*

laugardagur, 4. desember 2021
Týr
8. ágúst 2021 12:47

Akademískt rugl

Hvað ætla allir þessi stjórnmálafræði-, laga- og hagfræðinemar að gera þegar þeir þurfa að takast á við raunveruleg vandamál?

Haraldur Guðjónsson

Undir lok árs 2017 gerði hópur stjórnmálafræðinemenda við Háskóla Ísland (HÍ) kröfu um að Hannesi H. Gissurarsyni yrði meinað að kenna við skólann og að kennslubækur hans yrðu teknar úr umferð. HÍ varð við kröfunni. Týr þekkir marga af fyrrverandi nemendum Hannesar sem flokka mætti sem vinstrimenn. Flestir þeirra voru og eru ósammála hugmyndum hans en átta sig á því hversu mikilvægt það er að takast á um hugmyndir og kunna því að meta kennslu hans. Það er liðin tíð.

* * *

Árið 2019 krafðist hópur nemenda við lagadeild Harvard-háskólans þess að Ronald S. Sullivan Jr., lagaprófessor við skólann, yrði sagt upp störfum eftir að hann gerðist hluti af verjendateymi kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein. Skólinn varð við kröfu nemendanna og sagði bæði Sullivan og eiginkonu hans upp störfum. Weinstein er ofbeldismaður sem nýtti stöðu sína með viðbjóðslegum hætti. Einhver hefði þó haldið að laganemar áttuðu sig á því að í réttarríki eiga allir rétt á vörn fyrir dómstólum.

* * *

Nú hefur hópur vinstrisinnaðra nemenda við London School of Economics (LSE) birt kröfugerð þar sem ein af kröfunum er sú að Hayek-félaginu verði bannað að starfa í skólanum. Félagið er, eins og nafnið gefur til kynna, kennt við bresk-austurríska hagfræðinginn, heimspekinginn og nóbelsverðlaunahafann Friedrich von Hayek, sem kenndi við LSE á árunum 1931-50. Nemendahópurinn segir félagið tala fyrir „frjálsu markaðshagkerfi sem leiði til kúgunar verkalýðsins“ og rétt sé að banna starfsemi félagsins þar sem „slíkar hugmyndir eigi ekkert erindi“ í skólann. Týr gefur sér að lesendur þekki vel hvernig hugmyndir Hayeks og skoðanasystkina hans áttu stóran hlut í því að móta þá hagsæld sem við búum við í dag. Það á eftir að koma í ljós hvort og þá hvernig skólinn mun höndla þessar kröfur.

* * *

Hvað ætla allir þessi stjórnmálafræði-, laga- og hagfræðinemar að gera þegar þeir þurfa að takast á við raunveruleg vandamál síðar í lífinu?

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.