Ef Ísland á að uppfylla Parísarsamkomulagið, er nauðsynlegt að fara í hröð orkuskipti í samgöngum. Góðu fréttirnar eru þær að öll tækni er til staðar, raf-, metanog vetnisbílar eru tilbúnir til notkunar og með skynsamlegu skattkerfi má tryggja ásættanlegt verð. Þó að rafbílar verði að mestu leyti hlaðnir heima og á vinnustöðvum þá skipta hraðhleðslustöðvar miklu máli til að fleyta rafbílum lengra í langferðum. Vissulega eru að koma á markaðinn rafbílar með feikinæga drægni eða um 500 km en slík langdrægni er ekki ókeypis. Sem dæmi má nefna að ákveðnir bílaframleiðendur munu bjóða bíla á næstu árum sem verða í tveimur rafhlöðuútgáfum en eins að öðru leyti þ.e. eru með 300 eða 500 km raundrægni. Það er mikið hagsmunamál fyrir okkur neytendur að ódýrari bíllinn dugi og óþarfi sé að fjárfesta í lengri drægni. 200-300 km raundrægni er yfirdrifið nóg fyrir alla daglega notkun og með 30-60 mínútna stoppi við hrað- hleðslustöð verður hægt að ferðast 500-600 km án vandkvæða. Góðir innviðir á milli landsvæða eru því mikið hagsmunamál fyrir landsmenn til að minnka óþarfa offjárfestingu í stærri rafhlöðum. Nú þarf bara að spýta í lófana, kippa innvið- um í liðinn í hvelli og hér er ákall til þriggja lykilaðila.

Bensínstöðvar

Nú þegar eru yfir 4.000 bílar á götum landsins sem hægt er að stinga í samband. Ekki er ólíklegt að þeir nái 10 þúsundum strax á næsta ári og taki svo háflug í fjölda eftir það. Hlutverk olíusölufyrirtækja hlýtur að vera að þjóna öllum bifreiðaeigendum og því hvet ég þessi fyrirtæki til að koma upp hleðslustöðvum á afgreiðslustöðvum sínum um land allt sem allra fyrst. Það hlýtur að vera draumur allra sölufyrirtækja að festa viðskiptavini í hálftíma eða lengur og fá drjúgt tækifæri til að selja þeim veitingar og þjónustu, auk rafmagns. Vegna víðtækrar útbreiðslu olíuafgreiðslustöðva á Íslandi, myndi uppsetning hrað- hleðslustöðva á bensínstöðvum að miklu leyti eyða langferðatakmörkunum rafbíla og opna á rafvæðingu bílaleiga. Þó að fornaldarorka sé enn stærsti tekjupóstur bensínstöðva þá er ekkert því til fyrirstöðu að þreifa aðeins á nútímanum og aðlaga sig að framtíðinni.

Orkufyrirtæki

Orkufyrirtæki hafa auðvitað beinan hag af innleiðingu raf- og vetnisbíla.Orkufyrirtækin hafa í raun verið leiðandi í innleiðingu hleðslustöðva og ON mun m.a. loka hringnum strax á næsta ári. En nú þarf að auka umfangið og hraðann. Tekjuaukning orkufyrirtækjanna vegna rafvæðingu samgangna, gæti á endanum numið 7-10 milljörðum á ári. Rafbílar eru frábærir viðskiptavinir sem borga fullt verð fyrir raforkuna og geta flestir nýtt dreifikerfið eins og það er, án frekari fjárfestinga. Hvernig væri að orkufyrirtækin myndu til dæmis láta tekjur af sölu grænna skírteina renna í uppbyggingu fyrir innviði?

Fyrirtæki og stofnanir

Bestu staðir til að hlaða rafbíla eru þar sem bílarnir standa til lengri tíma s.s. við heimili og á vinnustöðum. Einföld hleðslustæði á vinnustöðum eru ekki yfirþyrmandi fjárfesting en aftur á móti frábær þjónusta við starfsmenn. Þetta er ódýr launauppbót fyrir starfsmenn fyrirtækja og stofnana. Í fyrsta lagi myndi hleðsla heima og í vinnu eyða öllum drægniáhyggjum rafbílaeiganda. Í öðru lagi myndi þetta nær tvöfalda raforkunotkun tengiltvinnbíla á kostnað olíu. Tengiltvinnbílar hafa um 15-50 km drægni á rafmagni en þurfa eftir það að skipta yfir á mengandi olíu. Það er því hlutskipti margra tengiltvinnbílaeigenda að keyra á hreinni orku í vinnuna en mengandi orku á leiðinni heim. Í þriðja lagi skapar hleðslumöguleiki á vinnustað möguleikann fyrir bifreiðaeigendur sem búa í fjölbýlishúsum, með takmarkað aðgengi á hleðslu, að fjárfesta í rafknúinni bifreið og hlaða hann að mestu í vinnunni. Þó að fyrirtæki gæfu starfsmönnum sínum raforku á bílinn þá yrði kostnaðar þeirra lítill, þökk sé frábærri orkunýtni rafbíla og ódýrri raforku hér á landi. Jæja landsmenn, látum nú ekki smá innviðauppfærslu standa í vegi fyrir framtíðinni.