*

föstudagur, 19. júlí 2019
Jóhannes Stefánsson
3. október 2014 10:21

Allir ánægðir með mjólkina

Forstöðumenn MS hljóta að eiga svör við því hvers vegna einokunarstaða í mjólkurframleiðslu sé betri en frjáls samkeppni.

Aðrir ljósmyndarar

Mjólkursamsalan, þegar hún er mæld á ánægjuvog neytenda, þá er hún mjög hátt yfirleitt,“ sagði Guðni Ágústsson fyrrverandi landbúnaðarráðherra, í umræðum um alvarleg samkeppnisbrot MS. Ok, ég skil. Við getum þá bara hætt að pæla í þessu.

Samkeppnislög voru ekki sett fyrir tilviljun. Samkeppni stuðlar að hagkvæmri nýtingu á framleiðsluþáttum þjóðfélaga. Það er ekki hending ein að þar sem viðskipti eru frjáls mælast lífsgæði og almenn velmegun margfalt hærri á svo til öllum mælikvörðum en þar sem þeim er handstýrt. Það var heldur ekki af ástæðulausu sem Íslendingar sögðu skilið við samfélag hafta, skömmtunar og úthlutunar á seinustu öld – að mestu leyti.

Það hlýtur því að vera virkilega óþægilegt að vera í þeirri stöðu, árið 2014, að þurfa að halda því fram að samkeppni sé slæm. Að hún hækki verð, ýti undir sóun, dragi úr úrvali og skerði lífskjör bænda. Að það sé betra fyrir alla að fyrirtækið, sem þú ert í forsvari fyrir, haldi áfram viðskiptum í stíl haftasamfélagsins sem allir aðrir kvöddu fyrir hundrað árum og enginn saknar.

Í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að úrval á ostum hér á landi sé miklu minna heldur en í Bretlandi, þar sem samkeppni er töluvert meiri á mjólkurmarkaði. Í öllum íslenskum stórmörkuðum fást um níu tegundir af sneiddum osti. Í einni verslunarkeðju í Bretlandi eru tegundirnar 28.

Þess vegna er ástæða til að vorkenna forstjóra MS. Það er ekki öfundsvert hlutskipti að þurfa að halda því fram að fyrirkomulag verslunar sem var fundið upp fyrir mörg hundruð árum, með handstýrðu verði, magni og úrvali, sé betra en fyrirkomulag sem skaut almenningi út úr skítköldum moldarkofum inn í hús með handklæðahitara á örfáum áratugum. Forstöðumenn MS hljóta að eiga svör á reiðum höndum við því hvers vegna einokunarstaða í mjólkurframleiðslu sé betri en frjáls samkeppni – og hvers vegna þau rök gildi ekki á öðrum mörkuðum. Fyrir sjö milljarða á ári hlýtur að mega að henda í góða skýrslu um það. Sakna bændur ekki örugglega ferðaskrifstofu ríkisins?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.