*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Brynjar Örn Ólafsson
11. apríl 2017 13:53

Ákvörðunarlíkan peningastefnunefndar SÍ

Verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði er breyta sem fjárfestar ættu að hafa í huga við gerð spár um ákvörðun peningastefnunefndar.

Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt reiknireglu eru verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði mest afgerandi við flokkun á vaxtaákvörðunum peningastefnunefndar. Í 67% tilfella sem væntingarnar voru yfir verðbólgumarkmiði hélt nefndin vöxtunum óbreyttum.

Vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands frá mars 2009 eru 67 talsins. 39 sinnum hefur hún haldið vöxtum óbreyttum, 19 sinnum lækkað og 9 sinnum hækkað.

Samkvæmt ítarlegum fundargerðum hennar hefur hún hliðsjón af fjölmörgum breytum hagkerfisins er hún tekur ákvörðun sinni. Meðal annars verðbólguvæntingum á skuldabréfamarkaði, væntri undirliggjandi verðbólgu án skattaáhrifa, framleiðsluspennu eða -slaka, launakostnaði á framleidda einingu, þróun gengisvísitölu krónunnar, og hvort virkir vextir bankans séu í samræmi við svokallaða Taylor jöfnu.

Í fundargerð síðustu ákvörðunar sem birt var síðastliðinn 29. mars kemur fram að „nefndin [hafi] verið einhuga um þá ákvörðun að halda vöxtum bankans óbreyttum með hliðsjón af örum hagvexti og skýrum merkjum um vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum.“ Hefur framleiðsluspenna áður ráðið úrslitum við ákvörðun vaxta?

Myndin lýsir ákvörðunarlíkani sem metið er með reiknireglu J48. Nær hún að flokka vaxtaákvarðanir rétt í 70% tilfella þegar tekið er tillit til fyrrgreindra sex breyta. Niðurstaðan er að verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði er sú breyta sem ber mestan árangur til aðgreiningar á ákvörðunum nefndarinnar. Í 35 af þeim 52 tilfellum, eða 67%, sem verðbólguvæntingar miðað við ávöxtunarkröfur fimm ára skuldabréfavísitalna Kauphallar Íslands voru yfir 2,8% daginn fyrir vaxtaákvörðun hélt nefndin þeim óbreyttum. Að sama skapi kom það ekki til að nefndin hækkaði vexti í þeim fimmtán tilfellum sem væntingarnar voru undir 2,8%.

Af hegðun nefndarinnar að dæma virðist framleiðsluspenna ein og sér ekki vera afgerandi breyta við ákvörðun vaxta. Miðað við sögulegar spár Peningamála Seðlabanka Íslands var frameiðsluslaki frá árinu 2009 fram til 2014 eða þegar 45 vaxtaákvarðanir voru teknar. Í 53% tilfella hélt nefndin vöxtum óbreyttum í slaka, lækkaði í 33% og hækkaði í 13%. Spenna hefur verið við lýði þegar 22 ákvarðanir hafa verið teknar og í 68% tilfella var vöxtum haldið óbreyttum.

Sé ákvörðunarlíkanið skoðað þar sem verðbólguvæntingar voru undir 2,8% og framleiðsluslaki var til staðar kemur í ljós nokkuð afgerandi niðurstaða. Slík tilvik koma upp átta sinnum, árin 2009 til 2011, og í öllum tilfellum lækkar nefndin vexti. Þetta er áhugavert í ljósi þess að í umræddum tilvikum var spá Seðlabanks fyrir undirliggjandi verðbólgu án skattaáhrifa að meðaltali tveimur prósentustigum yfir efri vikmörk 2,5% verðbólgumarkmiðs.

Verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði er því breyta sem fjárfestar ættu að hafa í huga við gerð spár um ákvörðun peningastefnunefndar.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is