða Hagar í OMXI8 í stað VÍS á síðari helming ársins. Áður höfðu Hagar verið í vísitölunni samfellt í fjögur ár eða frá ársbyrjun 2012 út árið 2015.

Við lokun markaða síðastliðinn fimmtudag var markaðsvirði Haga rúmlega þrisvar sinnum meira en VÍS eða 56 milljarðar króna á móti 17 milljörðum. Áætlað flotleiðrétt vægi Haga er tæplega 11% en samkvæmt KODIAK Excel var vægi VÍS rúmlega 3% við lokun síðastliðinn fimmtudag. Það að vægi Haga í OMXI8 er heldur hærra en VÍS veldur því að fyrrgreinda félagið hækkar virði vísitölunnar um 26 ma.kr. og undirliggjandi hagnað um 2 ma.kr.

Af þeim hlutabréfasjóðum, sem birta opinberlega upplýsingar um eignir sínar, hafa tveir þeirra yfirlýst markmið að endurspegla þakreiknaða útgáfu af OMXI8 (OMXI8Cap). Það eru kauphallarsjóður Landsbréfa, LEQ, og Úrvalsvísitölusjóður Íslandssjóða. Þegar þetta er skrifað miðast eignastaða þeirra við byrjun júní og tilheyrðu Hagar ekki fimm stærstu eignum. Því má gera ráð fyrir að þeir hafi þurft að kaupa um 300 m.kr. að markaðsvirði af hlutum í Högum til að endurspegla nýja samsetningu OMXI8. Upphæðin er talsverð þar sem hún jafnast á við tvöfalda meðalveltu Haga á dag síðastliðna tólf mánuði.

Aðrir hlutabréfasjóðir sem hafa OMXI8 sem ávöxtunarviðmið áttu á sama tíma ýmist minna eða meira af Högum eða að meðaltali 11% af eignsaafni sínu. Ef gert er ráð fyrir að þeir sjóðir sem eiga minna af Högum og vilja hækka hlutfallið í 11% þyrftu þeir að kaupa álíka upphæð eða um 300 m.kr. af hlutum í félaginu.
Auk fráhvarfs VÍS veldur lækkun vægis annarra félaga í vísitölunni við innkomu Haga því að minni stuðningur verður á kauphlið tilboðabóka þeirra. Að meðaltali lækkar vægi þeirra um 1%.

Hagsveifluleiðrétt hlutfall virði OMXI8 á móti hagnaði (e. Cyclically-Adjusted-Price-to-Earnings, CAPE) lækkaði milli mánaða úr 9,2 í 9,1 í júní. Ef skipt er út VÍS fyrir Haga hækkar hlutfallið um 5% í 9,6. Líkt og myndin sýnir er hlutfallið enn lágt í sögulegum samanburði. Ný samsetning ætti því ekki að ýta undir áhyggjur af verðbólu.
Nálgast má gögn um CAPE aftur til ársins 1995 á síðunni hi.is/~boo4.