*

laugardagur, 11. júlí 2020
Óðinn
2. september 2019 18:13

Álagning og ólögmætt athæfi skattyfirvalda

Ef menn eru á því að alþjóð varði um tekjur náungans er þá ekki jafnsjálfsagt að greina frá því hvað einstaklingar þiggja úr fjársjóðum hins opinbera?

Haraldur Guðjónsson

Óðinn sá á dögunum fréttatilkynningu þar sem varað var við svikapósti merktum ríkisskattstjóra. Af einhverjum ástæðum flaug hann í hugann þegar tekjublöðin úr álagningarskrá komu út um daginn. Að sama skapi varð Óðinn eilítið hissa á ákvörðun ríkisskattstjóra að hætta að birta lista yfir hæstu gjaldendur á grundvelli álagningarskráarinnar og senda fjölmiðlum. Hákarlalistann svonefnda.  

Frá árinu 1937 hafa skattyfirvöld tekið saman slíka lista og afhent fjölmiðlum óumbeðið. Í fyrstu voru aðeins birtar skattskrár en frá árinu 1982 hafa álagningarskrár verið birtar með þeim hætti, þar sem opinberir starfsmenn hafa lagt á sig vinnu, tíma og fyrirhöfn til þess að verða fjölmiðlum úti um umfjöllunarefni um fjárreiður einstaklinga.  

Óðinn ætlar ekki að slá því föstu að það hafi verið ólöglegt frá upphafi, en fullyrðir að það var að minnsta kosti ólöglegt frá árinu 1979, þegar lög nr. 40/1978 tóku gildi, en ákvæði núgildandi laga eru lítt breytt.  

Tilkynning ríkisskattstjóra um þetta hinn 24. maí var hvorki fugl né fiskur og erfitt að átta sig á afstöðu embættisins til grundvallar ákvörðunarinnar: 

Ljóst er þó að ríkisskattstjóri mun ekki senda fjölmiðlum upplýsingar um hæstu greiðendur, þar sem slík birting er ekki talin samræmast þeim ákvæðum sem gilda um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. 

Allar ákvarðanir stjórnvalda verða að eiga sér stoð í lögum og mega ekki vera í andstöðu við lög. Þetta byggir á einni mikilvægustu reglu í íslenskum rétti, lögmætisreglunni. Tekjuskattslögin skylda ríkisskattstjóra til að birta álagningarskrár og skattskrár, en heimilar þeim hvorki né skyldar til að vinna hákarlalistann, lista yfir tekjur þeirra hæstlaunuðu.  

Það er í raun ótrúlegt að embætti, sem treyst er fyrir að reikna út og innheimta skatta af fólki og félögum, skuli skauta svo létt hjá jafnalvarlegu máli. Er það þó ekki svo að aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við þessa iðju skattyfirvalda eða að ekki hafi leikið vafi á um hana fyrr en persónuverndarlög tóku gildi 2000 eða GDPR var lögfest. Hins vegar verður að segja Snorra Olsen, nýjum ríkisskattstjóra, til hróss, að hann batt loks enda á þessa iðju eftir að minnsta kosti 40 ára einbeitta brotastarfsemi skattyfirvalda.

Óðinn sér ekki nokkra ástæðu til þess að birta skrá yfir álagningu eða tekjur einstaklinga. Og reyndar ekki fyrirtækja heldur ef út í það er farið nema þau hafi sjálf valið að skrá hlutabréf sín í kauphöll eða undirgengist ámóta birtingu við útgáfu skuldapappíra. Reyndar eru ársreikningar félaga aðeins birtir þegar ábyrgð eigenda er takmörkuð, til dæmis í hlutafélögum og einkahlutafélögum, en ekki í sameignarfélögum og samlagshlutafélögum. Mörg félög um takmarkaðri ábyrgð skulda engum neitt um sínar fjárreiður. Hvers vegna að skylda þau til að senda ársreikninga sína til ársreikningaskrár, þar sem auðvelt er fyrir hvern sem er afla sér þeirra, vinna úr með ýmsum hætti og birta?  

Sama gildir um flest félög sem skulda. Ef einhver vill eiga viðskipti við félagið getur hann óskað eftir upplýsingum um rekstur félagsins, t.d. ársreikning, skuldayfirlit eða vottun frá viðskiptabanka. Ef félagið vill ekki veita slíkar upplýsingar verða engin viðskipti og ekki meira um það að segja. Einnig væri hægt að hugsa sér að þeim tilvikum þar sem rík krafa um neytendavernd er til staðar, verulegar fjárhæðir er um að tefla og hugsanlega fákeppni, þar sem neytandinn kemst ekki hjá viðskiptum við fyrirtæki, þá væri hægt að setja um það sérstök lög. 

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í síðustu viku en það er gefið út af sama útgáfufélagi og Viðskiptablaðið. Þó svo að Viðskiptablaðið (og jafnvel Frjáls verslun) hafi lýst því yfir að það sé mótfallið því að tilteknar upplýsingar um einkaaðila –  fólk sem fyrirtæki –  séu veittar af yfirvöldum, t.d. í dómum dómstóla, álagningarskrám eða upp úr sjúkraskrám, þá kemur það ekki í veg fyrir að blaðið fjalli um þessar upplýsingar. Löggjafinn hefur tekið afstöðu til málsins og upplýsingarnar opinberar. Þar með munu aðrir fjölmiðlar fjalla um þessi mál og Viðskiptablaðið og Frjáls verslun munu ekki eftirláta keppinautunum einum að gera grein fyrir hinu fréttnæma í þeim. Í því felst ekki velþóknun á upplýsingagjöf stjórnvalda, sem vandséð er að sé til annars nýt en að fullnægja hnýsni um hag náungans.  

Það er auðvitað rétt, sem bent hefur verið á, að tekjublöð veita innsýn inn í heim launakjara, mannjöfnuðar og hversu verðugir verkamennirnir eru launa sinna. Til að mynda þeirra nánast óskiljanlegu ofurlauna sem hafa tíðkast í skilanefndum og slitastjórnum.  

Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, gerði þóknanir slitastjórnarmanna að umtalsefni í ritstjórnargrein í Tímariti lögfræðinga haustið 2013 en töluvert var fjallað um greinina, m.a. í pistli Óðins „Að selja sálu sína“.  

Í greininni sagði Hafsteinn að meðal þeirra vandasömu og mikilvægu verkefna sem lögfræðingum er fengið að inna af hendi í uppgjöri hrunsins væri seta í slitastjórnum fjármálafyrirtækja. Það gerðu þeir sem opinberir sýslunarmenn, skipaðir af héraðsdómi. Hafsteinn benti á að tímagjaldið sem meðlimir slitastjórna krefðust væri mun hærra en gengur og gerist í réttarkerfinu. Að auki sætti undrun mikill fjöldi þeirra stunda sem rukkað er fyrir: 

Samkvæmt kröfuhafaskýrslu vegna Kaupþings, frá 20. nóvember sl. [innsk. 2012], mun t.d. hver og einn slitastjórnarmeðlimur hafa rukkað kr. 32.500.- fyrir hverja vinnustund (án vsk.). Samkvæmt skýrslunni eru meðaltekjur slitastjórnarmeðlima á bilinu 4,5 til 6 milljónir króna á hverjum mánuði það sem af er árinu 2013. Þeir tveir meðlimir slitastjórnarinnar sem eru með hæsta endurgjaldið skv. skýrslunni unnu að meðaltali 184-188 tíma í mánuði ásamt því að sinna öðrum krefjandi störfum samhliða. Þessar tölur kalla á útskýringar.  

Í tekjublöðum Frjálsrar verslunar undanfarin ár sést að bæði stærri og minni spámenn innan slitastjórnanna fengu gríðarleg laun. Stjórnvöld, alþingi og ríkisstjórn, hafa ekkert gert til að gera slíka gjörninga gegnsærri. Það er óhugsandi að allir kröfuhafar séu sáttir við þessa meðferð fjármuna búanna. Að fenginni reynslu þarf að setja ákvæði í lög sem takmarka heimildir skiptastjóra til að ákvarða sjálfir endurgjald sitt, en til þess að bæta gráu ofan á svart eru þeir í einstakri aðstöðu til þess að draga mál á langinn og skrifa út tíma eftir þörfum, jafnvel svo segja má að þeir éti búin að innan. Það þarf að fara fram virkt eftirlit og það á að vera í höndum kröfuhafanna sjálfra. Þeir þurfa að hafa mun rýmri heimildir til að skjóta ákvörðun skiptastjóra til dómstóla.  

En þótt þetta sjáist í tekjublaðinu eru engin rök til að birta tekjur allra skattþegna þar sem hver sem er getur nálgast þær. Mun nær er að gerð sé sérstök grein fyrir því í ljósi þessara sérstöku starfa í þágu kröfuhafa og almennings.

En svo má spyrja annarrar lykilspurningar – ef menn eru almennt á því að alþjóð varði um tekjur náungans. Er þá ekki jafnsjálfsagt og eðlilegt, jafnvel beri ríkari nauðsyn til, að greint sé frá því með skipulegum og aðgengilegum hætti hvaða styrki og bætur, niðurgreiðslur og fjárveitingar, einstaklingar sem lögaðilar þiggja úr fjársjóðum hins opinbera? Úr vasa skattgreiðenda? Svona ef menn telja að eftirlit almennings sé bæði nauðsynlegt og virki sem skyldi? Sem Óðinn leyfir sér að draga fullkomlega í efa. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.