Öfgafullir tímar hafa tilhneigingu til að draga fram það besta og versta í mannkyninu. Undanfarna átta mánuði hefur heimsfaraldurinn farið með fyrirtæki, vörumerki, forstjóra, starfsmenn og hagkerfið í rússíbanareið sem við fórum aldrei í röðina fyrir.

Sum fyrirtæki hafa tekið snilldar ákvarðanir, önnur hafa verið grófir tækifærissinnar, á meðan enn önnur hafa farið óvenju skapandi leiðir í að halda sér á floti, sem hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með. Margir farþegar, og má þar helst nefna fyrirtæki í tækni, eru að njóta ferðarinnar í botn.

Netverslun er að aukast gríðarlega, zoom-a er orðið að sagnorði enda um 300 milljónir manna sem nota zoom daglega og það er komið í tísku að vera með hreinar hendur, fyrirtækjum í framleiðslu á hreinlætisvörum til mikillar gleði.

Önnur fyrirtæki eru ekki að njóta ferðarinnar eins vel og lifa nú við afar þröngan kost, en eins og Winston Churchill sagði á sínum tíma, það á aldrei að sóa góðri krísu. Í síðustu krísu eða eftir hrun blómstraði nýsköpun, ferðamannaiðnaðurinn fór svo sannarlega á flug og skilaði okkur út úr hruninu mun fyrr en við áttum von á.

Það er því mikilvægt að við séum meðvitaðir neytendur og styrkjum þá starfsemi sem við viljum að lifi af rússíbanaferðina og eins hugsum um hvað er það sem mun leiða okkur út úr þessari krísu og fá atvinnulífið og hagkerfið til að blómstra á ný. Okkur verður öllum örugglega örlítið flökurt í einhvern tíma eftir mismikla snúninga en komum svo til með að jafna okkur.

Niðurstaðan er undir okkur komin, verum skapandi, sveigjanleg, prófum nýjar leiðir og hugsum út fyrir þægindarammann, því þótt það geti verið gott að dvelja þar þá gerast töfrarnir þegar við förum út fyrir þægindarammann.

Þóra Hrund Guðbrandsdóttir er framkvæmdastjóri ÍMARK.