Nýafstaðnar kosningar hafa ekki farið fram hjá neinum. Á þessum tímamótum er áhugavert að hugsa til þeirra stjórnenda og starfsmanna sem starfa í ráðuneytunum. Hvernig er ástandið í ráðuneytunum í dag þegar starfsstjórn er við völd og tíð ráðherraskipti hafa verið síðustu árin? Við horfðum upp á margra mánaða tímabil á síðasta ári og fram á þetta ár þegar starfsstjórn var við völd. Þegar þessi orð eru síðan skrifuð er enn óljóst hvenær ný ríkisstjórn tekur við.

Það sem gerist milli ráðherraskipta er að mörg málefni fara í ákveðna biðstöðu innan sérhvers ráðuneytis. Öll opinber stefnumótun sem þarfnast aðkomu ráðherra fer í bið og óvissa myndast varðandi ýmis mál. Þrátt fyrir það heldur starfsemi ráðuneytanna áfram og unnið er að nauðsynlegum verkefnum. Hins vegar þurfa mörg verkefni að bíða og önnur þarf að vinna hratt enda tímasetningar nýafstaðinna kosninga ekki í takt við hefðbundinn gang stjórnsýslunnar.

Leyndur kostnaður

Ef ég tengi þetta við stjórnunarkenningar, þá sýna rannsóknir fram á að það kostar um 1-2 árslaun að ráða og þjálfa nýjan stjórnanda. Inni í þeim tölum er þjálfunarkostnaður, töpuð þekking, reynsla o.fl. Það mætti áætla að kostnaður sé svipaður við skipan nýs ráðherra og þar er eingöngu horft á það út frá stjórnun sjálfrar stofnunarinnar sem ráðuneytið er.

Það krefst mikillar vinnu og tíma fyrir nýjan ráðherra að setja sig inn í verkefni ráðuneytis og stofnana þess til að öðlast góðan skilning á starfsemi og meginverkefnum ráðuneytisins. Það má segja í raun að það taki nýja ríkisstjórn um ár að komast á fulla ferð. Því til viðbótar mun næsta ríkisstjórn aðeins setja mark sitt á fjárlög 2018, en nota fyrri hluta næsta árs til að móta stefnu í ríkisfjármálum og leggja fram fyrsta fjárlagafrumvarp á þeim grunni haustið 2018.

Það má einnig velta upp þeirri spurningu hvort hæfasti einstaklingurinn verði alltaf fyrir valinu í stól ráðherra í hverjum málaflokki eða hvort það er eitthvað annað sem ræður því vali. Er viðkomandi með þekkingu eða hæfni á sviði t.d. heilbrigðismála, fjármála og umhverfismála? Hvaða áhrif hefur val á ráðherra á skilvirkni, gæði og ákvarðanatöku innan ráðuneytisins og þar með fyrir samfélagið? Mun nýr ráðherra nýta vinnu fyrirrennara síns eða hendir hann öllu út sem fyrri ráðherrar hafa gert?

Hvernig geta ráðuneytin tekist á við þessa áskorun?

Til þess að svara þeirri spurningu sem varð til þess að grein þessi var skrifuð þá er það ljóst að á þessum tímum reynir á hæfni stjórnenda ráðuneytanna. Þar mæðir mest á ráðuneytisstjórum, þ.e. að stýra ráðuneyti og verkefnum þess og að halda starfseminni gangandi á tímum óvissu. Þeir hafa það hlutverk að sjá um að verkefnum ráðuneytisins sé framfylgt.

Sem betur fer þá eru ráðuneytisstjórarnir hópur mjög hæfra einstaklinga sem eru vanir miklum breytingum. Við slíkar aðstæður verður hlutverk þeirra enn mikilvægara. Það gerir kröfu um fagleg vinnubrögð og hæfni stjórnenda til að takast á við þessa áskorun og þá þarf traust að ríkja gagnvart stjórnsýslunni og þeim störfum sem þar eru unnin.

Hvatning til nýrrar ríkisstjórnar

Undanfarin ár hafa verið óstöðug í stjórnmálum og óstöðugleikinn hefur aukist ár frá ári. Við slíkar aðstæður reynir mjög á starfsemi og stjórnun ráðuneytanna. Þekking æðstu stjórnenda ráðuneytanna á að stýra starfseminni á þessum tímum er mikil. En við búum í lýðræðisríki og höfum lagt kapp við að hlúa að því.

Nú stöndum við frammi fyrir því sem áður að unnið er að því að mynda starfhæfa ríkisstjórn sem á að taka við keflinu. Hvatning til nýrrar ríkisstjórnar er að leggja áherslu á hæfni við val á ráðherrum í viðkomandi ráðuneyti og samvinnu ráðherra í ríkisstjórn. Það er ekki einungis mikilvægt á okkar tíma. Það er nauðsynlegt. Lýðræðið er í þróun og við þurfum að leita nýrri leiða til þess að styrkja það.

Reynsla embættismanna hefur að sama skapi líklega aldrei verið meiri við slíkar aðstæður. Ráðherrar þurfa að vera trúverðugir innan stjórnsýslunnar sem utan hennar. Er hægt að gera það með því að auka gæði stjórnunar og samvinnu í ríkisstjórn þannig að fyrri vinna ráðuneyta nýtist á milli ríkisstjórna? Það gæti orðið til þess að hér náist betri sátt og í kjölfarið stöðugleiki í ríkisrekstri.

Höfundur er MBA og einn af eigendum Attentus – mannauður og ráðgjöf