*

mánudagur, 17. júní 2019
Leiðari
1. febrúar 2019 13:03

Ákvörðunarfælni

Það er hægt að setja endalausa fyrirvara og búa til forsendur sem fresta skipulagi og uppbyggingu. Það er til marks um ákvörðunarfælni.

Haraldur Guðjónsson

Átakshópur um aðgerðir á húsnæðismarkaði skilaði í síðustu viku 40 tillögum. Í hópnum sátu fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði, fulltrúar sveitarfélaga og fulltrúar forsætis-, fjármála- og efnahags- og félagsmálaráðuneytis. Þó hópurinn hafi verið skipaður vegna þess ófremdarástands, sem ríkt hefur á húsnæðismarkaði undanfarin misseri þá dylst engum að meginástæðan fyrir því að hópurinn var myndaður var til að liðka fyrir kjarasamningum. Það eitt og sér er umhugsunarvert, því auðvitað hefði átt að skipa hóp af þessu tagi fyrir mörgum árum síðan.

Þegar tillögurnar litu dagsins ljós í byrjun síðustu viku var þeim tekið fagnandi af aðilum vinnumarkaðarins. Tillögurnar, sem ekki hafa verið kostnaðarmetnar, eru af ýmsu tagi. Þær merkilegustu lúta að ýmsum kvöðum, sem lagðar eru á sveitarfélög um að tiltekið hlutfall byggingarmagns á tilgreindum svæðum skuli eyrnamerkt almennum íbúðum, félagslegum íbúðum eða öðrum leiguíbúðum. Þetta er róttæk tillaga, sem fróðlegt verður sjá hvernig unnið verður úr.

Fyrir þá sem ekki vita hvað almennar íbúðir eru þá eru það leiguíbúðir, sem byggðar eru með stuðningi frá hinu opinbera í formi stofnframlaga. Þetta eru íbúðir, sem ætlaðar eru til leigu á viðráðanlegu verði til fólks, sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Nafngiftin er óþarflega orwellísk því þegar flestir hugsa um almennar íbúðir hugsa þeir um almenna húsnæðismarkaðinn — hefðbundnar íbúðir á markaði. Nóg um það.

Eins og áður sagði hefur átakshópurinn lagt fram 40 tillögur. Er þessum tillögum skipt í sjö flokka og ber einn þeirra yfirskriftina ríkislóðir. Í honum er bara ein tillaga og snýr hún að Keldnalandi í Reykjavík, sem eðli málsins samkvæmt er í eigu ríkisins. Segir í skýrslunni að hefja ætti skipulagningu þar til þess að auka framboð húsnæðis. Eignarhald Keldnalands hefur lengi verið þrætuepli ríkis og borgar.

Keldnaland er gríðarlega fallegt byggingarland við Grafarvog. Það stendur við Vesturlandsveginn og með auðveldum hætti væri hægt að tengja það við Folda- og Húsahverfið. Með öðrum orðum þá er upplagt að skipuleggja þar byggð og jafnvel mætti hugsa það sem mótvægi við þéttingarstefnu núverandi meirihluta borgarinnar. Þéttingarstefnan er ágæt sem slík en hún hefur fyrst og síðast leitt af sér dýrar íbúðir, sem ekki á nokkurn hátt hafa leyst húsnæðisvanda ungs og tekjulágs fólks, sem eru þeir hópar sem hvað erfiðast hafa átt með að koma sér þaki yfir höfuðið.

Nú heyrist innan úr „kerfinu" að fyrirhuguð Borgarlína sé forsenda uppbyggingar að Keldum. Á manna máli þýðir þetta að ekkert mun gerast á Keldnalandinu næstu árin. Í umfjöllun um húsnæðismálin í Viðskiptablaðinu í dag kemur jafnframt fram að uppbygging á Keldum hafi meðal annars beðið vegna þess að ríkið vilji fá „hámarksverð" fyrir landið. Það þýði að erfitt sé að byggja félagslegar íbúðir og að mati borgaryfirvalda á ríkið ekki að vera stikkfrí þegar kemur að félagslegum markmiðum.

Þegar brýna nauðsyn ber til þarf að hugsa í lausnum. Væri til dæmis hægt að semja við ríkið um kaup á Keldnalandi, þar sem í samningnum yrði ákvæði um hvernig endanlegt byggingarmagn á svæðinu verður og hvers eðlis íbúðirnar verða?

Það er hægt að setja endalausa fyrirvara og búa til forsendur sem fresta skipulagi og uppbyggingu. Það er til marks um ákvörðunarfælni. Stundum er takturinn í embættismannakerfinu hægur og þá þurfa stjórnmálamenn að hafa sterk bein til þess að takast á við það. Nú, þegar tillögurnar hafa verið lagðar fram, er boltinn hjá stjórnvöldum og mega ákvarðanir til úrbóta ekki stranda í excel-skjölum embættismanna.

Talandi um excel-skjöl embættismanna. Átakshópurinn bendir á að mikill skortur hafi verið á upplýsingum um byggingarframkvæmdir í sveitarfélögum. Þetta hafi leitt til þess að hvergi sé hægt að nálgast nákvæmt yfirlit yfir hvað sé verið að byggja og hvar. Vill hópurinn að úr þessu verði bætt, skiljanlega.

Það er með hreinum ólíkindum að árið 2019 sé verið að tala um skort á upplýsingaflæði í tengslum við uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Hvernig í ósköpunum má þetta vera? Á meðan hið opinbera, ólíkar stofnanir og sveitarfélög, koma sér saman um það hvernig byggja megi sameiginlegan gagnagrunn, þar sem hægt er að sjá hversu mikið er verið að byggja í hverju sveitarfélagi, hvernig íbúðir og á hvaða byggingarstigi þær eru, þá bendir Viðskiptablaðið embættismönnum og stjórnmálamönnum á Google-sheets.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is