*

mánudagur, 27. janúar 2020
Örn Arnarson
19. janúar 2018 17:02

Aldahvörf á bankamarkaði

Í krafti nýrra ESB reglugerða sem heimila fyrirtækjum aðgang að innlánsreikningum í bönkum munu tækirisar sækja inn á fjármálamarkað.

epa

Fyrr í þessum mánuði hófst innleiðing nýrrar greiðsluþjónustutilskipunar Evrópusambandsins (PSD II) víðsvegar um álfuna. Gert er ráð fyrir að tilskipunin verði innleidd að fullu árið 2019 og að hún komi til með að valda straumhvörfum á bankamarkaði. 

PSD II-tilskipunin skapar sameiginlegan markað fyrir greiðsluþjónustu í Evrópu. Ein veigamesta breytingin sem innleiðing tilskipunarinnar hefur í för með sér er að hún opnar fyrir aðgengi fyrirtækja að innlánsreikningum viðskiptavina fjármálafyrirtækja. Þetta þýðir að viðskiptabankar verða að veita öðrum fyrirtækjum óhindrað aðgengi að reikningum viðskiptavina sem veita til þess heimild.

Á sama tíma felur tilskipunin í sér að viðskiptabankinn getur ekki innheimt viðbótargjald, hvorki af viðkomandi fyrirtækjum né af viðskiptavininum. Þetta aðgengi verður jafnframt staðlað þannig að nánast öll fyrirtæki sem eigandi innlánsreiknings veitir heimild fyrir geta fengið aðgang án mikillar fyrirhafnar eða þröskulda. 

Fyrirtæki geta því með heimild eiganda innlánsreiknings greitt beint af honum og jafnframt safnað saman fjárhagsupplýsingum hans úr bankakerfinu til þess að geta veitt honum tiltekna þjónustu. Einsýnt þykir að stórir alþjóðlegir tæknirisar á borð við Google, Facebook og Amazon og nýsköpunarfyrirtæki á sviði fjártækni (e. fintech), svo að dæmi séu tekin, muni sækja fram í krafti þessara breytinga. Það mun fela í sér í miklar áskoranir fyrir hefðbundin fjármálafyrirtæki. 

Þar sem breytingin nær yfir hinn sameiginlega evrópska markað þurfa fyrirtæki sem ætla að sér að nýta sér breytingarnar til að veita nýja fjármálaþjónustu einungis að fá starfsheimild frá fjármálaeftirliti eins ríkis innan EES til þess að veita þjónustu hvar sem er á svæðinu. 

Íslenskur fjármálamarkaður er því ekki eyland í þessum efnum frekar en öðrum og þar af leiðandi er nauðsynlegt að taka mið af áhrifum þessara breytinga þegar rætt um er um framtíðarskipan fjármálamarkaða á vettvangi stjórnmálanna.

Höfundur er sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.