Þegar Viðskiptablaðið hóf göngu sína árið 1994 var íslenskt þjóðfélag með allt öðrum hætti en nú. Það átti einnig við um viðskiptaumhverfið og fjölmiðlaumhverfið svo sem líka. Áratuginn á undan hafði frelsi aukist á margan hátt – ótínd alþýðan mátti orðið eiga krítarkort og drekka bjór, einokun Ríkisútvarpsins úr sögunni, þjóðarsáttin hafði treyst stoðir efnahags- og atvinnulífs, en eins hafði EESsáttmálinn nýverið tekið gildi og fyrirsjáanlegt að honum fylgdi enn frekara frjálsræði og opnun út í heim. Öllu þessu fylgdi aukin bjartsýni og áræði, sem hafði víðtæk áhrif á þjóðlífið allt.

* * *

Viðskiptablaðið spratt úr þessum jarðvegi. Óli Björn Kárason, sem þá hafði um hríð verið dyggur blaðamaður á viðskiptakálfi Morgunblaðsins, taldi að það væri bæði rúm og ástæða til þess að gefa út sjálfstætt viðskiptablað, sem væri óhrætt við að segja skjalllausar fréttir úr viðskiptalífinu. Hann leitaði fyrir sér um bakhjarla og þeir voru á sama máli, að slíkt blað ætti erindi og væri raunar bráðnauðsynlegt til þess að sinna íslensku athafnalífi og þroska, einmitt þá þegar það virtist loks eiga sér vænleg vaxtarskilyrði.

Sumum fannst raunar markmið blaðsins nánast sérviskulegt, að blaðið ætti sér ekki vísa lesendur umfram 600-800 manns, sem seint gæti staðið undir sér. En þeir reyndust nú heldur fleiri, voru skjótt nokkur þúsund. Og þeir voru ekki aðeins dyggir lesendur, heldur góðir lesendur, sem bæði höfðuðu til auglýsenda og létu blaðið njóta velvildar sinnar með auglýsingum.

Það er máske skýringin á því hvað Viðskiptablaðið hefur reynst langlíft, svona á mælikvarða íslenskra fjölmiðla, eins og menn geta glöggvað sig á af myndinni, sem sýnir helstu prentmiðla landsins um þær mundir, fæsta ógleymanlega hvað þá ómissandi.

* * *

Ritstjórnarstefnan var skýr frá upphafi og hún var einföld: Viðskiptablaðið er málsvari frjálsra viðskipta. Í forystugrein fyrsta tölublaðsins var gefin yfirlýsing um að blaðið ætti „samleið með þeim einstaklingum, fyrirtækjum og samtökum sem aðhyllast svipaðar skoðanir, en fylgir engum stjórnmálaflokki eða hagsmunasamtökum“. Síðar var raunar gengið lengra í þá átt, þegar blaðið tileinkaði sér þau einkunnarorð að það væri málgagn atvinnulífsins.

Þar með er ekki sagt að Viðskiptablaðið sé hlutlaust. Það er rammkapítalískt og frjálslynt í eðli sínu og hneigist til hægri, eins og varla vefst fyrir nokkrum lesanda þess. Það hefur jafnvel gengið lengra en flestir aðrir íslenskir fjölmiðlar með því að mæla með framboðum í einstökum kosningum, stundum fleiru en einu, líkt og þegar lesendur voru hvattir til þess að greiða Sjálfstæðisflokknum eða Viðreisn atkvæði.

Blaðið hefur ekki aðeins haft sérstöðu hvað efniviðinn áhrærir, því efnistökin eru einnig öðru vísi. Á sama tíma og velflest önnur blöð hafa reynt að auka myndmálið og bjóða léttari og styttri fréttir hefur Viðskiptablaðið verið ákaflega „textadrif¬ið“ blað, eins og þessi vikulegi hlemmur ber með sér. Gaman að segja frá því að vorir læsu lesendur hafa aldrei kvartað undan of miklu lesmáli. Þvert á móti sýna lesendakannanir að lesendurnir kunna það vel að meta og lesa blaðið sundur og saman í 2-3 atrennum frá fimmtudegi fram á helgi.

* * *

Fjölmiðlun hefur breyst mikið á aldarfjórðungi, í takt við breyttar neysluvenjur og lífshætti.

Árið 1994 voru átta ár síðan einokun Ríkisútvarpsins á öldum ljósvakans var aflétt sumarið 1986, en nýjar fréttastofur soguðu til sín hæfileikafólk, sem varð til þess að laun hækkuðu töluvert í stéttinni, aðrir miðlar þurftu að bregðast við og samkeppnin varð mjög lífleg.

Þetta breytta umhverfi var gömlu flokksblöðunum mjög mótdrægt, því það varpaði enn sterkara ljósi en áður á að þar væru risaeðlur á ferð og þau dóu eitt af öðrum. Á sinn hátt áttu prentmiðlar sér þó þegar örðugt uppdráttar er leið að aldamótum, að einhverju leyti vegna þess að netmiðlarnir voru farnir að knýja dyra. Fjörleg vikublöð á borð við Pressuna, Eintak, Morgunpóstinn og Fókus, nutu þannig nokkurra vinsælda en fundu sér aldrei þann rekstrargrundvöll sem þurfti.

Tilkoma Fréttablaðsins gerbreytti fjölmiðlum ekki síður en Stöð 2 gerði á sínum tíma, ekki síst fyrir mikla meðgjöf eigenda, beina sem óbeina, á dögum stórubólu. Sem aftur skaðaði jötuninn Morgunblaðið mikið þrátt fyrir að eigendur þess gæfu því einnig væna innspýtingu. Stóru blöðin hlutu auðvitað sína skelli í hruninu, sem þau hafa enn ekki náð sér eftir, en hið sama átti einnig við um Viðskiptablaðið, sem þá var í eigu Exista og hafði vaxið ört fyrir auðsótt lánsfé í skjóli eigendanna, en varð á einni nóttu gjaldþrota. Það segir hins vegar sína sögu, að blaðinu var bjargað og það naut áfram tiltrúar síns tiltölulega fámenna en dygga lesendahóps, svo mjög að það hefur verið rekið með hagnaði frá árinu 2010. Geri aðrir betur!

* * *

Fjölmiðlaumhverfið hefur gerbreyst á þessum 25 árum, sem liðin eru síðan Viðskiptablaðið var stofnað, og allt bendir til þess að það muni enn breytast næstu 25 ár. Styrkur Viðskiptablaðsins er hins vegar enn sem fyrr sá, að það er sérhæft fréttablað, sem á sérstakt erindi við lesendur sína, bæði hvað varðar fréttir og upplýsingar, greiningu þeirra og skoðunum á þjóðmálaumræðu, sem enginn annar miðill uppfyllir með sama hætti.

Hver veit hvort Viðskiptablaðið mun halda áfram að koma út á bleikum pappír um ókomna tíð, en það er sennilega óhætt að fara að hlakka til 50 ára afmælis þess árið 2044. Gleðilegt sumar!