*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Örn Arnarson
24. október 2019 16:55

Áhyggjur af starfsemi sem ekki er til staðar

Erfitt er að sjá hvað átt er við þegar kallað er eftir því að bankarnir dragi úr áhættusamri fjárfestingastarfsemi.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Haraldur Guðjónsson

Í sérstakri umræðu á Alþingi um íslenskt bankakerfi og sölu á hlutum ríkisins í bönkum sagði Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, að bankarnir stunduðu „fjárfestingarstarfsemi, stundum mjög áhættusöm, sem fjármögnuð eru með sparifé almennings. Bankar í eigu ríkisins ættu að draga sig út úr þess háttar starfsemi.“ Fleiri hafa haldið þessu sjónarmiði á lofti án þess að útskýra nákvæmlega við hvað er átt þegar rætt um áhættusöm fjárfestingaviðskipti.

Þegar efnahagsreikningur bankanna er skoðaður sést að nánast öll starfsemi þeirra snýst um hefðbundna lánastarfsemi. Samkvæmt Seðlabankanum námu heildareignir bankanna 3.900 milljörðum króna í ágústlok. Þar af námu útlán til fyrirtækja og heimila um 3.000 milljörðum króna.

Aðrar veigamiklar eignir bankanna eru bundnar í lánum til annarra fjármálafyrirtækja, lausafé í Seðlabankanum og í markaðsskráðum skuldabréfum sem eru gefin út af opinberum aðilum. Þessar eignir endurspegla ríflega lausafjárstöðu bankanna. Alls nema eignir bankanna í innlendum hlutabréfum öðrum en dótturfélögum um 70 milljörðum króna.

Í þessu ljósi er erfitt að sjá hvað er átt við þegar kallað er eftir því að bankarnir ættu að draga sig úr fjárfestingastarfsemi sem er sögð vera áhættusamari en gengur og gerist með önnur bankaviðskipti. Ekki nema það sé verið að kalla eftir því að bankar dragi úr lánveitingum til atvinnufyrirtækja. Við þetta má bæta að Alþingi hefur nú til meðferðar stjórnarfrumvarp um varnarlínu fjárfestingabankastarfsemi. Frumvarpið er byggt á tillögum höfunda hvítbókar stjórnvalda um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Verði það að lögum mun það takmarka svigrúm til þess að auka vægi fjárfestingastarfsemi bankanna þegar fram í sækir.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.