Þingmenn eru loks farnir í langþráð sumarfrí. Ríkisstjórnin fórnaði nær öllu til að koma frumvarpi um stórfellda hækkun veiðigjalda í gegnum þingið, sem Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti réttilega sem drasli.
Flokkur fólksins ber skarðan hlut frá borði af þinglokasamningi enda nær flokkurinn engum af áherslumálum sínum í gegn. Ber þar helst að nefna tengingu almannatryggingabóta við launavísitölu og frumvarp sem ætlað var að tryggja strandveiðar í 48 daga í sumar.
Líkt og Sigurður Kári Kristjánsson, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins, benti á hlýtur Flokkur fólksins að velta fyrir sér eigin stöðu í stjórnarsamstarfinu í ljósi þessa. Niðurstaðan hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir flokkinn og kjósendur hans enda gefur hún kenningum um að Samfylkingin og Viðreisn hafi tilneydd ákveðið að fá flokkinn með sem hækju í ríkisstjórnarsamstarf byr undir báða vængi.
Týr óttaðist að fórnarkostnaðurinn af ríkisstjórnarsamstarfinu yrði að Flokkur fólksins fengju einhver af sínum dellumálum í gegn. Það að flokkurinn hafi enn sem komið er ekki náð neinu í gegn kann þó að benda til þess að Kristrúnu og Þorgerði hafi tekist að vængstífa Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, mun tryggilegar en nokkur hefði trúað. Henni tókst ekki einu sinni að ná í gegn frumvarpi sem heimilar skilyrðislaust búsetu ferfætlinga í fjöleignarhúsum.
Það að Flokkur fólksins nái engu máli í gegn sýnir hve lítið er að marka orð formanns flokksins sem lýsti því digurbarklega yfir í aðdraganda í síðustu þingkosninga að hún ætti ekkert erindi í ráðherrastól ef hún næði ekki að tryggja lágmarksframfærslu upp á 450 þúsund krónur á mánuði skattalaust. Þegar tækifæri gafst til að komast til valda kastaði hún þessu grundvallarstefnumáli flokks síns aftur á móti út á hafshauga.
Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, er tíðrætt um umbúðastjórnmál sem alltof margir stjórnarmálaflokkar, þá sérstaklega á vinstri vængnum, stunda. Þessi stefna endurspeglast í Flokki fólksins. Miklar umbúðir, í formi fagurra fyrirheita, reynast þegar á hólminn er komið innihaldslausar.
Týr er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.