Eftir rúmt ár af baráttu við heimsfaraldur stendur íslenska þjóðin á krossgötum. Framlínufólk og viðkvæmustu hópar samfélagsins eru að mestu bólusettir. Þá hefur aukinn fyrirsjáanleiki í öflun bóluefnis gefið okkur von um að bráðlega verði hægt að endurheimta líf án sóttvarna. Það er því tímabært að huga að uppgjöri á farsóttarskeiðinu og slá tóninn fyrir nýju hagvaxtarskeiði.

Samstaða og svigrúm

Farsóttarskeiðið hefur sýnt okkur þá einstöku samheldni sem ríkir í íslensku samfélagi. Þjóðin hefur treyst á ráð fremstu sérfræðinga landsins og með því haldið innlenda hagkerfinu gangandi. Stjórnvöld hafa sýnt að hægt sé að draga úr efnahagslegum áföllum með víðtækum aðgerðum og traustu samspili peninga- og fjármálastefnu þ.e. ef svigrúm er til staðar. Hagfelld skuldastaða ríkissjóðs undir lok síðasta hagvaxtarskeiðs var því lykilforsenda þess að hægt var að auka skuldsetningu í þeim tilgangi að auka samneyslu og opinbera fjárfestingu.

Óvissa og lítill fyrirsjáanleiki hefur dregið úr atvinnuvegafjárfestingu og þá hefur þjóðin fengið að finna fyrir því hversu berskjaldaður einsleitur útflutningur er gagnvart áföllum. Ferðaþjónustan hefur legið í dvala og markaðsaðstæður fyrir sjávarafurðir og ál hafa verið sveiflukenndar.

Hugvitsdrifinn útflutningur

Til þess að nýtt og sjálfbært hagvaxtarskeið geti hafist þarf að tryggja sterkt samspil einkaneyslu, samneyslu og fjárfestingar. En einnig þarf að ráðast í átak svo hægt verði að auka útflutning til muna. Útflutningur Íslands byggir eins og er að mestu á náttúruauðlindum í formi sjávarútvegs, orkunýtingar og ferðaþjónustu.

Lögmál skortsins setur vexti í þessum greinum þó skorður, eðli málsins samkvæmt. Til þess að ganga ekki á ósjálfbæran hátt á auðlindirnar, með tilheyrandi kostnaði fyrir komandi kynslóðir, verður að stóla á alþjóðageirann og hugvitsdrifinn útflutning. Til alþjóðageirans flokkast þau fyrirtæki sem eru í samkeppni á erlendum mörkuðum. Marel, Össur og Actavis eru gjarnan nefnd í þessu samhengi.

Samstilltur opinber- og einkageiri

Þörf er á samstilltu átaki helstu hagsmunaaðila á Íslandi til þess að stuðla að vexti og framgangi alþjóðageirans. Þetta mætti gera með svipuðum hætti og þegar Samráðsvettvangur um aukna hagsæld var settur á fót. Afrakstur þeirrar vinnu hefur lagt grunninn að meiriháttar framförum í íslenskri stjórnsýslu, menntakerfi og viðskiptaumhverfi. Nýr vettvangur þarf því ekki að finna upp hjólið, heldur þarf helst að leggja áherslu á að tillögunum sé fylgt fast eftir.

Tillögur samráðsvettvangsins í málefnum alþjóðageirans sneru fyrst og fremst að því að greiða fyrir aðgengi að framleiðsluþáttum þ.e. fjármagni og vinnuafli. En líkt og í sóttvarnarmálum er ekki aðeins hægt að treysta á tillögur sérfræðinga og stjórnvalda. Allir verða að leggja sitt af mörkum til þess að ná árangri. Í það minnsta verður opinberi- og einkageirinn að róa í sömu átt.

Áhersla á alþjóðlegt samstarf

Hlutverk hins opinbera þarf að vera skýrt og stoðirnar sterkar. Þar með er átt við skýran lagaramma, skattkerfi sem er hvorki íþyngjandi né flókið og sterkar stofnanir sem geta sinnt hlutverki sínu. Sátt þarf að ríkja á vinnumarkaði og þá þarf menntakerfið að skapa tækifæri fyrir komandi kynslóðir með því að stuðla að sókn í tækni- og raungreinamenntun. Jafnframt geta stjórnvöld beitt sér af meiri þunga við að laða erlenda sérfræðinga að sem útvíkka íslenskan þekkingarjaðar. Þá má hrósa stjórnvöldum fyrir að efla hvata til fjárfestinga í nýsköpun, rannsóknum og þróun, en sennilega má gera enn betur. Einnig eru stór sóknarfæri fyrir stjórnvöld til að stuðla að aukinni erlendri fjárfestingu hér á landi í alþjóðageiranum.

Eitt stærsta tækifæri stjórnvalda felst þó í því að efla sambandið við alþjóðlegar stofnanir og vinaþjóðir til þess að auðvelda íslenskum fyrirtækjum að auka útflutning til muna og fara í sókn á erlendum mörkuðum. Nýta þarf sjálfstæði Íslands til fulls við gerð viðskiptasamninga. Einnig þarf að auka vitund og skilning þjóðarinnar verulega á þeim tækifærum sem felast í EES samstarfinu og nánast óheftu aðgengi að 450 milljón neytendum á innri markaði Evrópu.

Stærðin skiptir ekki máli

Fyrirtæki og heimili þurfa síðan að endurheimta trúna á alþjóðlegum tækifærum og móta sér skýra en djarfa framtíðarsýn. Jafnframt þarf að leggja áherslu á bætta sjálfsmynd íslensks viðskiptalífs til þess að byggja upp kjark fyrir alþjóðlegri sókn. Stærð þjóðfélagsins á ekki að skipta máli, heldur hversu stórt það þorir að hugsa. Pharmaco, sem síðar varð Actavis á sér íslenskar rætur og er í dag eitt stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims. Össur hóf starfsemi á Íslandi árið 1971 og starfar í dag í 25 löndum og bætir hreyfanleika fólks með háþróuðum stoðtækjum og spelkum. Cargolux, eitt stærsta fragtflugfélag heims, á sér íslenskar rætur og hefur síðustu 50 ár byggt upp leiðakerfi sem spannar rúmlega 75 alþjóðlega áfangastaði.

Hugmyndin að Marel kviknaði líklega 1977 og er í dag einn stærsti framleiðandi matvinnslutækja í heiminum og minnkar þar með matarsóun í meira en 180 löndum á hverjum degi. Einnig má nefna Controlant sem er í dag í fararbroddi alþjóðlegrar dreifingar á bóluefni Pfizer þökk sé tækni sem fylgist með hitastigi lyfja. Hlutverk fjármálamarkaða er mikilvægt við uppbyggingu alþjóðlegra fyrirtækja, enda þarf að miðla fjármagninu í kerfinu til ákjósanlegustu hugmyndanna. Íslenskur fjármálamarkaður verður þess vegna að byggja upp enn frekari styrk til þess að styðja við fyrirtæki framtíðarinnar, greiða fyrir ytri vexti og tryggja virkt eignarhald þvert yfir lífsferil fyrirtækja.

Ákall til útrásar

Eins og alltaf þá þarf samspil ýmissa þátta til þess að hlutirnir geti raungerst. Þörf er á samstilltu átaki til þess að stuðla að vexti og framgangi alþjóðageirans. Miðla þarf sterku fjármagni og hæfu vinnuafli í stórhuga verkefni og tryggja þarf að opinberi- og einkageirinn séu að stefna í sömu átt. Handan við storminn er nýtt, langt og sjálfbært hagvaxtarskeið.

Til þess að það raungerist þarf þjóðin að fá útrás fyrir sköpunargleðina. Tækifærin í alþjóðageiranum eiga sér engar skorður og einu takmörkin sem okkur eru sett sem þjóð eru takmörkin sem við setjum okkur sjálf.

Höfundur er hagfræðingur og gjaldkeri Sambands ungra sjálfstæðismanna.